Skírnir - 01.04.2017, Page 175
175að nema land með nafni
og það sem öllum sannkristnum mönnum — þar með talinni Ör-
nefnanefnd — ber öllu öðru frekar að rýma úr huga sér, vilji þeir
halda sáluhjálp sinni hreinni („Nafngift nýju eyjarinnar“ 1964:3).“
Surtsnafnið er í stuttu máli lagt að jöfnu við nafn djöfulsins. Þá
bendir höfundur á að nafnið Vesturey sé í raun höfundarlaust því að
svo mörgum hafi dottið það í hug. Þar birtist aftur hugmyndin um
sjálfsprottið nafn sem flæði fram eins og náttúran, án aðkomu
nefnda eða valdamanna. Sérstaklega hafi sjómannastéttin í Eyjum
sameinast um nafnið, höfuðstoð í lífsbaráttu Eyjamanna. Neðan við
bréfið lýsa formenn ýmissa samtaka og stéttarfélaga í Eyjum stuðn -
ingi við kröfu um nafnbreytingu, þ.á m. útvegsbændur, vélstjórar,
kennarar og stjórn kvenfélagsins.
Ekki voru þó allir Vestmannaeyingar sammála. Hinn 10. apríl
1964 mælir Páll H. Árnason (1964a) með nafninu Surtsey í Fylki og
þakkar örnefnanefnd fyrir það. Hann kallar eyna „sævar nýlendu“
og finnst Vesturey ekki vera neitt nafn. Það skorti reisn og kannski
smávegis rómantík í nafnið. Í því sambandi nefnir hann að reisn
staða eigi að endurspeglast í nöfnum og nefnir t.d. Glóðafeyki og
Tindastól. Er virkilega ekkert merkilegra við nýlenduna en að hún
sé í vesturátt?
Orð Páls virðast hafa reitt Jóhann Pálsson til reiði. Hann and-
mælir af nokkurri biturð þeim Vestmannaeyingum sem hafi tekið
undir Surtseyjarnafnið enda sé hann bara venjulegur „sjóhlunkur“
en hinir skáld, kennari og háskólaborgari (Jóhann Pálsson 1964a:
1–2). Hann vekur strax athygli á því að tveir þeirra séu aðfluttir og
geti því ekki skilið málið til hlítar en vonar að afkomendur þeirra
blandi blóði við hreinræktaða Vestmannaeyinga. Hér bendir Jó-
hann á atriði sem er mikilvægt í þessu sambandi, nefnilega það að
Vestmannaeyjabær var nýbúinn að kaupa eyjarnar af ríkissjóði
(1960) að undanskildu prestsetrinu, vitajörðinni Stórhöfða, húsi
bæjarfógeta og flugvallarlandi. Enginn vafi leiki á því að eyjan nýja
sé innan lögsögu og þær nytjar sem þar kunni að verða, t.d. fugla-
tekja og hagbeit, verði með sama hætti og í öðrum eyjum. Jóhann
stingur upp á því að gígurinn sjálfur heiti Glóðarfeykir í Vesturey
— næstum eins og sú tillaga sé tilraun til að miðla málum með því
að leggja til skáldlegra og háleitara nafn meðfram hinu hversdags-
skírnir
Skírnir vor 2017.qxp_Layout 1 31.3.2017 13:24 Page 175