Skírnir - 01.04.2017, Page 188
Af lýsingum samtíðarmanna að dæma hefur Rimbaud ekki bein-
línis verið hvers manns hugljúfi. „Engill og djöfull“ voru orðin sem
Verlaine valdi honum. Og Jónas var ekki heldur alltaf aldæla í sam-
skiptum við náunga sína, samanber ummæli séra Björns Þorvalds-
sonar á Stafafelli í Lóni sem talar um „hryggilegan viðbjóð, mann
sem enginn þolir að vera nálægt“ (Páll Valsson, Jónas Hallgríms-
son: Ævisaga, bls. 357).
En ólíkir eru þeir að upplagi. Jónas er hinn þjóðholli, sprottinn
úr sögu og menningu þjóðarinnar og fyllist eldmóði í baráttu fyrir
endurreisn alþingis á Þingvöllum. Seint sæjum við stjórnleysingj-
ann Rimbaud í þeim sporum. Hann upplifir Kommúnuna 1870
þegar alþýða Parísar steig fram og stofnaði fyrsta alþýðuríki ver-
aldar þar sem komið var á stéttlausu samfélagi launajafnaðar og stóð
í röska tvo mánuði áður en hún var brotin á bak aftur með fáheyrðri
grimmd. Ef marka má minningarskjöld á blóðvellinum í París voru
þrjátíu þúsund manns tekin af lífi. Slátrað. Ógleymanlegar eru ljós-
myndir sem teknar voru af líkum hinna föllnu þar sem þeim hafði
verið komið fyrir í opnum klasturkistum í fötunum sem þau stóðu
í á stund aftökunnar, karlar og konur, hárafar og klæðnaður svo
glettilega líkt okkar hundrað árum síðar, sem auðveldaði sam-
sömun. Segja má að heilli kynslóð andófsfólks hafi verið kippt brott
og náði ekki vopnum sínum á ný fyrr en önnur var vaxin upp.
Þessi fjöldamorð hafa að sjálfsögðu fylgt Rimbaud í útlegðina,
hann skal hafa verið með óbragð í munninum og viðbjóðinn í
svipnum.
* * *
Þar með hefst það skeið í ævi Rimbaud sem sveipað hefur gervallan
feril hans dul: hann hættir að yrkja rétt tvítugur og tekur til við
vopnasölu á Arabíuskaganum í von um skjótfenginn gróða. Nú er
engan veginn fáheyrt að skáld hætti að yrkja, Steinn Steinarr,
höfuðskáld okkar á tuttugustu öld, kvaðst hafa ort öll sín ljóð á tíu
ára tímabili. Fór að vísu ekki til Afríku að því búnu, en hafði áform
um fasta vetrarsetu á Spáni áður en dauðinn heimti hann til sín, rétt
fimmtugan. Arabíuför Arthurs Rimbaud er alls ekki svo fráleit,
188 pétur gunnarsson skírnir
Skírnir vor 2017.qxp_Layout 1 31.3.2017 13:24 Page 188