Skírnir - 01.09.2012, Blaðsíða 38
298
EINAR KÁRASON
SKÍRNIR
það? Hvað kom honum til að endursegja á vissan hátt þá sögu sem
hann hafði áður sett saman, en með öðrum persónum úr löngu
liðinni fortíð? Sjálfur hef ég auðvitað ekki betri svör við því en hver
annar. Þetta hefur þó hvarflað að mér: Kannski hefur hann viljað
skrifa samskonar sögu, en með frelsi til að hafa línur allar skýrari.
Því að í íslendingasögu, og það er kannski eðli samtímasagna af
þessu tagi, þá eru í flestum atburðum mál heldur blandin.
Síðasta atriðið sem nefnt var hér að framan, um það þegar íslensk
hetja sem stödd er erlendis heyrir utan að sér hent gaman að
dauðastríði vinar, væri ágætt dæmi: I Njálu er það sá litríkasti af
fórnarlömbum brennumanna, sjálf hin flókna hetja Skarphéðinn,
sem um er rætt, sagt að hann hafi grátið í eldinum. I Islendingasögu
er það hinsvegar einn af „vondu körlunum" — einn af helstu árásar-
mönnunum — Kolbeinn grön Dufgusson sem er umræðuefnið. En
hér er þess að gæta að Kolbeinn grön er þrátt fyrir allt hetja þótt
staða hans þarna sé undarleg; hann er náfrændi Sturlunga og hann
er jafnframt sá sem bjargar ættarlauknum Ingibjörgu Sturludóttur
út úr eldhafinu.
Miklu veigameira er það hvert er helsta fórnarlamb stóra harm-
leiksins, brennuárásarinnar. I íslendingasögu er það Gissur sem
verður fyrir því að heimili hans er umkringt og fjölskyldu hans eytt.
Það má finna hve sögumaður gengur nærri sér við að skrifa um þá
miklu sorg, og hann segir í miðri hlutlægu frásögninni: „... og þótti
öllum vitrum mönnum þessi tíðindi einhver mest hafa orðið hér á
íslandi sem guð fyrirgefi þeim er gerðu með sinni mikilli miskunn
og mildi“ (Sturlunga saga 1988: 642). En hitt er jafnframt ljóst að fer-
ill Gissurar var blóði drifinn, af nógu er að taka, en hér nægir að
nefna víg Snorra Sturlusonar; Gissur hafði með athöfnum sínum á
einhvern hátt kallað yfir sig þessar hörmungar.
En myndin sem dregin er upp af Njáli í Njálssögu er öllu hreinni.
Hann verður fyrir samskonar árás, en er þó maður sem sýnir aldrei
nema góðgirni og sáttfýsi, er kristinn friðflytjandi í orðum sínum og
athöfnum. En til að undirstrika harmleikinn þá eru það hans eigin
synir sem kalla yfir hann ógæfuna stóru með því að fremja ódæði af
biblíulegum skala, og hefur tilvísun jafnt í hinn fyrsta stórglæp
mannkynsins, bróðurmorðið, og aftöku sjálfs Frelsarans. Og þótt