Bændablaðið - 28.02.2019, Side 59

Bændablaðið - 28.02.2019, Side 59
Bændablaðið | Fimmtudagur 28. febrúar 2019 59 Ráðherra slær ryki í augun á bændum! Sjávarútvegs- og landbúnaðar- ráðherra leggur til að við afnemum leyfisveitingakerfi sem við reiðum okkur á til að verja heilbrigði búfjárstofna okkar og heilnæmi matvæla. Þetta er samkvæmt frumvarpi sem hann kynnti 20. febrúar sl. Um leið og hann reynir að fullvissa okkur um að ekkert sé annað í stöðunni þá slær hann ryki í augun á mönnum og segir að farið verði í heilmiklar aðgerðir samhliða þessu. Aðgerðir sem vel á minnst væri flestar auðvelt að fara í án þess að afnema leyfisveitingakerfið. Þetta eru líka aðgerðir sem við höfum enga vissu fyrir því að virki eða séu varanlegar. Í stað þess að narta sífellt af íslenskum bændum ættu stjórnvöld frekar að sjá sér hag í því að gefa frekar í þegar kemur að íslenskri landbúnaðarframleiðslu. Þetta eru staðreyndir sem skipta máli: • Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur lýst því yfir að sýklalyfjaónæmi sé ein stærsta ógn við lýðheilsu í heiminum. Sú ógn hefur farið ört vaxandi. • Ísland hefur frábæra stöðu. Viljum við í alvörunni fórna henni til þess eins að stórkaupmenn Íslands geti grætt meiri pening á íslenskum neytendum? • Búfjársjúkdómar sem hingað til lands bárust með misráðnum innflutningi hafa ýmist verið upprættir eða þeim haldið í skefjum með markvissu varnarstarfi af hálfu bænda. Okkur er sagt að aðrir og mikilvægari hagsmunir trompi allt það sem hér hefur verið rakið. Það gæti haft svo svakalega slæm áhrif á sjávarútveginn ef að stjórnvöld myndu reyna að taka slaginn með landbúnaðinum. Fólk verður að hafa okkur sauðfjárbændur afsakaða. Okkur sem höfum upplifað stöðugan tekjusamdrátt á einu mesta hagvaxtarskeiði þjóðarinnar. Hafið okkur afsakaða meðan við neitum að taka þátt í því að vera þröngvað enn nær bjargbrúninni á meðan við horfum á kvótagreifana á snekkjum úti á sjóndeildarhringnum! Allt það sem við höfum barist fyrir, allt það sem við höfum unnið fyrir og allt það sem við skuldum næstu kynslóðum má ekki verða kastað á glæ til þess eins að þeir allra ríkustu á Íslandi verði enn ríkari! Einar Freyr Elínarson, formaður Félags sauðfjárbænda í Vestur-Skaftafellssýslu Einar Freyr Elínarson. Þingeyrarakademían að störfum. Mynd / Haukur Sigurðsson Þingeyrarakademían ályktar: Enn þá meira um bankamálin Höfuðstöðvar Landsbankans, banka allra landsmanna í Austurstræti, er hús með sál og sögu. Þeir eru ekki margir bankarnir norðan Alpafjalla sem eiga svona fallega byggingu. En nú skal byggja nýja peningahöll úr steypu, járni og gleri á dýrasta stað í höfuðborginni og bílakjallara við hæfi. Níu milljarðar þar. Sennilega 15 milljarðar þegar upp verður staðið. Þingeyrarakademían leggur eindregið til að þessari vitleysu verði hætt nú þegar og lóð og heila klabbið selt. Drottningin í væntanlegri voða stórri höll hefur á skömmum tíma fengið launahækkun sem er á við fimmföld mánaðarlaun verkamanns. Fimmföld. Þar með hefur hún ellefu sinnum hærri laun en gjaldkerinn í bankanum. Rök bankaráðsins eru þau að hún átti að fá þessa hækkun! Frúin í Íslandsbanka er svo sér á báti sem við höfum ekki þrek til að ræða. Ef fer sem horfir verða þessar ofurkonur fljótlega komnar með 10-15 milljónir á mánuði. Þingeyrarakademían leggur hins vegar til að enginn ríkisstarfsmaður hafi hærri laun en 2 milljónir á mánuði. Allt sem hér hefur verið rakið er eins og blaut gólftuska framan í landsmenn. Bankasýslan og ráðherra koma af fjöllum og biðja náðarsamlegast um upplýsingar. Er enginn maður