Saga - 2011, Síða 229
Einar Falur Ingólfsson, SÖGUSTAÐIR. Í FÓTSPOR W.G. COLLING -
WOODS. Ritstjóri Inga Lára Baldvinsdóttir. Crymogea og Þjóðminjasafn
Íslands. Reykjavík 2010. 143 bls. Tilvísana- og heimildaskrá. Útdráttur
á ensku.
Í bók sinni, Sögustaðir, segist Einar Falur Ingólfsson ljósmyndari vilja líta svo
á að ljósmyndum hans megi líkja við íhugun fremur en hnífsstungur og vísar
þar í orð Henri Cartier-Bresson, sem sagði ljósmynd vera eins og hnífsstungu
á meðan málverk væri eins og íhugun (bls. 44). Ljósmyndir Cartier-Bresson
snúast enda oftar en ekki um að fanga hið afgerandi augnablik, hrifsa augna-
blikið út úr flæði tímans og skoða það undir smásjá sem einangrað fyrirbæri
úr fortíðinni sem öðlast nýja merkingu í samtímanum. Cartier-Bresson var
þekktur fyrir götumyndir sínar, ekki síst ljósmyndir sínar frá París, þar sem
eitt afmarkað augnablik er dregið fram í ys og þys stórborgarinnar og því
gefin djúp merking. Hið afmarkaða augnablik verður því, vegna sérstakrar
sýnar ljósmyndarans, ódauðlegt. Ljósmyndarinn hefur hæfileika til að nema
það sérstaka, hið einstaka, í hraða samtímans. Cartier-Bresson lagði sig fram
um að fanga þau augnablik sem einkenndu og endur spegluðu samtíma
hans. Ljósmyndir hans eru orðnar táknmyndir fyrir öll þau stolnu hvers-
dagslegu augnablik sem eitt sinn mynduðu kjarna lífsins.
Og það er dálítið þannig sem okkur hættir til að líta á ljósmyndina enn
þann dag í dag. Hún á að segja sannleikann. Hún á að afhjúpa veruleikann.
Okkur hættir líka til að líta svo á að þannig hafi það alltaf verið, að minnsta
kosti allt fram að stafrænu byltingunni. Að á milli ljósmyndarinnar og veru-
leikans hafi ætíð verið órjúfanlegt samkomulag um sannleikann, þ.e. að ljós-
myndinni væri fyrst og fremst ætlað að staðfesta að veruleikinn væri eins
og hann er. Punktur.
En hvað gerist þegar við horfum á gamlar ljósmyndir? Tökum sem
dæmi ljósmynd sem William Gershom Collingwood tók af doktor Jóni
Stefánssyni, samstarfsmanni sínum, og Richard Peter Riis, kaupmanni á
Borðeyri við Hrútafjörð, í júlí árið 1897 (bls. 68). Á myndinni sjáum við
framan í mennina tvo en við greinum ekki augnsvip þeirra. Við sjáum að
þeir klæðast dökkum fötum og eru báðir með höfuðfat. Á bak við þá sést í
timburhús (eins og Einar Falur bendir á í bók sinni er skorið ofan af húsinu,
svo að myndin er ekki góður vitnisburður um heildarútlit þess, bls. 42) og
til hægri við mennina tvo stendur glaðbeittur maður sem við fyrstu sýn
virðist vera blökkumaður; líklegra er þó að myndin sé svo undarlega
skyggð að hann sýnist aðeins dökkur á hörund þó að hann sé það ekki í
raun. Eða hvað? Var blökkumaður á Borðeyri árið 1897? Hvaðan kom hann
þá og hvers vegna var hann þar? Nei, ljósmyndir veita okkur ekki endanleg
svör og þær eru ekki endilega góð heimild um lífið eins og það var. Þær, líkt
og önnur mannanna verk, veita okkur þó innsýn í veruleikann sjálfan, gefa
okkur vísbendingar um lífið sem eitt sinn var, án þess þó að fylla upp í
heildarmyndina. Ljósmyndir skilja heilmikið eftir fyrir ímyndunaraflið.
ritdómar 229
Saga haust 2011 NOTA_Saga haust 2004 - NOTA 11/24/11 9:52 AM Page 229