Tímarit Máls og menningar - 01.02.2005, Page 106
Bókmenntir
eða regnþungum dögum, hefur vikið fyrir knappari stíl sem er nær okkar gömlu
sagnahefð. Frásögnin byggð á munnmælasögnum hverfisins er í fyrirrúmi. Þess
vegna er að finna í orðræðu strákahópsins ómengað Vogagötumál og neðan-
þindarsögur í ótal myndum. Jói er mættur á svæðið eins og aðalsöngvari í
hljómsveit og lætur okkur vita að því fylgi ekkert málskrúð:
Ég fer hratt yfir sögu og sleppi öllu kjaftæði, um morgunsólina sem er að rísa og regnið
sem bylur á þökunum og allt þetta leiðindabull í bókum.
Ég ætla heldur ekki að rekja neinar ættir eða gera veður út af einhverjum vanda-
málum aftur í rassgati.
Ég segi bara eins og dátinn í Eldfærunum: Hér gerist ekkert fyrr en ég mæti á stað-
inn. (bls. 9)
Bítlaávarpið er margra laga bók í tvennum skilningi. Hún er full með rokk og ról
og einlægt bítl. Ófá rokklög tímabilsins leika um veröld bókarinnar. En form-
gerð hennar er líka í nokkrum lögum. Á yfirborðinu er hún þroskasaga Jóa, og
sem slík er hún aðallega skemmti- og gleðisaga. Hins vegar blundar í þeirri sögu
djúp undiralda saknaðar og sorgar. En bókin er einnig ávarp, yfirlýsing, maní-
festó. Hún hefst með kátlegum útúrsnúningum úr Kommúnistaávarpinu: „Vofa
gengur laus um götur heimsins, vofa Bítlanna.“ (bls. 7) Þó á hún meira sam-
merkt með súrrealistaávörpum sem André Breton og vinir hans sendu frá sér á
sínum tíma og ávörpum fútúrista og fleiri menningarhópa. Hún er í senn
yfirlýsing skáldsins um skáldskap sinn og yfirlýsing í nafni æskulýðsbyltingar-
innar, sem off er tengd ’68-kynslóðinni. En hún er ekkert hinsta andvarp kyn-
slóðarinnar heldur lifandi tákn þess að hugsjónir deyja ekki heldur lifa áfram.
„Unglingar allra landa leiðist, kyssist og elskist.“ (bls. 43) Á Bítlatímanum
verður táningurinn sem hugtak til. Áður þekktust ekki táningar. Elsta ritaða
dæmið um það orð í Orðabók Háskólans er raunar frá 1971. En í söngvum Bítl-
anna og annarra hljómsveita, sem á sjöunda áratugnum voru kallaðar neðan-
jarðarhljómsveitir eða á góðu slangri „öndergrándgrúppur", örlaði á uppreisn
gegn samfélagsvaldi sem þeim birtist í ýmsum myndum. Og þá ekki síður í
viktoríönsku viðhorfi til kynlífs eða forræðishyggju skólayfirvalda en í stríðs-
rekstrinum í Víetnam eða í kapítalísku arðráni. Þessir þættir mótuðu hugtakið
táningur á þessum árum. Það tengdist frelsi í ástum, frelsi í klæðaburði og hár-
sídd, háværri tónlist, frelsi gagnvart öllu valdi, hugvíkkandi skynvillulyfjum,
jafnrétti, bræðralagi og endalausri bjartsýni. En umfram allt tengdist það leit
unglingsáranna að öllu þessu.
Við stækkum í spegli hugans og teygjum okkur upp í skýin þar sem draumarnir flæða.
Áður flugu fuglar í gegnum hugann og ástin bíður og vonar.
All you need is love. (bls. 43)
Þegar þessar hugsjónir flæða yfir heiminn og alla leið að íslandsströndum
umhverfist æskan á skerinu. Hún ögrar valdi og hefur ástina og kynlífið í hásæti
af mikilli bjartsýni og barnslegri trú. Einar Már velur þá leið að láta þessar hug-
104
TMM 2005 • 1