Bændablaðið - 28.02.2019, Side 46
Bændablaðið | Fimmtudagur 28. febrúar 201946
LANDGRÆÐSLAN
Árni Bragason landgræðslustjóri um ný lög um Landgræðsluna:
Sjálfbær landnýting er grunntónninn í nýjum lögum
Í lok nýliðins árs samþykkti
Alþingi lagafrumvarp um
málefni landgræðslu á Íslandi.
Markmið þessara laga er að
vernda, endurheimta og bæta
þær auðlindir þjóðarinnar sem
fólgnar eru í gróðri og jarðvegi
og tryggja sjálfbæra nýtingu
lands. Með nýju lögunum var
nafni Landgræðslunnar breytt
úr Landgræðslu ríkisins í
Landgræðslan.
Í nýju lögunum er mörkuð
stefna í vernd og sjálfbærri nýtingu
jarðvegs og gróðurs og endurheimt
vistkerfa. Lögin gera ráð fyrir að
eigi sjaldnar en á fimm ára fresti
gefi ráðherra út landgræðsluáætlanir
til tíu ára í senn. Einnig er gert ráð
fyrir að unnar verði svæðisáætlanir
sem draga fram sérstöðu og áherslur
eftir landshlutum.
Reglulegt mat á ástandi lands
Til að tryggja sem best sjálfbæra
nýtingu lands, er gert ráð fyrir því
í lögunum að reglulega fari fram
mat á ástandi lands og árangri
landgræðslustarfs, að sett séu
viðmið um sjálfbæra landnýtingu
og að unnin verði áætlun um úrbætur
þar sem landnýting er ekki sjálfbær.
Í lögunum segir líka að leiði
framkvæmdir eða landnýting til
umtalsverðs rasks á landvistkerfum
eða gróðri og jarðvegi þá skuli
bæta fyrir það með endurheimt
sambærilegra vistkerfa.
Þá kemur fram í lögunum hvert
sé hlutverk Landgræðslunnar við
umsjón lands vegna landgræðslu,
annars vegar lands í eigu ríkisins
og hins vegar lands í einkaeigu sem
ríkið hefur umsjón með samkvæmt
samkomulagi við eiganda.
Sjálfbær landnýting
– En hverju breyta þessi nýju lög
fyrir Landgræðsluna?
Árni Bragason landgræðslustjóri
segir að lögin séu mun skýrari en
gömlu lögin sem voru við lýði
í 53 ár og átta mánuði! Nú er
kominn lagagrundvöllur fyrir
margt af því sem er á verkefnalista
Landgræðslunnar en gömlu lögin
voru orðin ansi gloppótt. Einnig
voru til dæmis lög um Varnir gegn
landbroti færð inn í nýju lögin.
Landgræðslustjóri segir að í
lögunum séu tveir meginþættir.
Annars vegar að landnýting skuli
vera sjálfbær og hins vegar að nú
hafi Landgræðslan lagalega stoð til
að taka á ósjálfbærri landnýtingu.
En er búið að skilgreina hvað er
sjálfbært og hvað ekki? Þeirri
spurningu svarar landgræðslustjóri
neitandi en vinna við verkið er hafið
og má nefna verkefni sem heitir
Grólind sem dæmi um það.
Lokamarkið er reglugerð um
mat og nýtingu á ástandi lands,
en landgræðslustjóri sagði að um
reglugerðina yrði að ríkja góð
sátt sem ekki fengist nema með
samvinnu þeirra aðila sem að málinu
koma.
Nefnd með umsjón með
landgræðsluáætlunum
Eins og segir í upphafi þá er gert
ráð fyrir landgræðsluáætlunum til
10 ára í senn. Árni segir að þetta sé
í raun bylting.
„Stofnunin hefur verið að vinna í
landgræðsluáætlunum en ekki á þann
hátt sem nýju lögin gera ráð fyrir.
Ráðherra mun skipa nefnd sem hefur
umsjón með landgræðsluáætlunum.
Landgræðslustjóri er formaður en
auk hans verða í nefndinni þrír
sem ráðherra skipar en fimmta
fulltrúann skipar Samband íslenskra
sveitarfélaga. Þessum hópi er
ætlað að halda utan um vinnuna.
