Bændablaðið - 28.02.2019, Side 28
Bændablaðið | Fimmtudagur 28. febrúar 201928
FRÉTTASKÝRING MATVÆLI&HEILSA
Á fundi um lýðheilsu og matvæli
sem haldinn var í Súlnasal
Hótel Sögu þann 21. febrúar,
hélt Lance Price, prófessor við
George Washington-háskóla í
Bandaríkjunum, þar erindi ásamt
Karli G. Kristinssyni, prófessor
við Háskóla Íslands og yfirlæknir
við sýkla- og veirufræðideild
Landspítalans. Töldu þeir báðir að
staðan á Íslandi væri enn einstök á
heimsvísu. Því væri afar mikilvægt
að verja hana með öllum tiltækum
ráðum.
Karl G. Kristinsson sagði m.a.
í sínu erindi á fundinum að Ísland
hafi algjöra sérstöðu varðandi lágt
nýgengi súnu- og dýrasjúkdóma,
litla sýklalyfjanotkun og lítið
sýklalyfjaónæmi í landbúnaði. Taldi
Karl mikilvægt að vekja almenning
til umhugsunar um hvort og hvernig
það vildi varðveita þessa sérstöðu
okkar. Hann sagðist telja það skyldu
sína sem sérfræðings á þessu sviði
að upplýsa fólk um sína vitneskju.
Hann segir að sérstaða Íslands
felist í því að landið er eyja og
hér hafi bústofnar verið ræktaðir í
einangrun í um 1000 ár. Aðeins um
20% þekktra smitsjúkdóma finnist
því í íslensku búfé. Þetta þýði að
minni afföll verða vegna sjúkdóma,
meðferðarkostnaður sé lægri og
afurðatjón minna en þekkist víðast
erlendis. Að sama skapi sé íslenskt
búfé sérlega viðkvæmt ef hingað
berist sjúkdómar erlendis frá.
Lítil tíðni sjúkdóma í íslensku
búfé skipti lýðheilsu Íslendinga
líka miklu máli. Hér er að sögn
Karls lítil tíðni matarsýkinga, færri
innlagnir á sjúkrahús en þekkist
erlendis vegna súna og lítið um
sýklalyfjaónæmi, allavega enn
sem komið er. Þetta er afar mikils
virði fyrir íslenska heilbrigðiskerfið
sé miðað við gríðarlega háa
tíðni kamfílóbakteríussmits
og salmonellusmits í ríkjum
Evrópusambandsins samkvæmt
skýrslum European Food Safety
Authority (EFSA).
Raunveruleg og vaxandi ógn
Sagði Karl að raunveruleg og vaxandi
ógn væri vegna baktería sem eru
ónæmar fyrir öllum eða nánast öllum
sýklalyfjum. Smithættan væri m.a.
frá ferðamönnum, bæði íslenskum
og erlendum, matvælum og fóðri.
Þá muni aukinn innflutningur
auka líkur á því að nær-alónæmar
bakteríur nái hér fótfestu og að nýir
búfjársjúkdómar berist til landsins.
Ekki grín heldur grafalvarlegar
staðreyndir
Sagði hann fólk oft tala í hálfkæringi
um af hverju það ætti að hafa
áhyggjur af þessu. Það væri oft í
útlöndum og yrði ekki meint af að
borða erlendar landbúnaðarafurðir.
Þessi rök sagði Karl áhugavert að
skoða í rannsóknum sem gerðar hafa
verið á Landspítala Íslands varðandi
fólk sem þangað hefur komið og
greinst smitað af kamfílóbakteríum.
15 sinnum meiri líkur á smiti á
ferðalögum erlendis
Skoðuð var tíðni þeirra sem
komið hafa inn á spítalann með
kamfílóbakteríu úr fæðu frá árinu
1996 til 2018 og hverjir af þeim hafi
verið að ferðast utanlands og hverjir
einungis verið á Íslandi.
Niðurstöður rannsóknarinnar
voru sláandi. Að meðaltali var fjöldi
tilfella smitaðra einstaklinga sem
eingöngu höfðu dvalist á Íslandi og
borðað sinn mat þar yfir þetta tímabil
16,9 á ári. Þeir sem dvalist höfðu
erlendis og smitast þar voru hins
vegar að meðaltali 258. Með öðrum
orðum, þeir sem smitast höfðu af
kamfílóbakteríu við neyslu á fæðu á
Íslandi voru einungis tæplega 6,6%
af þeim fjölda sem smitast hafði
af neyslu fæðu í útlöndum. Þetta
bendir til að það geti verið nærri
15,3 sinnum meiri líkur á að verða
fyrir kamfílóbaktersmiti við neyslu
á fæðu í útlöndum en á Íslandi. Þetta
eru vísindalegar staðreyndir.
