Saga - 2011, Page 27
munandi. Það eru því margar og ólíkar leiðir í boði þegar skrásetja
á og túlka líf.
Hin ævisögulega rannsókn getur snúist um einstakling og úr
verður það sem við köllum ævisögu (e. biography); hún getur verið
sameiginleg ævisaga (e. collective biography) fjölskyldna, systra eða
hjóna, svo dæmi séu nefnd, og raunar má skipta sameiginlegri ævi-
sögu niður í ævisögu hóps (e. group biography), almenna ævisögu
(e. universal biography) og það sem við höfum kallað æviskrár
(e. national biography). Samanburðarævisaga (e. comparative bio -
graphy) er enn ein nálgunin og tvenndarævisaga eða tvöföld ævi-
saga (e. dual biography) önnur. Þessar tvær síðastnefndu aðferðir eru
nokkuð vinsælar því þær gera höfundum kleift að fjalla um t.d. hug-
myndastefnur (þar sem söguhetjurnar geta staðið hvor fyrir sinn
mál staðinn), rithöfunda eða einfaldlega fólk sem lifði lífi sínu á
sama tíma en við ólíkar aðstæður. Svo eru ævisögur dýra að komast
í tísku3 og við þekkjum vinsæla erlenda bókartitla á borð við
Ævisögu Lundúnaborgar og Ævisögu Jerúsalem að ógleymdri Ævisögu
þorsksins. Barbara Caine heldur því reyndar fram í bók sinni um
ævisögur og sagnfræði að þessa myndhverfingu — að tala um ævi-
sögu þótt um sé að ræða borgir, meginlönd, tísku eða hvað sem er
— megi að einhverju leyti rekja til markaðssetningar þar sem ævi-
saga þykir meira aðlaðandi og söluvænlegra hugtak en „saga“.4
Þessi upptalning á mismunandi aðferðum eða sjónarhornum
segir reyndar ekki allt, því oft er ekki alveg ljóst í hverju munurinn
nákvæmlega liggur. Skýringuna er m.a. að finna í þeirri staðreynd
að mjög hefur skort á akademíska umfjöllun um hina sagnfræðilegu
ævisögu og hún ekki enn fengið þann sess sem henni ber sem viður-
kennd aðferð til að segja og miðla sögu. Ævisagnahöfundurinn Nigel
Hamilton spyr einmitt í nýlegri bók um ævisögur hvernig standi á
því að skilgreining á hugtakinu „ævisaga“ sé jafn takmörkuð og
raun ber vitni og jafnframt af hverju saga ævisögunnar, sem þó sé
eitt helsta einkenni vestrænnar siðmenningar, sé jaðarsett og van-
rækt í flestum háskólum.5
erla hulda halldórsdóttir 27
3 Í ofangreindri vinnustofu var t.d. sagt frá rannsókn á ævi finnska hestsins
Lapukka (1917–1941) sem verður einhvers konar tákngervingur hrossaræktun-
ar í heimalandi sínu. Fram kom í vinnustofunni að mikill og vaxandi áhugi væri
á dýrasögu hvers konar og rætt var um hvort (ævi)saga dýrs væri ný og væn-
leg leið til að rannsaka og skrifa félagssögu.
4 Barbara Caine, Biography and History, bls. 123–124.
5 Nigel Hamilton, Biography, bls. 280.
Saga haust 2011 NOTA_Saga haust 2004 - NOTA 11/24/11 9:49 AM Page 27