með viti sem fylgist með bönkum allra landsmanna? Spyrja verður einnig: Hvað eru bankaráðsmennirnir með í árslaun fyrir dómgreindarleysið? Þingeyrarakademían Gangur í höfuðstöðvunum. Ómetan­ leg listaverk Kjarvals prýða þar veggi og víðar í bankahúsinu. LESENDABÁS Alþingi hafnaði „hráakjötinu“ alfarið Það var ófrávíkjanlegt skilyrði Alþingis fyrir samþykkt sk. matvælalöggjafar Evrópu- sambandsins 2009 að áfram væri bann við innflutningi á hráu ófrosnu kjöti, hráum eggjum, ógerilsneyddum mjólkurvörum og hráum ósútuðum skinnum. Málið hafði fjórum sinnum verið lagt fyrir Alþingi Íslendinga sem hafnaði því afdráttarlaust að leiða „matvælapakka ESB“ í heild sinni sinni í íslensk lög þrátt fyrir yfirlýsingu sameiginlegu EES nefndarinnar á sínum tíma um að það yrði gert. Lýðheilsa og heilbrigði búfjár er ekki verslunarvara Það var mat Alþingis 2009 að það væri réttur Íslendinga að ákveða sjálfir öryggiskröfur sínar varðandi vernd heilsu manna og dýra og á þeim forsendum var „matvælapakkinn“ samþykktur á Alþingi með skýrt skilgreindum frávikum. Heilbrigði íslenskra búfjárkynja og lýðheilsa þjóðarinnar er á pólitískri ábyrgð íslenskra stjórnvalda en ekki verslunarvara í almennri samkeppni sem lýtur lögmálum frjálsra viðskipta. Á þeim forsendum var „matvælakaflinn“ samþykktur á Alþingi, annars hefði hann aldrei verið afgreiddur. Mín skoðun sem ráðherra á þeim tíma er sú að „Matvælakafli“ ESB og innleiðing hans sé allur fallinn úr gildi eftir dóm Hæstaréttar í málinu. Í meðferð þingsins voru öll þessi ákvæði samningsins óaðskiljanleg og ekki hægt að fella einn þátt úr gildi án þess að það taki til samningsins í heild. Alþingi var því fullkomlega ljós á þeim tíma alvara málsins. Gangur málsins á Alþingi Við innleiðingu á „matvælapakka“ ESB þurfti að breyta ýmsum lögum. Mest var tekist á um hráakjötið, breyting á þeim undanþágum sem Ísland hafði haft frá I. kafla í viðauka I við EES samninginn, þ.e. undanþága frá frjálsu flæði á lifandi dýrum, hráum sláturafurðum o.fl. Lögð voru fram fjögur frumvörp fyrir jafnmörg þing sk. bandormar til breytinga á ofangreindum lögum, sem öll fylgja hér með, merkt frv.1-4. Fyrst var lagt fram frumvarp á vorþingi 2008 (135. löggjafarþ. þskj. 825-524. mál, merkt hér frv. 1). Í því var gert ráð fyrir að leyfisveitingakerfi fyrir hrátt kjöt o.fl. yrði fellt niður. Það frumvarp mætti mikilli andstöðu í þingnefnd og var ekki afgreitt. Næsta frumvarp (frv. 2) sama efnis var lagt fram í janúar 2009 (136. löggjafarþ. þskj. 418-258. mál). Það mætti áfram mikilli andstöðu og var heldur ekki afgreitt úr þingnefnd. Frumvarp 3 var lagt fram á sumarþingi 2009 (137. löggjafarþ. þskj. 241-147. mál). Þar var gerð sú meginbreyting að innflutningur á hráum sláturafurðum o.fl. var áfram gerður leyfisskyldur m.a með frystikvöðum. Þetta frumvarp varð heldur ekki að lögum, en fjórða frumvarpið var lagt fram haustið 2009 (138. löggjafarþ. þskj. 17-17. mál). Í því frumvarpi var ein efnisleg breyting frá því þriðja, þ.e. að bætt var við hráum eggjum, ósótthreinsuðum hráum skinnum og húðum við bannvörur í 10. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim (32. gr. frv.).