Saga - 2011, Page 236
og oft má sjá í ævisögum um karla af svipuðum stigum. Nýlega hafa ævi-
sagnahöfundar tekið upp á því að varpa ljósi á „manninn“ (andstætt „hetj-
unni“) innra með þeim körlum sem á einhvern hátt hafa komið nálægt
sköpun og mótun þjóðríkisins. Það tekst misvel og áhöld um hvort ekki sé
verið að endurskapa þessa sömu menn sem þjóðhetjur fyrir nýja tíma og
nýtt fólk, sem hefur minna þol fyrir fölskvalausri aðdáun og persónudýrkun
en kynslóðirnar á undan. Ævisaga Þóru er blessunarlega laus við slíka til-
burði. Henni er ekki ætlað að keppa við þær karlhetjur sem eiga óumdeild-
an sess á síðum ævisagna, þótt Sigrún sýni glöggt að þessi kona var áhuga-
verð og drífandi en um leið smásálarleg og snobbuð.
Sigrúnu tekst yfirleitt að feta ákveðinn meðalveg milli þess að upphefja
Þóru og njörva hana niður í ákveðið kynhlutverk. Hið brotakennda sam-
hengi, sem oftast er ferskur andblær, vinnur þó stundum gegn þessu jafn-
vægi. Það kemur á stundum í veg fyrir að hægt sé að ljá umfjölluninni nægi-
lega dýpt, t.a.m. í þeim tilgangi að setja sögu Þóru í kynjasögulegt sam-
hengi. Slíkt sjónarhorn hefði á stöku stað verið kærkomið, til dæmis þegar
Sigrún ritar að erindi Þóru til útlanda árið 1873 hafi verið að „verða enn
betra efni í góða eiginkonu“ eða þegar hún segir Þóru vera sífellt með karla
á heilanum. Hjónabandið og heimilið var stór hluti af lífi kvenna, e.t.v. sér-
staklega kvenna af hennar stéttarstöðu. Því er eðlilegt að ekki sé dregið úr
mikilvægi þess. Ég saknaði þess þó, einkum í tilvikum sem þessum, að
Sigrún væri femínískari sagnfræðingur, því hérna hefði gefist kjörið tæki-
færi til að varpa ljósi á embættismannastéttina frá kynjasögulegum sjónar-
hóli. Það hafa auðvitað verið skrifaðar ótal ævisögur um karlmenn úr þess-
um sömu kreðsum, hvernig þeir mótuðu samfélagið, höfðu áhrif á hug-
myndaheim Íslendinga og þroska þjóðarinnar. Það er því leitt að þegar kona
verður holdgervingur stéttarinnar skuli að mestu vera skautað yfir grein-
ingu á þeim valdatengslum sem gera karlmenn að gerendum og konur að
„kurteis um gestum“, eins og Sigrún orðar það reyndar sjálf.
Þessi skortur á femínísku sjónarhorni verður áberandi þegar litið er til
þess að Þóra og hennar líkar voru táknmynd alls þess sem þótti óþjóðlegt á
sama tíma og karlar af svipuðum stigum urðu efni í þjóðhetjur. Hún var
módern, heimsborgari og kona í þokkabót. Hún þráði léttúð og skemmtanir,
spókaði sig í Edinborg sama dag og allir „sannir þjóðernissinnar“ söfn uðust
saman á Alþingishátíð á Þingvöllum. Þannig festir Sigrún á blað sögu þeirra
sem ekki hafa átt stóran sess í Íslandssögunni, sögu íslenskra (stundum
dansk-íslenskra) kvenna af embættismannastétt sem klæddust dönskum
búningi og þráðu selskap og áhyggjuleysi. Hér talar fulltrúi kvenna sem
löngum hafa mátt þola það að rödd þeirra sé gerð tortryggileg. Það er
verðmætt í sjálfu sér og virðingarvert að Sigrún skuli leggja sig fram um að
varðveita þessa rödd, því auðvelt væri að gera sögu Þóru að sögu karlanna
í kringum hana með því að setja orð hennar í of kirfilegt samhengi við henn-
ar nánasta umhverfi.
ritdómar236
Saga haust 2011 NOTA_Saga haust 2004 - NOTA 11/24/11 9:52 AM Page 236