Skírnir - 01.04.2017, Page 189
189rimbaud og jónas
faðir hans talaði arabísku og tíðkaði að lesa Kóraninn og Rimbaud
lagði sig sömuleiðis eftir arabísku og bætti henni léttilega við allan
þann málafjölda sem hann hafði á sínu valdi. Og draumurinn um
að komast í álnir og lifa upp frá því á rentunum kemur fyrir strax í
skólastíl sem hann skrifar í fyrsta bekk menntaskólans.
Hætti hann að skrifa? Nei, engan veginn, frá hans hendi er til
fjöldi sendibréfa sem skiptast í tvö tímabil, 1870 til 1875, þar sem
fjallað er um skáldskap, og 1875 til 1891 sem lúta nær alfarið að
gróðabralli hans og eru sneydd öllum fagurfræðilegum tilþrifum.
Rimbaud hugðist auðgast á vopnasölu á Arabíuskaganum en að
Jónasi hvarflaði að sækja um brauð á Breiðabólstað á Skógarströnd
— en var synjað. „Maðurinn með vindsólana“ var titillinn sem Ver-
laine sæmdi vin sinn Rimbaud og eru orð að sönnu, yfirferðin var
með hreinum ólíkindum, oftast fótgangandi, um álfuna þvera og
endilanga alla leið upp til Svíþjóðar og Noregs. Það hefði ekki farið
fallega með sauðskinnsskóna hans Jónasar að iðka annað eins á Ís-
landi. Engu að síður orti hann: „Yfir dal yfir sund, yfir gil yfir grund
hef ég gengið á vindléttum fótum …“1
Þjóðarsagan var þeim skáldum báðum í blóð borin, en með
ólíkum hætti, hún er eins og óværa á Rimbaud sem hann klæjar
undan á meðan Jónas gengst heilshugar upp í sögu sinnar þjóðar,
segir henni til syndanna ýmist eða talar í hana kjark.
Veit þá engi, að eyjan hvíta
á sér enn vor, ef fólkið þorir …
Jónas er uppbyggingarmaður á meðan Rimbaud vill rífa allt niður í
rót. Sem skýrist kannski af ólíkum örlögum þjóðanna, annars vegar
örlendan Ísland í árdaga frelsisbaráttunnar, hins vegar heimsveldið
franska í dauðateygjunum. Á næsta leiti var helförin mikla 14–18
þar sem milljónir steyptust fyrir ætternisstapann í blóma lífsins. Á
sama tíma endurheimti Ísland langþráð sjálfstæði og átti í vændum
sína upprisu.
Það munar um minna.
skírnir
1 „Vindsólar“ og „vindléttir fætur“, það mætti halda að Verlaine hefði lesið Hall-
grímsson Jónas. Páli Valssyni þakkir fyrir þessa ábendingu.
Skírnir vor 2017.qxp_Layout 1 31.3.2017 13:24 Page 189