Breiðfirðingur - 01.04.1957, Qupperneq 9
BREIÐFIRÐINGUR
7
Var komið myrkur, þegar við komum þangað, og þar var
gist um nóttina.
Morguninn eftir vorum við snemma á fótum, því að í
myrkrinu kvöldið áður höfðum við orðið að sleppa fénu
langt frammi í dal. Ottuðumst við, að það hefði dreift
mikið úr sér, en svo var þó ekki. Mátti það heita kyrrt
vegna þreytu eftir langan og erfiðan rekstur. Við fórum
seint frá Hattardal þennan morgun eftir indælis nótt, því
að þetta heimili er eitthvert hið bezta, er ég hef komið
ókunnugur á, bæði hvað greiða og annan aðbúnað snerti.
Nutum við þess í öll þau skipti, sem ég var í haustferðum
þessum.
Leiðin, er við áttum ófarna út með Alftafirði, lá um
melgötur og voru þar engir farartálmar. Á þessum árum
voru tvær hvalveiðistöðvar við Álftafjörð, var önnur á
Langeyri, en hin á Dvergasteinseyri. Voru það Norðmenn,
sem ráku stöðvar þessar. Þegar þeir norsku sáu til ferða
okkar með stóran fjárhóp, komu þeir á móti okkur til þess
að fá í soðið. Var þá venjulega rekið inn og byrjað að
verzla. Ef þeim líkaði féð, keyptu þeir margt, svona 30
til 40 kindur. Helzt vildu þeir veturgamalt, og greiddu þeir
allt í peningum, 12 til 14 krónur fyrir kindina. Þegar þess-
ari verzlun var lokið, voru ávallt veitingar frá þeim á eftir.
á ýmsum fleiri stöðum stöðvuðum við reksturinn þennan
dag, og seldum við drjúgt af fénu, en ekki man ég, hvað
margt var selt, er við komum til Isafjarðar.
Svona var haldið áfram, fyrst út Súðavíkurhlíð og svo
yfir Arnarnessháls, og er þangað var komið, sást inn í
Skutulsfjarðarbotn. Var þá venja að gista á öðrum hverjum
bænum, Kirkjubóli eða Hafrafelli.
Tík hafði verið með mér alla leiðina með reksturinn.
En þegar við komum upp á Arnarnesshálsinn og sáum inn
í Skutulsfjarðarbotn, neitaði tíkin algerlega að fara lengra.