Breiðfirðingur - 01.04.1954, Qupperneq 40
30
BREIÐFIRÐINGUR
gladdi hugann og efldi viljann. Og hversu undarlega sem það
hljómar í eyrum nútímans — öfgalaus trúrækni og auðmýkt
gagnvart helgum dómum tilverunnar, ásamt aðdáun þeirri,
sem vakti í vitund, þegar tóm gafst til að leiða hug að forn-
um erfðum íslenzkrar sögu og menningar, hetjunum, sem
kunnu að horfast í augu við dauðann án þess að fölna. Og
hún elskaði söng og sól og vor.
Þetta voru einkenni þegnanna, sem unnu frelsið og börð-
ust á sviði starfs og fórna í heila öld, en áttu þó heilagan
ljóma friðar og bræðralags yfir allri sinni styrjöld. Eg
held að postulinn mundi hafa kallað þetta fólk hermenn
ljóssins. En hugsið ykkur, hvernig þessir hermenn urðu að
berjast. Það er svo ótrúlegt borið saman við þægindakröf-
ur nútímans. Þessi litli líkami, sem nú hvílir fallinn og
visnaður innan þessara hvítu fjala. Sjáið hann í hugan-
um, sem litla telu fyrir nærri hundrað árum. Hún er
varla komin úr reifum, þegar starfssagan byrjar. Prjón-
arnir, grasatínslan, barnagæzlan, óteljandi snúningar við
að sækja vatn og hrís, tað og mó, sinna lömbum og hreiður-
gestum, færa bát, og svo — læra kverið — án nokkurra frí-
stunda, vera vakin kl. 6 að morgni, kannske settir vöku-
staurar í augun að kvöldi. Og við getum haldið áfram —
fullorðinsárin — Guðrún Torfadóttir var auðvitað ekki
meðalmanneskja, en hvað mundu líka ungu stúlkurnar
segja um að ganga í sporin hennar við útróðra á smáfleytu
í Oddbjarnarskeri, Bjarneyjum, Dritvík og norður á Strönd-
um.
Ekki var vél í bátnum þeim. Nei, ef byr ekki gaf, var
róið gegn stormi og straumi af alefli handa og arma. Eða
heyflutningar í Breiðafjarðareyjum, þar sem þungum sátum
var lyft með snörum tökum eða axlaðar með einni sveiflu
og síðan gengið hratt yfir urðir og gjótur, útgrafna hunda-
bala og flughálar þanghleinar, þangað sem bátur vaggaði