Landgræðsluáætlunin verður svo
lögð fyrir Alþingi. Þegar fram
líða stundir og gerð hefur verið
landsáætlun um skógrækt mun
ráðherra sjá til þess að þessar
áætlanir verði fléttaðar saman.
Varðandi landgræðsluáætlanirnar
þá er gert ráð fyrir miklu samráði
við sveitarfélög. Í lögunum er mjög
skýr rammi og leiðbeiningar hvernig
á að vinna hlutina.“
Lögin gera einnig ráð fyrir
svæðisáætlunum sem unnar verða
í framhaldi af landsáætlunum.
Í 7. grein laganna segir:
„Landgræðslan skal í samráði við
hlutaðeigandi sveitarfélög og aðra
hagsmunaaðila vinna svæðisáætlanir
fyrir hvern landshluta á grunni
landgræðsluáætlunar.“
Nýmæli sem kosta aukið fé
– Við lestur nýju laganna kemur fljótt
í ljós að Landgræðslunnar bíður
gríðarlegt verk við útfærslu laganna
– en er fjármagn fyrir hendi?
„Við erum ekki með fjárveitingar
fyrir öllum þessum þáttum en í
greinargerð með frumvarpinu kom
fram að ekki væri búið að fjármagna
allt það sem er framundan en mundi
rúmast innan ramma málaflokksins
innan ráðuneytisins. Það er ljóst að
þau nýmæli sem koma inn í lögin
kalla á aukna vinnu starfsmanna
Landgræðslunnar og við getum ekki
endalaust forgangsraðað verkefnum.
Það liggur fyrir að núverandi
ríkisstjórn er þegar byrjuð að efla
þennan málaflokk og ég hlýt því að
treysta að við fáum nægt fjármagn.“
– Má þá segja að þessi lög séu
vopn í baráttunni við að beisla
loftslagsvandann?
„Jú, nýju lögin skipta máli
þegar kemur að baráttunni við
loftslagsvandann. Þannig gera
sveitarfélögin sér æ betur grein
fyrir því að í aðalskipulagi verður
að takast á við loftslagsmálin.
Í aðalskipulagi verða menn að
gera sér grein fyrir því hvernig
hægt er að minnka sótsporið sem
mest. Jafnframt er hægt að hafa
aðalskipulagið þannig að binding
kolefnis aukist. Meginniðurstaðan
er sú að skiplagsáætlanir og
landgræðsluáætlanir tali saman – ef
svo mætti segja.“
Smæð sveitarfélaga
er visst vandamál
– En hafa sveitarfélög bolmagn til að
stíga þau skref sem eru nauðsynleg
í þessu sambandi?
„Smæð margra íslenskra
sveitarfélaga er vissulega vandamál.
Þau hafa mörg takmarkaða fjármuni
og getu til að taka á þessum málum
eins og þarf. Ég sé fyrir mér, að auk
þess sem Landgræðslan mun vinna
með einstaka sveitarfélögum, en við
munum vinna líka með samtökum
sveitarfélaga á svæðisvísu sem er
mun skynsamlegri nálgun. Mörg
þessara sveitarfélaga eiga líka
stór landsvæði sem getur haft
áhrif á hvernig og hvar verður
unnið. Þannig geta sum þeirra gert
samninga við fyrirtæki um bindingu
kolefnis og Landgræðslan komið inn
sem leiðbeinandi.“
Sjálfbærni á sjó og landi
Rauði þráðurinn í nýju lögunum er
sjálfbærni. Árni bendir á að innan
sjávarútvegsins sé grunntónninn
líka sjálfbærni. Fólk taki mark á
umsögnum vísindamanna um hafið
og auðlindir þess. Hið sama sé ekki
upp á teningnum þegar kemur að því
sem vísindamenn segja um landið.
„Þó að vísindamenn í land- og
uppgræðslu bendi á ósjálfbæra
landnýtingu virðast margir halda
fyrir augun og neita að sjá. Ég vona
að aukin fræðsla í landlæsi hjálpi
okkur til að skilja vandann sem felst í
sóun verðmæta í nútímasamfélaginu.