Þetta frumvarp varð að lögum nr. 143/2009. Alþingi hafnaði „hráakjötinu“ alfarið Það var fullreynt sumarið 2009 að lög sem heimiluðu innflutning á hráu ófrosnu kjöti yrði ekki afgreidd á Alþingi. Því var ákveðið í frumvarpinu sem flutt var sumarið 2009 að halda innflutningsbanninu og frystiskyldunni, en tekið fram í greinargerð að það væri ekki í samræmi við samþykkt sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þannig var málið einnig kynnt í ríkisstjórn og fyrir þingflokkum stjórnarflokkanna. Sjávarútvegs- og landbúnaðar- nefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu 2009 að bannið við innflutningi á hráu ófrosnu kjöti, hráum eggjum og ógerilsneyddri mjólk væri í samræmi við það sem Ísland hafði samið um við EES og vísaði þar til 13. gr. EES-samningsins. Þannig var frumvarpið samþykkt samhljóða og mótatkvæðalaust á Alþingi sumarið 2009. Það var mín ætlan sem ráðherra að fylgja þessum málum eftir beint á pólitísku plani við stjórnendur ESB en fékk því miður ekki ráðrúm og tíma til þess. Þjóðaröryggismál í höndum forsætisráðherra Hér er um eitt dýrasta lýðheilsumál þjóðarinnar að ræða og mikið í húfi. Ég legg til að forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir, taki matvælalöggjöfina og „hráakjötsmálið“ beint upp í viðræðum við þjóðarleiðtoga ESB og leiti eftir staðfestingu þeirra á sameiginlegum skilningi þjóðanna á þessu mikilvæga hagsmunamáli Íslendinga Jón Bjarnason, fyrrum landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason. Þunglyndislyf og atferli fiska Nýlega var birt grein sem ber heitið „Behavioural alterations induced by the anxiolytic pollutant oxazepam are reversible after depuration in a freshwater fish“ í tímaritinu Science of the Total Environment, þar sem Magnús Thorlacius, sérfræðingur á botnsjávarlífríkissviði Haf- rannsóknastofnunar, er einn höfunda. Á vef Hafrannsóknastofnunar segir að mengandi efni frá lyfjaiðnaði hafi fundist í náttúrunni víðs vegar á jörðinni en rannsóknir hafa nýverið leitt í ljós margs konar neikvæð áhrif á heilsu villtra dýra. Þar á meðal eru efni á borð við benzodiazepam, sem er virka efnið í þunglyndislyfinu oxazepam, og getur borist út í umhverfið með þvagi neytenda. Slík lyf verða sífellt útbreiddari, en í vatnakerfum þéttbýlla svæða getur styrkleiki þeirra náð slíkum hæðum að atferli fiska gjörbreytist. Hingað til hefur hins vegar lítið verið skoðað hvort áhrifin séu afturkræf. Í greininni var sýnt fram á að þunglyndislyfið oxazepam, í styrkleika sem er að finna í ánni Fyrisån í sænsku borginni Uppsölum, breytir atferli vatnabobba (Lota lota), en að áhrifin ganga til baka eftir fáeina daga í hreinu vatni. Fiskarnir urðu minna varir um sig og meira aktívir á meðan lyfjanna var vart og þar af leiðandi auðveldari bráð fyrir ránfiska og fugla. Mikil áhersla hefur víða verið lögð á að rannsaka áhrif lyfja sem þessara á vatnalífverur, sem hefur sýnt sig að eru misnæmar fyrir lyfjunum, en lítið verið skoðað hvort áhrifin séu afturkræf. Hér er sýnt fram á að til er allavega ein tegund sem verður ekki fyrir varanlegum áhrifum af þunglyndislyfinu oxazepam. Tilraun þessi átti sér stað í Svíþjóð þar sem áhrif mengunar frá lyfjaiðnaði hefur verið rannsökuð í tæpan áratug í kjölfar þess að hár styrkleiki þunglyndislyfja mældist í ám og vötnum í og við þéttbýli. Hvort áhrif sem þessi eigi sér stað á Íslandi er ekki vitað en þau hafa lítið verið rannsökuð. Þéttleiki byggðar hér á landi er augljóslega lægri en í erlendum stórborgum en notkun þunglyndislyfja á Íslandi er á móti mjög algeng. /VH Kemur næst út 14. mars Bændablaðið Hvar auglýsir þú? Sími 563 0300 / Netfang: bbl@bondi.is / bbl.is 45,6% fólks á landsbyggðinni les Bændablaðið 20,4% 45,6% á landsbyggðinniá höfuðborgarsvæðinu 29,5% landsmanna lesa Bændablaðið Lestur Bændablaðsins: BÆNDABLAÐIÐ ER GEFIÐ ÚT Í 32 ÞÚSUND EINTÖKUM Á TVEGGJA VIKNA FRESTI Heimild: Prentmiðlakönnun Gallup, okt.-des. 2018. Aldur 12-80 ára.

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.