Breiðfirðingur - 01.04.1954, Blaðsíða 85
BREIÐFIRÐINGUR
75
þegar hvergi var pláss nema í lestinni. Og já, þar kynntist
ég honum Sigrurði mínum sæla, Guð blessi hann, aumingj-
ann. Og sitthvað man nú Sigga gamla, þegar hún var í milli-
ferðum hér áður á dögum, og þær tóku lengri tíma en hálfa
klukkustund. En það er nú liðið sem betur fer.
Jón: Eg húkti oftast heima þá. Og vissi lítið um þessar
lystisemdir. En samt kom ég um borð í þessi strandferða-
skip, Skálholt og Hóla, og mér blöskraði ólyktin þar um
borð.
Sigga: Já, það var nú annað eftir að blessaður Gull-
foss kom. Og mikill er nú munurinn í þessum nýmóðins-
skipum. Þar ku allt vera í speglum og púðum og plussi og
hvað það nú heitir allt saman. Það mætti líka hugsa sér að
þið ynduð betur, að minnsta kosti unga fólkið þarna heima
en þá var.
Jón: Ja, þú ættir nú að minnast á það, Sigga mín. Nei,
þá veit nú Jónsi gamli betur. Það er nú einmitt það sem
feilar. Þó að hægt sé að komast til Reykjavíkur á hálftíma,
fæst helzt ekki nokkurt kvikindi til að tolla í sveitinni leng-
ur. Minnsta kosti ekki að vetrinum. Það vantar svo sem
ekki þetta fína ferðafólk að sunnan á sumrin.
Sigga: En það gerir líklega heldur lítið gagn. En ann-
ars get ég ekki láð blessuðu fólkinu, þótt það uni ekki vel
þar, sem ekki kemur svo mikið sem dagblað, og ekki er hægt
að tala við kunningjakonu sína í síma þótt líf liggi við.
Jón: Hvað ertu að segja kona. Svo er nú honum Gísla
mínum blessuðum Jónssyni fyrir að þakka, að svo má heita
að minnsta kosti í Barðastrandasýslunni sé sími á hverjum
bæ. Og svo held ég að þessir póstar séu nógu oft á róli til að
rugla þessar hræður, sem eftir eru, með alls konar pólitísku
kjaftæði og tímaritum með myndum af strípuðum stelpu-
gægsnum, sem hver heilbrigður karlmaður hefur and-
styggð á.