Við megum ekki ganga á land sem
við erum að nýta.“
Byggja upp þekkingu og
sjálfbærnivísa
– Þú nefndir verkefnið Grólind sem
dæmi um sjálfbærni.
„Já, Grólind er 10 ára verkefni
sem Landgræðslan er að vinna
í samstarfi við Landsamtök
sauðfjárbænda og Bændasamtök
Íslands. Grólind gengur út á það að
kortleggja nýtingu landsins; byggja
upp þekkingu og sjálfbærnivísa. Við
fórum af stað með Grólind 2017 en
ég bind miklar vonir við Grólind en
þar erum við að fá yfirsýn yfir ástand
lands, hvernig það er nýtt og hvar
skepnurnar ganga m.a. með gps-
tæki. Allt þetta gerir okkur kleift að
átta okkur betur á beitaratferli.
Það er langt í frá að gróður og
jarðvegur hafi náð því jafnvægi sem
að er stefnt. Við töpum jarðvegi ef
við erum of ágeng í nýtingu á landi
og það tekur árhundruð að mynda
þann jarðveg sem hefur tapast frá
landnámi. Ef gras er of mikið bitið
á plantan bara það ráð að minnka
rótarkerfið, gróður getur drepist í
framhaldinu og land rofnar. Þetta
ferli sjáum við alltof víða og þá ekki
síst á gosbeltinu þar er landið ungt
og mikil hætta á að jarðvegurinn
verði vindi og vatnsrofi að bráð.“
Reka fé á milli hólfa
En hefur t.d. skilningur þeirra sem
halda fé á þessum svæðum aukist
frá því sem áður var?
„Já, ég er ekki í nokkrum vafa
um það. Jarðvegurinn á gosbeltinu
er frjósamur en ofnotkun verður til
þess að landið gefur sig. Við eigum
það eitt ráð að fá langtímamat
á ástandið og færa til fé þegar
hættumerki sjást. Aðrar þjóðir hafa
gripið til þess ráðs að stýra beit en
það kallar á það að reka fé á milli
hólfa. Þannig fyrirkomulag mundi
líka auðvelda mönnum að sækja
fé og auka arðinn af búskapnum.“
Erum enn að beita
ósjálfbært land
Í nýju lögunum eru ákvæði um
hvað gera skuli ef landnýting er
ósjálfbær. Þegar slíkt á sér stað
verður sett í gang landbótaáætlun
sem verður unnið eftir, ef rekja má
ósjálfbæra landnýtingu til ágangs
vegna lausagöngu. Í svona málum
mun Landgræðslan óska þess
að viðkomandi sveitarstjórn – í
samráði við Landgræðsluna – geri
hlutaðeigandi skylt að hafa féð í
vörslu allt árið eða í tiltekinn tíma.
Ef þeir sem eiga í hlut bregðast ekki
við verður heimilt beita sektum.
„Ég hef engan áhuga á að fara
svona leið en þarna eru þessi
ákvæði komin inn og undirstrikar
vilja löggjafans að landnýting sé
sjálfbær. Núverandi kynslóð – rétt
eins og þær sem á undan eru gengnar
– er vörslumenn landsins. Indíánar
sögðu að þeir væru með landið að
láni frá kynslóðum framtíðarinnar.
Ef við förum illa með landið okkar
erum við að stórskaða möguleika
þeirra sem erfa það.
Því miður hefur landnýting á
Íslandi ekki verið á þeim nótum
sem frumbyggjar Ameríku höfðu
að leiðarljósi. Á ákveðnum svæðum
á Íslandi erum við með ósjálfbæra
nýtingu lands. Á hverju ári töpum
við kolefni – jarðvegi – sem fýkur á
haf út. Ástandið er ekki eins slæmt
og það var en enn erum við að beita
landsvæði sem þola það ekki.“
Verkum verður líklega þinglýst
– Um langt árabil hefur sú
regla verið í gildi að land, sem
Landgræðslan hefur tekið og
ræktað upp, er skilað til eigenda.
Hver er staða þeirra mála í nýju
lögunum?
„Þau eru áþekk á margan hátt en
skýrari þegar kemur því landi, sem
við höfum tekið og ræktað upp. Sú
jörð, þar sem land hefur verið tekið
eignarnámi, á rétt á að kaupa landið
til baka þegar búið er að græða það
upp. Þarna kemur upp spurningin
um forkaupsrétt eða kauprétt.
