Skírnir - 01.09.2012, Blaðsíða 132
SKÍRNIR
392 JOSÉ ORTEGA Y GASSET
hafa ummyndast, jafnt metnaðarefni og hugsjónir, í lyst og ómeð-
vitaðar forsendur.
Gott og vel: tilgangur þessara réttinda var ekki annar en að hrifsa
sálir mannanna úr sinni innri ánauð og lýsa yfir hjá þeim ákveðinni
tign og virðingu. Var það ekki það sem hugurinn stóð til? Að
meðalmaðurinn upplifði sig sem sinn eigin herra, stjórnanda yfir
sjálfum sér og lífi sínu? Því fékkst áorkað. Yfir hverju hafa frjáls-
lyndir, lýðræðissinnar, framfarasinnar síðustu þrjátíu ára að kvarta?
Eða er tilfellið að rétt eins og börnin vilja þeir fá eitthvað en ekki taka
afleiðingum þess? Þess er óskað að miðlungsmaðurinn verði herra.
Því er ekki að undra að hann hegði sér að eigin vilja og geðþótta,
krefjist allra lífsnautna, knýi staðfastlega fram vilja sinn, að hann
neiti allri ánauð, að hann viðhafi ekki auðsveipni gagnvart neinum,
að hann hugi að sjálfum sér og áhugamálum sínum, móti sér fata-
smekk: þetta eru nokkur þeirra atriða sem ævinlega fylgja hefðar-
vitund. í dag er þau að finna hjá meðalmanninum, fjöldanum.
Þannig blasir við að líf meðalmannsins er í dag samsett úr efnis-
skrá sem áður einkenndi einvörðungu lífsmynstur úrvalins minni-
hluta. Gerum okkur það ljóst. Meðalmaðurinn stendur fyrir það
svæði sem saga hvers tímabils bærist á; hann er fyrir söguna það sem
sjávarmál er í landafræði. Ef meðalmálið er þannig komið í dag á
stað sem áður var aðeins innan seilingar aristókrata verður að segj-
ast umbúðalaust að hæðarmál sögunnar hefur hækkað skyndilega —
að loknum löngum undirbúningi neðanjarðar en skyndilega, eins
og birtingarmynd þessa er — í einu stökki, með einni kynslóð.
Mannlegt líf, í heild sinni, hefur risið. Hermaður dagsins í dag,
getum við sagt, líkist um margt kafteini; her mannsins er nú skipaður
kafteinum. Það nægir að líta á kraftinn, staðfestuna í kvikum hreyf-
ingum hvaða einstaklings sem er þar sem hann spígsporar um til-
veruna, hrifsar til sín vellíðan sem á vegi hans verður, stendur fast á
ákvörðun sinni.
Allt hið góða og allt hið slæma í nútíðinni og í nánustu framtíð
á rætur sínar og orsakir í þessari almennu hækkun hæðarmáls sög-
unnar. [...]