Saga - 2009, Blaðsíða 254
miðum annarra; við erum ekki „skrælingjar“ var kjörorð landsmanna á
þessum tíma.
Guðmundur Hálfdanarson fjallar um handritamálið í grein sinni „Vær -
så god, Flatøbogen“. Hann gefur þar ágætt yfirlit yfir sögu handritamálsins
og helstu rök með og á móti afhendingu handritanna til Íslands, sem var
líklega nánast einstæður atburður í samskiptum þjóða á þeim tíma. Hann
varð um leið einn af lokaþáttunum í íslenskri sjálfstæðisbaráttu og sá
atburður sem varð til þess að ryðja helstu hindrunum úr vegi góðra sam-
skipta Dana og Íslendinga.
Grein Henriks Jensens, „Martin A. Hansen og fællesrigets historie“,
tengist skemmtilega grein Guðmundar. Af lestri hennar má ljóst vera að
enn eimir eftir af gamalli orðræðu um Dani á Íslandi, eins og hann rekur
dæmi um. Jensen — og Hansen — velta fyrir sér sambandi Íslands og
Danmerkur, ábyrgð og sekt í tengslum við ásakanir um nýlendukúgun
Dana á Íslandi. Greinilegt er að Martin A. Hansen hefur óskað eftir eins
konar hvítbók um tengsl landanna, til að hreinsa til, og ég sé ekki betur en
greinarhöfundur óski hins sama. Martin A. Hansen varð ekki að ósk sinni
og ekki eru líkur til að slíkt verk verði ritað á næstunni ef greinarhöfundur
hefur rétt fyrir sér í því að danskir sagnfræðingar virðist almennt „sky den
dansk-islandske historie som pesten“; sennilega hefur hann rétt fyrir sér
því að afar lítill áhugi hefur verið í Danmörku á sameiginlegri sögu land-
anna, hvernig sem á því stendur. en verk af því tagi sem Martin A. Hansen
óskaði eftir gæti kannski fært okkur svar við því hvers vegna áhuginn er
svo lítill.
Að flestu leyti hefur vel til tekist með myndaval í bókinni. Þar birtast
myndir frá Íslandi sem ég hef sjaldan eða aldrei séð. Þar hefur ritstjóranum
tekist vel upp. Til dæmis eru skemmtilegar myndir úr eigu konunglega
skotfélagsins í kaupmannahöfn, svokallaðar skotskífur, en þær sýna
nokkra verslunarstaði á Íslandi. Að vísu hefði stundum að ósekju mátt
veita aðeins meiri upplýsingar um einstakar myndir, t.d. greina frá því að
kort orteliusar á bls. 11 sé gert eftir fyrirmynd Guðbrands Þorlákssonar.
Myndatextar eru stundum býsna stuttaralegir og hefði oft mátt setja mynd-
ir í betra samhengi en iðulega er gert. Bókin hefði alveg þolað einn próf-
arkalestur til; t.d. eru allmörg dæmi um bandstrik inni í orðum vegna línu-
skiptingar sem svo hefur gengið tilbaka.
Í inngangsorðum segir að hlutverk þessa verks sé að veita innsýn í
hvernig tengslum landanna tveggja hafi verið háttað. Því hlutverki skilar
ritið ágætlega, kannski sem eins konar sýnisbók. Vonandi er að þetta verk
verði til þess að auka áhuga meðal fræðimanna í báðum löndunum á að
sinna frekari rannsóknum á þessu sviði, en ritið á einnig erindi við almenn-
ing.
SumarliðiR.Ísleifsson
ritfregnir254
Saga vor 2009 UMBROT NOTA-1:Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2009 15:53 Page 254