Saga - 2011, Qupperneq 178
un Sósíalistaflokksins, og ræða í framhaldinu aðeins um það
hvernig stofnun Sósíalistaflokksins bar líklega að. Önnur er áður-
nefnt viðtal sem Haraldur Jóhannsson átti við Þorstein, og birtist í
bókinni Þá rauður loginn brann, en hin æviminningar Brynjólfs,
byggðar á viðtölum sem Einar Ólafsson átti við hann um stjórnmál
á útvarpsstöðinni Rót, en þær komu út í bókarformi árið 1989.88
Ef við byrjum á Þorsteini þá var hann, eins og áður sagði, fram-
kvæmdastjóri Kommúnistaflokksins árið 1937 og sat sem slíkur
ásamt Brynjólfi, Einari og um skeið ónefndum fjórða manni í samn-
inganefndinni sem ræddi við Alþýðuflokkinn þetta sama ár. Samn -
inganefnd Alþýðuflokksins skipuðu hins vegar þeir Ingimar Jóns -
son, sem var helsti talsmaður hennar, Kjartan Ólafsson í Hafnarfirði
og Finnbogi Rútur Valdimarsson.89 Viðræðurnar reyndust erfiðar
og drógust á langinn. Síðan segir Þorsteinn orðrétt:
Á stundum minntu viðræðurnar á innanflokksdeilur. Við vildum, að
hinn sameinaði flokkur hefði vinsamleg samskipti við Ráðstjórnarríkin,
en Alþýðuflokkurinn, að hann fylgdist aðeins vel með málum þar. Einu
vil ég koma að. Einar fór með það hlutverk, sem Ingimar bjóst við, að
Brynjólfur léki. Brynjólfur lést hins vegar samvinnuþýður og var hinn
besti í öllum viðræðum. Það taldi ég samantekin ráð þeirra. Saman
gekk ekki, eins og við vitum.90
Þessi frásögn Þorsteins er athyglisverð. Eðlilegast virðist að skilja
hana á þann veg að Brynjólfur hafi alls ekki verið ákafur talsmaður
þess að Kommúnistaflokkurinn sameinaðist Alþýðuflokknum, enda
telur Þorsteinn að Brynjólfur hafi ekki verið heill í viðræðunum,
heldur látist vera samvinnuþýður, og þeir Einar hafi í raun viljað
koma í veg fyrir sameiningu flokkanna haustið 1937. Þessi túlkun
stangast á við ályktanir Þórs en fellur að þeim skilningi Jóns að for-
usta alþjóðasambandsins hafi verið andvíg því að íslenskir komm-
únistar stofnuðu nýjan stjórnmálaflokk með hluta Alþýðuflokksins.
Fyrirmælin hafi verið þau að leita ætti samfylkingar og ef kostur
væri sameiningar, en aðeins þannig að nýr flokkur leiddi ekki til
þess að Alþýðuflokkurinn klofnaði.91 Ekki verður heldur annað séð
en að þessi túlkun sé í samræmi við ummæli er Brynjólfur viðhafði
skafti ingimarsson178
88 Einar Ólafsson, Brynjólfur Bjarnason. Pólitísk ævisaga.
89 Stefán Jóhann Stefánsson, Minningar Stefáns Jóhanns Stefánssonar. Fyrra bindi
(Reykjavík: Setberg 1966), bls. 145.
90 Haraldur Jóhannsson, Þá rauður loginn brann, bls. 222.
91 Jón Ólafsson, „Raunveruleiki fortíðar og eitt minnisblað“, bls. 151.
Saga haust 2011 NOTA_Saga haust 2004 - NOTA 11/24/11 9:52 AM Page 178