Landgræðslan hefði viljað sjá
ákvæði um forkaupsrétt. Sú staða
getur komið upp að einstaklingur
kaupi jörð, þar sem hluti hennar
hefur verið græddur upp af
Landgræðslunni. Kaupandinn getur
einfaldlega tilkynnt okkur að hann
ætli að fjárfesta í landinu. Engu
skiptir hvað hefur verið kostað
til í uppgræðslu né heldur hvort
gerðir hafi verið samningar um
kolefnisbindinu eða uppgræðslu.
Til að koma í veg fyrir að svona
sviðsmynd geti komið upp er
líklegt að við óskum eftir við
fjármálaráðuneytið að samningum
um kolefnisbindingu verði þinglýst
sem kvöð á viðkomandi jörð.
Reyndar er komið inn ákvæði að ef
landsvæði er náttúruverndarsvæði
samkvæmt náttúruverndarlögum er
það undanþegið ákvæðum um sölu.
Landgræðslan getur tekið land
eignarnámi og síðan metið hvenær
landið er sjálfbært. Sumir telja að
það dugi að kominn sé grænn litur
á landið en það er ekki svo.“
Samkomulag við landeigendur
– Í nýju lögunum eru skýr ákvæði
um það að Landgræðslunni sé
heimilt að gera samkomulag við
landeiganda eða rétthafa lands um
aðgerðir í samræmi við markmið
laganna til að draga úr eða koma
í veg fyrir jarðvegsrof. Ef þessi
leið er farin er umráð yfir landinu
á hendi Landgræðslunnar nema um
annað sé samið?
„Það var afar gott fyrir okkur að fá
inn þetta ákvæði. Ég sé fyrir mér að
þetta sé sú leið sem við munum fara
víðast hvar og er í fullu samræmi
við það sem við höfum verið að
gera á liðnum árum.“
– En sú spurning hlýtur að vakna
hvort það sé rétt að hið opinbera
sé að endurbæta land sem er í eigu
einstaklinga?
Árni segir að það sé vissulega
umdeilanlegt að skattpeningar fari
í endurbætur lands sem er í eigu
einstaklinga. Hann tók sem dæmi
Grímstaði á Fjöllum en einn ríkasti
maður Bretlandseyja á 70% landsins
á móti ríkinu. Landið er óskipt og
þar er full þörf á uppgræðslu og
koma veg fyrir að land tapist.
„Er rétt að við verjum tugum
milljóna til að endurbæta land
Grímsstaða? Ég hef reynt að ná
sambandi við eigandann til að ræða
þessi mál en hann hefur því miður
ekki svarað mér.“
Hærra áburðarverð dregur úr
framkvæmdagetu
– Að lokum?
„Landgræðslan hefur
fengið ný stöðugildi til að
sinna kolefnismálum og fé til
kolefnisbindingar hefur verið aukið.
Hins vegar vegur þungt á móti að
áburðarverð hefur hækkað um 15%.
Stærstu verkefni Landgræðslunnar
eru samstarfsverkefnin Bændur
græða landið og verkefni á
vegum Landbótasjóðs. Hækkun
áburðarverðs dregur hins vegar
verulega úr framkvæmdagetunni.
En við erum bjartsýn og sjáum fram
á verulega aukin umsvif á næstu
árum. Starf okkar nú um stundir
beinist að því að undirbúa okkur
fyrir því sem koma skal,“ sagði
Árni Bragason landgræðslustjóri
að lokum. /ask
Landgræðslan, Fjarðabyggð og Alcoa ætla í sameiningu að láta moka
ofan í skurði á Hólmum, utan við álverið í Reyðarfirði. Tilgangurinn er
að endurheimta 60 hektara votlendi með plöntu- og fuglalífi og stöðva
útstreymi gróðurhúsalofttegunda úr þornuðum mýrum. Verkið hófst formlega
á síðasta ári þegar Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Fjarðaáls, afhenti
Árna Bragasyni landgræðslustjóra styrk vegna framkvæmdanna.
Árni Bragason landgræðslustjóri.
Endurheimtur gróður á Geitasandi í Rangárþingi.