Saga - 2011, Page 18
staðhæft að þetta er ekki heldur viðhorf þess stóra hóps sem kallað -
ur er „almennir lesendur“.
Ef eitthvað einkennir íslenska ævisagnaritun undanfarinna ára-
tuga framar öðru er það einmitt viðnám gegn slíkri forskrift að ævi-
sögu; við höfum séð nýjar aðferðir, fjölbreytilegar frásagnaraðferðir,
ný form. Út hefur komið fjöldi ævisagna þar sem höfundar reyna
meðvitað að brjótast undan framannefndum kröfum á þeim for-
sendum að það sé blekking að hægt sé að gefa hina einu réttu for -
múlu fyrir ævisögu sem sé á einhvern hátt trúverðugri en aðrar
aðferðir. Ef ég velti fyrir mér hvaða ævisögur standa upp úr, þegar
litið er yfir þetta vinsæla svið íslenskra frásagnarbókmennta, koma
upp í hugann verk sem mörg hver falla alls ekki undir það þrönga
fræðilega viðmið sem spurning Sögu lýsir. Engu að síður tel ég að
erfitt væri að halda því fram að höfundar þeirra ástundi ekki
vönduð vinnubrögð. Það sem gerir gæfumuninn er hvort þeim tekst
að miðla viðfangsefni sínu á lifandi og listrænan hátt og gera texta
sinn þannig úr garði að lesturinn verður bæði fróðlegur og skemmti -
legur. Skemmtunina má ekki vanmeta, hafi höfundar á annað borð
áhuga á að koma verkum sínum á framfæri við lesendur. Og les-
endur virðast fagna bókum sem ögra viðteknum hugmyndum um
rétta framsetningu, og trúverðugleika verksins hljóta þeir sjálfir að
meta í hvert sinn.
Í minningarorðum um Árna prófast Þórarinsson, sem birtust í
Þjóðviljanum 13. febrúar 1948, skrifar Þórbergur Þórðarson: „Mörg -
um hættir við að lesa sjálfsævisögu með þá kröfu í huga, að hún sé
„sannsöguleg“. En það er misskilningur á eðli sjálfsævisögunnar.“
Þessi misskilningur á ekki síður við ævisögur en sjálfsævisögur.
Allar frásagnir byggjast á vali og höfnun, hvort sem unnið er á for-
sendum fræða eða skáldskapar. Og sá „sannleikur“ sem borinn er á
borð fyrir lesendur er í öllum tilvikum byggður á úrvinnslu og vali
þess sem skrifar. Fræðimenn þurfa að viðurkenna þessa staðreynd;
að þeir geti aldrei gert þá kröfu að frásögnin sem þeir bera á borð
fyrir lesendur innihaldi hinn endanlega sannleika um viðfangsefnið.
Skrif þeirra geta engu að síður verið mikilvægt framlag til skilnings
á sögulegum atburðum eða á þeim þáttum í æviferli viðkomandi
einstaklinga sem þeir kjósa að fjalla um.
Sú mynd sem dregin er upp af tilteknum einstaklingi í ævisögu
er aðeins ein mynd af mörgum mögulegum. Fimm fræðimenn, sem
allir væru að vinna með sömu heimildir, myndu skrifa fimm ólíkar
ævisögur sem byggðar væru á vali hvers og eins, sjónarhorni hans,
hvað er ævisaga?18
Saga haust 2011 NOTA_Saga haust 2004 - NOTA 11/24/11 9:49 AM Page 18