Skírnir - 01.09.2012, Blaðsíða 93
SKÍRNIR
AUGU MÍN OPNUÐUST ...
353
verð í sjálfri sér [...] Þó að hugsjónarlig fegurð sé það er snilldin með flugi
ímyndunarkraftarins leitist við að skapa og leiða fyrir sjónir, þá vanrækir
hún aldrei sannleikann, en sannleiki hennar er með margvísligu móti. Haldi
maður snilldin ljúgi, kemur það til af því að menn ekki hafa rétt athugað
hvað sannleiki er í hvörjum hlut. (TS 1947: 333)
Þegar kemur hins vegar að opinberun hins trúarlega sannleika eða
hinnar trúarlegu reynslu í efnislegri mynd listaverksins, virðist sem
lútersk trúarsannfæring hans taki undir þá fullyrðingu Platons, að
myndlistin sé villuleiðandi og óhæf til að miðla andlegum sannleika,
því menn hætti að greina á milli myndarinnar og þess sem hún á að
sýna:
Einhvör náttúrlig óafvitandi tilfinnan kenndi mönnum skyldugleik hins
sýniliga og ósýniliga, maður sá að það sem var fagurt útlits mætti vera gott
... Allar hinar hærri hugsjónir, en sér í lagi hinar hæstu, trúarbrögðin, þessi
ósýniliga tilhneiging sem knýr manninn til að leita hins ósýniliga, hefir hjá
öllum þjóðum hlotið að ífærast líkamligum sýniligum meðölum til þess
manni gjörist þar um ímyndanin hægari, sem yfir höfuð veitir örðugt að
vera lengi á flugi. Þannig er öll skurðgoðadýrkun skeð þegar menn hættu
loks að aðskilja myndina frá hlutnum. ... Djöfulinn létu menn sér nl. ekki
nægjast með í þankanum að vita sem höfund alls hins illa, heldur urðu menn
að festa þennan þanka við einhvörja sýnilega mynd; ímyndunin bjó því til
hendur, dró upp hin ótrúligustu skrímsli er hvörgi var að finna í náttúrunni,
til að gjöra hlutinn því afskræmiligri og til að geta enn betur speglað sig í
hönum. Kirkjusagan hefir dæmi upp á meðal hálfsiðaðra þjóða að þær með
engum fortölum létu fá sig til að taka við trúnni, en þegar fyrir þeim var upp-
málað helvíti og hinn síðasti dagur féllst þeim allur ketill í eld og vildu
gjarna hafa siðaskipti. Þar af má sjá nauðsyn snilldarinnar fyrir mannliga
skynsemi, hér af má líta hennar miklu verkanir í mannligu lífi. (TS 1947:
330-331)
Hér helgast listin og fegurðin semsagt ekki af sjálfri sér heldur
þjónar hún því hlutverki að þröngva hálfsiðuðum þjóðum til réttrar
trúar á fölskum forsendum. Hér virðist Tómas einkum hafa í huga
miðaldalist og barokklist, þar sem myndlistin var meðvitað notuð
til trúarlegrar innrætingar. Mótsögnin felst í því að Tómas virðist hér
hafa tileinkað sér þann skilning J.C. Winckelmanns að miðaldalistin
væri frumstæð og barokklistin úrkynjuð vegna þess að þær höfðuðu