Saga - 2009, Blaðsíða 218
haldið var á málum er vörðuðu erlenda kommúnistaflokka, byggðist oft að
miklu leyti á innlendum hagsmunum, að sjálfsögðu alltaf í anda kommún-
ismans.3 Þar af leiðandi hefði verið áhugavert að sjá doktorsefni gera saman -
burðarrannsókn, skoða kommúnistahreyfingar í öðrum löndum, líkt og
hún hafði hugsað sér í upphafi og lesa má um í inngangi bókarinnar. Vissu -
lega voru aðstæður á Íslandi sérstakar, en meiri samanburður hefði kannski
enn frekar getað varpað ljósi á sérstöðu Íslands og hið alþjóðlega umhverfi
íslenskrar kommúnistahreyfingar, sem óneitanlega lék stórt hlutverk í
þróun sjálfsmyndar.
Ég minntist á það hér áður að í ritinu er fátt um upphrópanir og mér
finnst doktorsefni almennt hafa tekist mjög vel að skrifa af yfirvegun um
málefni sem gjarnan hafa fengið blóðið til að renna hraðar í æðum margra
Íslendinga. Stundum er þó spurning hvort doktorsefni feti um of hinn gullna
meðalveg í umfjöllun sinni og treysti sér ekki til að taka afstöðu í deilu málum
sem sum hver eru enn óútkljáð. Nú er ég ekki að halda því fram að hægt sé
að útkljá deilumál þannig að eftir standi ein sönn saga, en þó hefði ég á
stundum viljað sjá aðeins beittari umfjöllun og ætla í því samhengi að fjalla
um samskipti íslenskra kommúnista við höfuðstöðvarnar í Moskvu.
Það er alveg sama hvað fólki finnst um íslenska kommúnista, hvort þeir
hafi verið fylgispakir og hollir Moskvu í einu og öllu eða ekki; ráðamenn í
komintern fylgdust vel með atburðum á Íslandi, sérstaklega eftir stofnun
kommúnistaflokks Íslands árið 1930 þegar formleg aðild að alþjóðasam-
bandinu varð að veruleika. Deilur fræðimanna á Íslandi hafa aðallega snú-
ist um hollustu íslenskra kommúnista við alþjóðasambandið. Annars vegar
hefur því verið haldið fram að kommúnistaflokkurinn hafi í blindni hlýtt
fyrirmælum frá Moskvu og hins vegar að íslenskir kommúnistar hafi — í
samráði við komintern — mótað stefnu sína sjálfir.4
Doktorsefni minnist nær ekkert á þessar deilur og tekur að því er virðist
enga skýra afstöðu í þessu máli. Það vakti athygli mína, sérstaklega í ljósi
þess að í yfirlitskafla um samkeppni Alþýðuflokks og kommúnistaflokks á
árunum 1930–1942 er rétt minnst á stofnun Sameiningarflokks alþýðu –
Sósíalistaflokksins árið 1938 í framhjáhlaupi og það er einungis í neðan-
málsgrein á bls. 273 að doktorsefni snertir á deilum um það hvort flokks-
stofnunin hafi verið íslenskum kommúnistum og komintern þóknanleg og
lætur liggja á milli hluta hvert raunverulegt markmið íslenskra kommún-
ista með klofningnum hafi verið.
Mér virðist sem doktorsefni skýri klofninginn í Alþýðuflokknum aðal-
lega með því að benda á að breikkaður starfsgrundvöllur kommúnista, þ.e.
rósa magnúsdóttir218
3 Bernard Morris, „Soviet Policy toward National Communism: the Limits of
Diversity“, TheAmericanPolitical ScienceReview (1959), bls. 128–137, einkum
bls. 130.
4 Sjá t.d. Jón Ólafsson, „komintern gegn klofningi. Viðbrögð Alþjóðasambands
kommúnista við stofnun Sósíalistaflokksins“, Saga XLV:1 (2007), bls. 93–111.
Saga vor 2009 UMBROT NOTA-1:Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2009 15:52 Page 218