Skírnir - 01.09.2012, Blaðsíða 90
350
ÓLAFUR GÍSLASON
SKÍRNIR
hann heldur fram rómantískri afstæðishyggju um sannleikann, sem
er mjög í anda Herders:
Snilldarritin verða því næstum eins þjóðkunn nú á dögum sem hin lærðu
ritin, sér í lagi síðan ... hinir lærðu ekki framar gjörðu sér það að venju að
rita á latínu er skyldi vera sameiginligt mál allra hinna lærðu, heldur tóku
upp á því, er þeir fundu að latínan var óeinhlít til nú á dögum að gefa
klæðnað öllum þönkum vísindamannsins, að rita um alls slags lærð efni á
móðurmáli sínu. Fengu þannig vísindin alþjóðligra snið og urðu kunnugri
í föðurlandi sínu, en þau tóku jafnframt í gegnum málið á sig stærri
þjóðernis kápu. Sannleikurinn tók að líta öðru vísi út í einu landi en öðru,
og hinir lærðu um heiminn urðu ekki jafnkunnugir eftir það þeir töluðu
ekkert sameiginligt mál sem öllum væri jafnskiljanligt. (TS 1947: 124)
Guðfrœðilegar rœtur
Trúarskoðun Tómasar er fyrst og fremst studd tilfinningalegum
rökum og byggð á eðlishyggju sem hann lýsir meðal annars með
eftirfarandi orðum:
Trúarbrögðin eru hið innst innrætta í mannligri náttúru, þau viðvíkja hinu
ósýniliga, já því óskiljanligasta af öllu, því hæsta og mikilvægasta, því
guðliga sem hið mannliga aldrei getur gripið. Þau hafa sitt sæti í tilfinn-
unum sem maðurinn veit af strax og lífið fer að vakna í hans brjósti, eru
þar fyrir löngu áður en skilningurinn varð var þar við, og eru þar án þess
maður skilji þar í, og hvört maður skilur þar í eður ekki, og þau yfirgrípa
með vaxandi framförum alla hans veru, allar hans framkvæmdir. (TS 1947:
137)
Þessi ríka áhersla á tilfinningalegar og eðlislægar rætur trúarinnar
eru í anda þess lúterska rétttrúnaðar sem Tómas hafði numið hjá
kennurum sínum við Kaupmannahafnarháskóla, þar sem lögð var
áhersla á barnatrú og beint og milliliðalaust samband einstaklings-
ins við guð. Jafnframt er hér hafnað öllum tilraunum fulltrúa
upplýsingarinnar til að sanna tilvist guðs með rökum vísindanna.
Þessi afstaða virðist valda Tómasi nokkrum vanda þegar kemur að
hinni guðfræðilegu rökræðu, sem eðli málsins samkvæmt á erfitt