Í rannsókninni kom fram að
fjöldi þeirra sem smitast höfðu af
kamfílóbakteríu á Íslandi og komu
til meðhöndlunar á Landspítalanum
var langsamlega mestur árið 1999 og
fór yfir 100 manns, en minnkaði svo
verulega árið 2000. Fjöldi smitaðra
sem komið höfðu frá útlöndum árið
1999 var nær 600 og fór yfir 850
árið 2000.
Þessum niðurstöðum ber
nákvæmlega saman við rannsókn
sem dr. Tómas Jónsson gerði á fjölda
kamfílóbakteríusmitaðra kjúklinga
hjá Ísfugli á árunum 200 til 2018.
Róttækar breytingar voru gerðar
árið 2000 hjá Ísfugli til að koma
í veg fyrir kamfílóbakteríusmit.
Það leiddi til þess að smittilfellum
fækkaði úr 44% í 20,4% á einu
ári. Síðan hefur smittíðnin verið
stöðugt á niðurleið og var í fyrra
0,9 til 2,1% eftir því hvort sýni
voru tekin fyrir eða eftir slátrun. Svo
lága tíðni er afar sjaldgæft að sjá í
kjúklingaframleiðslu á heimsvísu
og víða erlendis eru slíkar mælingar
ekki gerðar með skipulegum hætti.
Engar tölur virðast vera til um
fjölda smittilfella í fólki sem kom frá
útlöndum á árunum 2001 og 2002,
en öll árin frá bæði fyrir 2001 og frá
2003 til 2018 er sá fjöldi margfaldur
á við þá sem smituðust á Íslandi.
Þrátt fyrir að tölur virðist skorta
fyrir smitanir í útlöndum í tvö ár
af 22, þá er meðaltalið samt 258
á móti 16,9 á Íslandi eða ríflega
fimmtánfalt. Líklegt er því miðað
við öll hin árin að tíðnin af smiti
erlendis geti verið talsvert hærri en
niðurstöður rannsóknarinnar sýnir.
Þá kom fram í erindi Karls G.
Kristinssonar á Hótel Sögu að í
flestum löndum heims sé alls ekki
verið að leita að kamfílóbakteríum
í kjúklingum. Enda hafa ítrekaðar
fréttir borist af því, m.a. í fréttum
The Guardian í Bretlandi, að um þrír
fjórðu kjúklinga í stórverslunum sé
smitaður af kamfílóbakteríum.
Í kjúklingaeldi á Íslandi var
sett bann árið 1979 við sölu á
ferskum kjúklingum vegna tíðra
salmonellu smittilfella. Var tekin upp
frystiskylda á öllu kjúklingakjöti.
Aðgerðir til að reyna að útrýma
salmonellu úr kjúklingum hófust svo
fyrir alvöru árið 1992. Árangurinn
varð svo góður að aftur var gefið
leyfi til að selja ferska kjúklinga hér
á landi árið 1995.
Heilsufarslega tilraun þar sem
íbúar á Íslandi eru tilraunadýrin
Líkurnar á að fá sýklalyfjaónæmar
bakteríur úr landbúnaðarafurðum
í Evrópu og Bandaríkjunum eru
margfaldar á við það sem búast
má við á Íslandi. Ástæðan er tíðni
ofurbaktería í nautgripum, alifuglum
og grænmeti er margfalt líklegri úti
í Evrópu og Bandaríkjunum vegna
mikillar notkunar á sýklalyfjum sem
vaxtarhvata sem er óþekkt á Íslandi
og hefur hér alla tíð verið bannað.
Hættan á að flytja sýklalyfjaónæmar
bakteríur til Íslands með ferskum
landbúnaðarafurðum hljóta því að
vera afar miklar.
Miðað við rannsóknirnar sem
gerðar voru á Landspítalanum er
vart hægt að draga aðra ályktun
en að verið sé að taka gríðarlega
heilsufarslega áhættu fyrir heila
þjóð. Það er með öðrum orðum
verið að gera heilsufarslega
tilraun þar sem allir íbúar á Íslandi
eru tilraunadýrin ásamt þeim
bústofnum sem Íslendingar bera
ábyrgð á. Allt er þetta gert að kröfu
Evrópusambandsins sem nýtur þar
stuðnings áhugafólks á Íslandi um
óheft viðskiptafrelsi. Það er líka
sagt gert í þágu neytenda og fullyrt
að þeim stafi engin hætta af þessu.
