Saga - 2011, Page 42
Stundarveruleiki þarverunnar er auk þess marglaga, þar sem
fortíð, nútíð og framtíð eru stöðugt og samtímis að verki. Reyndar
taldi Heidegger að tilvistarmörk þarverunnar væru bundin við
dauða hennar, þ.e. hann áleit ekki að eiginleg eða eðlislæg tilvist
þarverunnar gæti haldið áfram í öðrum (mönnum og/eða hlutum)
út fyrir takmörk dauðans. Þetta felst í því að í verufræði Heideggers
er ekkert jafnrétti. Hún er lagskipt og þarveran er æðri annars kon-
ar verum og tilvistarformum.
Andsvarið felst í flatri verufræði sem leggur að jöfnu mismun-
andi mennska og ómennska þætti verunnar. Ævisaga sem virðir
þess konar fjölfrásögulegt persónugervi nemur ekki staðar við frá-
fall líkamans eða einstaklingsins heldur fylgir öðrum hlut-aðeigandi
þáttum hennar eftir. Franski félags- og mannfræðingurinn Bruno
Latour hefur undanfarinn aldarfjórðung verið í forystusveit fræði-
manna sem tala fyrir róttækum viðsnúningi í átt til samhverfrar eða
flatrar verufræði. Hann hefur kallað eftir auknu lýðræði til handa
hlutum2, sem viðurkenni sjálfstæðan atbeina þeirra og verufræði -
lega stöðu til jafns við mannfólkið eða aðrar lifandi verur. Latour
telur allar gjörðir, athafnir og atburði rísa upp úr bræðingi (e. hybri-
dization) mismunandi gerenda,3 sem geta bæði verið mennskir og
ómennskir. Latour dregur upp margar skemmtilegar myndir í verk-
um sínum þegar hann lýsir þessu gagnvirka sambandi mismunandi
gerenda. Þannig lýsir hann á lifandi hátt hvernig ekki aðeins veröld
mannsins gjörbreyttist þegar Louis Pasteur uppgötvaði örverur
heldur einnig, og ekki síður, heimur örvera.4 Breytingin var full-
komlega samhverf fyrir báða aðila, menn og örverur. Á öðrum stað
bendir hann á að hvorki byssan né maðurinn skjóti heldur bræðing-
ur (e. hybrid) af þessu tvennu.5 Við getum kallað þennan bræðing
skyttu. Hún er ekki meiri maður en byssa (eða meiri byssa en
maður) heldur jöfn blanda beggja þátta. Í raun er skyttan hvorki
maður né byssa heldur eitthvað verufræðilega alveg nýtt.
En hvað kemur þetta ævisöguforminu við? Jú, ævisaga sem
helgar sig því að greina, lýsa og segja frá neti mennskra og ómennskra
hvað er ævisaga?42
2 Bruno Latour, We Have Never Been Modern (Cambridge Mass.: Harvard Uni-
versity Press 1993), bls. 12.
3 Um þetta notar Latour hugtakið „actant“. Reassembling the Social: An Introduction
to Actor-Network-Theory (Oxford: Oxford University Press 2005), bls. 54.
4 Bruno Latour, Pandoras Hope: Essays on the Reality of Science Studies (Cambridge
Mass.: Harvard University Press 1999), bls. 146.
5 Sama heimild, bls. 176–177.
Saga haust 2011 NOTA_Saga haust 2004 - NOTA 11/24/11 9:50 AM Page 42