Saga - 2011, Side 158
til þess að tekist hafi verið á um þetta innan íslensku hreyfingarinn-
ar allt frá því á þriðja áratugnum og fram undir stofnun Sósíalista -
flokksins árið 1938.16 Málið var viðkvæmt og fór að mestu hljótt,
enda snerist baráttan ekki aðeins um það hvernig flokk skyldi stofna
heldur einnig hver ætti að veita honum forustu. Þetta má til dæmis
ráða af bréfi því sem Einar skrifaði Nikolai Bukharin, forseta
Komintern, árið 1927, þar sem hann óskaði eindregið eftir stuðningi
sambandsins við að Norðlendingar hefðu forustu um flokksstofnun
á Íslandi.17 Skoðun Einars þess efnis að þingræðisleiðin væri fær á
Íslandi kom meðal annars skýrt fram í grein sem hann birti í Rétti,
málgagni íslenskra kommúnista, skömmu fyrir stofnun Kommún -
ista flokksins. Þar sagði Einar orðrétt:
Það hlutverk, sem bíður verkalýðs og bænda fyrst og fremst, er því
valdanámið, það að taka ríkisvaldið í sínar hendur, og breyta því
þannig að hægt sé að nota það í þjónustu alþýðunnar. Hvernig þetta
valdanám fer fram, er hið mikla vandamál. Tekst það með því að
flokkur verkalýðs og bænda, er fylki sér um kommúnismann, nái
þingmeirihluta? Þetta er mjög tvísýnt að geti orðið, en í landi, þar sem
auðvaldið hefir hvorki gerspillta embættismannastétt né hervald til að
beita gegn alþýðu, er slíkt valdanám þó alltaf hugsanlegt. Ef alþýðu
Íslands tekst að sporna gersamlega við að hervaldi verði komið hér
upp í einni eða annari mynd, — og gæti þess ennfremur að láta ekki
spilla sér andlega með stórblöðum burgeisa, né villa sér sjónir með
blekkingum þeirra, — þá er þingræðisleiðin enganveginn lokuð
menntaðri, samtaka og samhuga alþýðu til valdanáms. Hinsvegar má
hún ekki hafa augun lokuð fyrir því, að auðvaldið íslenska reynir bæði
að eignast embættismenn, er það getur notað eftir vild — og hilmir þá
yfir með spillingu og fjárdrætti þeirra […] og ennfremur að koma sér
upp hervaldi, hagsmunum sínum til verndar, eins og reynt var með
ríkislögreglunni forðum.18
skafti ingimarsson158
16 Jón Ólafsson og Sigurður Ragnarsson hafa vakið athygli á þessu atriði, sjá Jón
Ólafsson, Kæru félagar, bls. 38–41; Sigurður Ragnarsson, „Einar Olgeirsson“,
Andvari 127 (2002), bls. 40. Heimildir um þessa valdabaráttu er að finna í bréfa-
söfnum Einars Olgeirssonar, Brynjólfs Bjarnasonar og Stefáns Pjeturssonar,
sem varðveitt eru á Landsbókasafni Íslands.
17 Einar var enda ekki einn um hituna, því Brynjólfur og félagar hans í Reykjavík
stóðu þá einnig í bréfaskiptum við framkvæmdanefnd Komintern, sjá Jón
Ólafsson, Kæru félagar, bls. 251–256.
18 Einar Olgeirsson, „Erindi Bolshevismans til bænda“, Réttur XV:1 (1930), bls.
60. Sjá einnig Einar Olgeirsson: „Komandi þing“, Réttur XIII:2 (1928), bls. 132.
Saga haust 2011 NOTA_Saga haust 2004 - NOTA 11/24/11 9:52 AM Page 158