Það er fullyrt þrátt fyrir vitneskju
um að tugir þúsunda deyi nú árlega
af völdum fjölónæmra baktería í
löndum sem viðskiptin eru við.
Í reglum Matvælastofnunar um
dreifingu á alifuglakjöti
segir m.a.:
„Afurðum sláturhóps má dreifa
óhitameðhöndluðum eða ófrystum
þegar fyrir liggja niðurstöður úr
eldissýnum viðkomandi sláturhóps
um að ekki hafi greinst kampýlóbakter
og að sýnið sé ekki eldra en 5
daga gamalt. Ef kampýlóbakter
greinist í sýni á eldistímanum eða
niðurstöður rannsókna úr eldissýni
liggja ekki fyrir eða sýnið er ógilt,
þá skulu sláturafurðir viðkomandi
alifuglahóps allar frystar eða
hitameðhöndlaðar.“
Sama gildir væntanlega fyrir aðrar
kjöttegundir. Þetta hlýtur að þýða að
hver einasta kjúklingakjöttutla sem
flutt verður inn án þess að hafa verið
hitameðhöndluð eða fryst verður að
fara í gegnum skoðun hjá MAST,
hvað sem öllum tollasamningum
líður.
Ekkert regluverk sem bannar sölu
á vörum með sýklalyfjaónæmar
bakteríur
„Í dag er ekkert regluverk til
sem bannar eða hamlar sölu
á landbúnaðarafurðum með
sýklalyfjaónæmar bakteríur,“ sagði
Karl. Til að bregðast við því þyrfti
að draga úr innflutningi og gera
íslenskan landbúnað sjálfbærari.
Einnig að upplýsa almenning um
hætturnar af sýklalyfjaónæmi og
hvernig það berst. Í dag er einmitt
verið að fara þveröfuga leið með
auknum heimildum í innflutningi
á landbúnaðarafurðum vegna
tollasamninga við Evrópusambandið.
Um 100 þúsund Bandaríkjamenn
deyja árlega af völdum
ofubaktería
Lance Price sagði m.a. á
fundinum á Hótel Sögu stöðuna í
þessum efnum hafa gjörbreyst á
undanförnum tíu árum. Eftir því
sem sýkingarnar yrðu erfiðari, þá
yrði stöðugt kostnaðarsamara fyrir
heilbrigðiskerfið að meðhöndla
sjúklingana sem þýddi fleiri
dauðsföll. Þess vegna sé afar mikils
virði ef hægt sé að koma í veg fyrir
að þetta ástand skapist og þar séu
Íslendingar enn í einstakri stöðu á
heimsvísu.
„Nú er áætlað að 100 þúsund
Bandaríkjamenn deyi árlega vegna
smits frá lyfjaónæmum bakteríum,“
sagði dr. Price.
FRÉTTASKÝRING
Hörður Kristjánsson
hk@bondi.is
Sérfræðingar vara sterklega við óheftum innflutningi á ferskum og ómeðhöndluðum landbúnaðarafurðum:
Er verið að gera heilsufarslega tilraun þar
sem íbúar á Íslandi eru tilraunadýrin?
– Leikur að eldi með lyfjaónæmar bakteríur – búfjárstofnar með þúsund ára einangrun að baki settir í hættu að kröfu ESB
Prófessorarnir Karl G. Kristinsson og Lance Price hafa verið að bera saman bækur sínar varðandi vaxandi hættu
sem heimsbyggðinni stafar af vaxandi tíðni lyfjaónæmra baktería. Þeir vöruðu báðir sterklega við því á opnum fundi
á Hótel Sögu nýverið að Íslendingar heimili innflutning á ómeðhöndluðum ferskum landbúnaðarvörum til Íslands.
Áhættan af því gæti verið gríðarleg, bæði fyrir bústofna, heilsu þjóðarinnar sem og heilbrigðiskerfið. Myndir / HKr.
Tafla sem Karl G. Kristinsson sýndi á fundinum og sýnir fjölda sjúklinga
sem meðhöndlaðir hafa verið vegna kamfílóbakteríusmits á árunum 1996 til
2018. Rauðu súlurnar sýna þá sem smitast höfðu á ferðum sínum í útlöndum
og þær bláu sýna þá sem smitast höfðu á Íslandi.
Karl G. Kristinsson í ræðustól í Súlnasal Hótel Sögu, en fundurinn var mjög
vel sóttur.