Saga - 2011, Síða 230
Collingwood fór til Íslands árið 1897 í þeim tilgangi að draga upp mynd
af þekktum sögustöðum. Hann vildi, svo að ég noti orð hans sjálfs, „mynd-
skreyta Íslendingasögurnar“, eða í það minnsta „leggja til bakgrunninn,
umhverfið sem hinn forni dramatíski frásagnarháttur [Íslendingasagnanna]
gerir ráð fyrir að lesendur þekki“ (bls. 40). Collingwood var sannfærður um
að til þess að ná markmiðinu væri hentugra að nota blýant og pensil fremur
en myndavél. Reyndar tók hann með sér litla Kodak-myndavél, en hún var
aðeins hugsuð sem tæki til að skissa upp veruleikann, styðja við minning-
arnar, og til að taka portrettmyndir af Íslendingum, sem margir hverjir
höfðu aldrei séð ásjónu sína á ljósmynd. Collingwood notaði myndavélina
þannig til að þakka fyrir sig og afla sér velvildar (bls. 41–42). Blýantinn, og
þó enn frekar pensilinn, notaði hann til að draga upp það sem hann taldi
sanna mynd af veruleikanum.
Collingwood var nítjándualdarmaður, og nítjánda öldin er öldin þar
sem menn fóru í auknum mæli að átta sig á hversu erfitt það er að skoða
veruleikann á hlutlausan hátt og hvernig megi beita vísindalegum aðferðum
til að yfirvinna hið persónulega, stíga út fyrir sjálfan sig, út fyrir persónu
sína og allar þær forsendur sem hún gengur út frá þegar hún horfir í kring-
um sig í heiminum. Franski heimspekingurinn (eða var hann ef til vill bók-
menntafræðingur, menningarfræðingur, minjafræðingur?) Michel Foucault
gerði í bók sinni, Orðin og hlutirnir (f. Les mots et les choses), grein fyrir því
hvernig nútíminn hefði haldið innreið sína á nítjándu öld þegar menn fóru
í auknum mæli að beita aðferðum vísindanna kerfisbundið til að yfirvinna
hið huglæga eða hið persónulega í rannsókn sinni á veruleikanum. Áhersla
var ekki lengur á útlit og yfirborð heldur innri kerfi, hið dulda ekki síður en
hið sýnilega. Nítjánda öldin var tími málvísinda, tími líffræðinnar og sagn -
fræðinnar. En hún var líka öld sálgreiningarinnar og rómantíkurinnar, öld
innsæisins. Vísindin og listin unnu ekki saman heldur stefndu í ólíkar áttir.
Bókmenntir urðu eitt. Sagnfræði annað. Ljósmyndin, sem kom fram sem
afsprengi þeirrar hugsunar að vísindi og sköpun geti með samruna fram-
kallað eitthvað eftirsóknarvert, varð vísindahyggjunni einnig að bráð.
Markmiðið var að gera ljósmyndina eins hlutlausa og frekast væri unnt. En
það tók langan tíma. Lengi framan af var hún lítt sannfærandi sem hlutlaus
eftirmynd veruleikans. En hvað með málverkið? Hvernig átti nítjánduald-
armaðurinn Collingwood að fara að því að draga upp sanna mynd af sögu -
stöðum Íslendingasagnanna?
Collingwood ferðaðist um Ísland, ásamt aðstoðarmanni sínum Jóni
Stefánssyni, í tíu vikur sumarið 1897. Lengst af ferðuðust þeir á hestbaki.
Það hlýtur að hafa verið bæði áhrifamikið og erfitt ferðalag. Collingwood
málaði á fjórða hundrað vatnslitamyndir meðan á ferðalaginu stóð (bls. 13).
Slík afköst eru með ólíkindum. Þeir Collingwood og Jón notuðu Íslend-
ingasögurnar sem fararstjóra. Collingwood var jafnan með vatnslitina á
lofti, málaði á staðnum en þurfti þó stundum að ljúka við myndina innan-
dyra, þegar komið var á gististað um kvöld (bls. 46). Vatnslitamyndir
ritdómar230
Saga haust 2011 NOTA_Saga haust 2004 - NOTA 11/24/11 9:52 AM Page 230