Saga - 2011, Síða 238
Margrét Guðmundsdóttir, SAGA HJÚKRUNAR Á ÍSLANDI Á 20.
ÖLD. Ritnefnd: Ásta Möller, Herdís Sveinsdóttir, Kristín Björnsdóttir,
Sigþrúður Ingimundardóttir, Vilborg Ingólfsdóttir og Þorgerður
Ragnarsdóttir. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. Reykjavík 2010. 441
bls. Myndir, töflur, atriðisorða- og mannanafnaskrár.
Tildrög þessa rits eru þau að árið 2000 samþykkti fulltrúafundur Félags
íslenskra hjúkrunarfræðinga að rituð skyldi saga hjúkrunar á Íslandi á 20. öld.
Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur var ráðin til verksins en Margrét
hafði um langt árabil fengist við rannsóknir á heilbrigðissögu. Eftir hana liggja
þannig fjölmörg rit um heilbrigðismálefni og ber þar hæst sögu Hvíta -
bandsins, sögu Hjúkrunarfélagsins Líknar og sögu Rauða Kross Íslands.
Saga hjúkrunar á Íslandi spannar tímabilið frá 1898 til ársins 2000 og
skiptist í tólf meginkafla. Bókina prýðir fjöldi mynda og eru margar þeirra
úr daglegu lífi hjúkrunarfræðinga og sjúklinga. Í bókinni má einnig finna
töflur og myndrit sem ætlað er að varpa ljósi á fjölda og aldursdreifingu
hjúkrunarstéttarinnar og hjúkrunarnema. Tímabilið milli stríða vegur þar
þyngst og í formála bókarinnar, sem ritaður er af Ástu Möller, kemur fram
að lesendur sakni ef til vill ítarlegri umfjöllunar um síðari hluta aldarinnar.
Þar er þó ekki gerð grein fyrir því hvers vegna farin er sú leið að gefa hjúkr-
unarsögu síðari hluta 20. aldar minna vægi en sögu fyrri hluta hennar.
Bókin er lipurlega skrifuð og höfundi tekst með hjálp persónulegra
heimilda að gæða persónur lífi og skapa mynd af starfskjörum hjúkrunar-
stéttarinnar. Þetta á einkum við um fyrri hluta aldarinnar. Heimildavinna
er til fyrirmyndar og frágangur í flesta staði vandaður. Þó má nefna að víða
vantar tímasetningar við ljósmyndir. Þá er ekki vísað í myndrit og töflur í
meginmáli og í það minnsta á einum stað vísar höfundur í töflu í aftanmáls -
nótu (bls. 197, nmgr. 49). Skrá yfir töflur og myndrit vantar.
Í bókinni er hvorki að finna inngangs- né niðurlagskafla. Þetta er baga-
legt, því í jafn viðamiklu verki og hér er á ferð verður að teljast eðlilegt að
höfundur geri grein fyrir meginmarkmiðum þess og fjalli um það hvaða
spurningum hann hyggst leita svara við. Að sama skapi verður að teljast
eðlilegt að höfundur dragi saman þræði í lok bókar og geri helstu rann-
sóknarniðurstöðum skil. Í stað niðurlagskafla ritar höfundur stuttan eftir-
mála sem tæpast getur komið í stað niðurlagskafla. Hugtakið „hjúkrun“ hef-
ur afar víða skírskotun og þeim mun mikilvægara er að lesendum sé gerð
grein fyrir því í inngangskafla hvaða þætti hjúkrunar er fengist við í bók-
inni. Hér verða lesendur að styðjast við tvo formála, annan ritaðan af Elsu
B. Friðfinnsdóttur, formanni Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, hinn af
Ástu Möller, formanni söguritunarnefndar. Í upphafi flestra meginkafla eru
inngangsorð þar sem stuttlega er gerð grein fyrir meginviðfangsefnum kafl-
ans og í lok hvers kafla er samantekt.
Í formála Elsu B. Friðfinnsdóttur segir að bókin lýsi „breytingum á
störfum hjúkrunarfræðinga, á menntun þeirra, kjörum, réttindum, starfs -
ritdómar238
Saga haust 2011 NOTA_Saga haust 2004 - NOTA 11/24/11 9:52 AM Page 238