Skírnir - 01.09.2012, Blaðsíða 101
SKÍRNIR
AUGU MÍN OPNUÐUST ...
361
honum veitir ekki af vetrinum með, og verður því ekki stundaður nema þar
sem enginn vetur kemur. (TS 1947: 270-271)
Þegar nær kemur Napoli dregur Tómas upp lifandi mynd af um-
hverfi borgarinnar og þeirri töfraslungnu náttúru sem myndar um-
gjörð hennar, þar sem eldfjallið Vesúvíus trónir yfir öllu. Vesúvíusi
líkir hann eðlilega við eldfjallið Heklu, en segir það nokkru lægra
og í lögun áþekkt og öll eldfjöll, ávalt að ofan með eldvörpu í kollinum,
bratt nokkuð niður til miðs, en þaðan af aflíðandi til allra hliða, hvar
hraunleðjan og vikurinn hefir staðar numið. Kringum allt fjallið eru nú
fagrar byggðir, og vaxa langt upp eftir því hin ágætustu vín. Sunnanvert við
það lá forðum Pompeji, en vestanvert og á sjávarbakkanum Herculanum;
liggur þar nú hraun yfir, og er nú þar byggt ofan á hrauninu, hvar borgin
var undir; slitnar ei húsarunan með sjónum þaðan til Napoliborgar. (TS
1947: 278)
Um borgina og umhverfi hennar í heild sinni segir Tómas að hún
„eigi ekki maka sinn í heimi“ hvað varðar náttúrufegurð og forn-
minjar, „en minna mun flestum þykja um borg þessa varið að því
leyti sem til þeirra nær sem í henni búa, og fáir ætla eg mundi gjöra
sér krók til Napoli eður hafa elju á að dvelja þar lengi...“ Almennir
fordómar og neikvætt umtal um íbúa Napoli virðast hafa verið land-
læg á þessum tíma ekki síður en á okkar dögum, enda tekur Tómas
það fram um leiðsögumann sinn í Villa di Cicerone, að hann hafi
verið stoltur af rómverskum uppruna sínum, „enda hafa napólskir
sér í lagi illt orð á sér út í frá, og þykir því fáum mikið til koma að
telja sig í ætt við þá“ (TS 1947: 271). Lýsing Tómasar á borginni er
ítarleg og greinargóð og segir hann Napoli réttilega vera allra borga
mesta á Italíu og ríkasta af fé og íbúum. „Teljast í henni eitthvað
358.000 innbúar, þar á meðal alténd 60.000 lazarónar“ (TS 1947:
275-276), en svo virðist sem Tómas kalli stétt atvinnuleysingja og
heimilislausra því nafni. Borgarlandslaginu lýsir hann meðal ann-
ars með þessum orðum:
Borgin liggur ... austan í og sunnan í fjallás eður holti og nær niður á sjáv-
arbakkann; er undirlendið meira að austan til, og standa þar fremstu húsin
á nokkurs konar malarkambi fram við sjóinn og sléttum flöt fyrir ofan
hann, en að vestan til eru húsin, að undanteknum þeim sem næst eru