Skírnir - 01.09.2012, Blaðsíða 137
SKÍRNIR „HVORKI ANNÁLAR NÉ ... SAGNFRÆÐl" 397
hefðbundin verk, þar sem tímaröð er haldið, minningar taka við
hver af annarri, koll af kolli og efasemdir um möguleika þess að tjá
fortíð og ævi í texta eru ekki sjáanlegar. Sjálfið er yfir og allt um
kring og sögumaður er karl um sextugt sem lítur yfir farinn veg og
rifjar upp, án sjáanlegra örðugleika, atburði og minningar úr fortíð.
Ekki er leitast við nema að litlu leyti að gefa mynd af þjóðfélagi eða
stórviðburðum samtímans sem þó var nóg af.
Samkvæmt frásögn Kristmanns tókust frá upphafi fleiri en einn
heimur á um athygli hans. I barnæsku voru það mannheimar og
hulduheimur og síðar meir Island og útlönd, og þá heimur hans sjálfs
og hinn á stundum fjandsamlegi umheimur. Kristmann segir frá því
hvernig hann í æsku lék sér við huldubörn sem auðvitað má sjá sem
afleiðingu einmanaleika og ástleysis, en þó er hér fleira sem býr undir
því að í gegnum verkið allt er einhvers konar hulinn heimur til staðar
sem hann þarf að takast á við, auk þess sem huliðsheimurinn er í
sterkum tengslum við persónulegan hugmyndaheim hans. Þar má til
dæmis sjá þátt hulduheimsins í náttúru- og hugleiðsluhugmyndum
hans, þessi tengsl við náttúruna endurspeglast svo í ástamálum hans
og hugmyndir hans um ástir og samskipti kynjanna enduróma í
skáldskaparhugmyndum hans. Ur þessu verður mjög sterkur þráður
í bindunum fjórum. Kristmann er forlagatrúar, þar á meðal í ásta-
málum, og þar leitar hann að móðurímynd, sálufélaga og huldukonu,
þessar huldukonur tengjast einnig skáldskapnum nánum böndum,
fegurðarídeali, skáldskaparhugsjón og fagurfræðihugmyndum. í
verkinu segir því frá leit hans að fegurðinni bæði í lífi og á bók. Þessir
þrír þræðir, hulduheimurinn, ástalífið og skáldskapurinn eru því
spyrtir saman frá upphafi verks og virðast tengdir órjúfanlegum
böndum. Vegna allra þessara tenginga og samspilsins milli þessara
þátta þá verða samsvaranir milli lífs og listar mjög áberandi í verk-
inu. Það fjallar þó í raun að takmörkuðu leyti um leitina að listinni,
en mun frekar að listinni í lífinu. Fegurðarídeal reynir hann ekki ein-
ungis að uppfylla í bókum sínum, heldur í lífinu, ekki ósvipað
Rousseau sem flækist um þvera og endilanga Evrópu í leit að sama-
stað þar sem hann gat lifað eftir hugsjónum sínum.
Þegar hulduheimurinn, sem Kristmann á svo greiðan aðgang að
fyrst um sinn, lokast honum þegar hann er enn barn að aldri, segir