Bændablaðið - 28.02.2019, Side 33
Bændablaðið | Fimmtudagur 28. febrúar 2019 33
að líta svo á að hann hafi aldrei
fengið þetta tilboð.
„Að okkar mati var verðið sem
sett var á jörðina mjög óraunhæft.
Ég var búinn að slá flest túnin í
Breiðavík í mörg ár og nytja þau
fyrir búið á Geitagili, auk þess að
beita jörðina.“
Gengið frá kaupum og allt sett
í fullan gang á vordögum 1999
„Ekkert gerðist þó í sölumálum
jarðarinnar svo að á endanum kom
Jónas til okkar upp úr áramótunum
1999 og var þá sest niður og við
töluðum okkur saman um verð,“
segir Keran.
Allt gerðist þetta á mjög
skömmum tíma og þau Keran og
Birna Mjöll fluttu inn á Breiðavík
1. apríl og voru búin að opna
hótelið 15. maí. Byrjuðu þau á að
nýta aðstöðuna sem fyrir var en
Jónas og Árnheiður höfðu rekið þar
farfuglaheimili og voru komin með
vísi að gistihúsi.
Búið að kosta blóð, svita og tár
en sjá ekki eftir neinu
Keran og Birna Mjöll hafa
sannarlega unnið þrekvirki við
uppbyggingu staðarins með fjölgun
gistirýma í smekklegum gámahúsum
og viðbyggingu við gamla húsið
með góðu eldhúsi og veitingasal sem
tekur ríflega hundrað manns í sæti.
Þá hefur Keran verið að vinna við að
breyta útihúsum í gistiaðstöðu auk
þess að sinna skólaakstri, vitavörslu
við Bjargtangavita og fleira.
„Ef ég hefði séð hvað beið mín,
þá hefði ég aldrei byrjað á þessu,“
segir Keran.
„Við sjáum samt ekki eftir neinu
í dag, en þetta er búið að kosta blóð,
svita og tár. Við vorum með stórt
fjárbú og jukum við okkur þegar
við fluttum hingað til að reyna að
ná endum saman. Við áttum í raun
enga peninga þegar við byrjuðum
á þessu og keyrðum þetta fyrst og
fremst á bjartsýninni, mikilli orku
og óbilandi áhuga. Við fjölguðum
sauðfé og vorum komin með 1.000
fjár á vetrarfóðrum og héldum því
í tvo vetur. Vorum við alltaf með
féð á tveimur jörðum, bæði hér í
Breiðavík og á Geitagili. Það var
sannarlega allt kjaftfullt af fé á
báðum stöðum.
Þetta var afskaplega líflegt og
ekki síst sauðburðurinn. Samt
fengum við aldrei fólk að til að hjálpa
okkur við sauðburðinn. Við stóðum
bara í þessu sjálf hjónin og vorum
með krakkana okkar með okkur. Svo
keyrði maður skólabílinn meðfram
búrekstrinum, var í ullarmati,
grenjavinnslu og búfjáreftirliti, það
var ekki mikið sofið.“
Eiginkonunni hent út í djúpu
laugina í sveitastörfunum
Birna Mjöll bendir á að þegar
sauðburðurinn stóð sem hæst á vorin
hafi þau yfirleitt verið búin að opna
ferðaþjónustuna líka sem kallaði á
enn meira vinnuframlag. Hún tók
því að sér að vera kokkur á hótelinu.
„Þegar við keyptum hér í
Breiðavík og byrjuðum á þessum
rekstri höfðum við verið saman í tíu
ár. Ég hafði þá aldrei komið nálægt
búskap þótt hann hafi starfað á búinu
á Geitagili með foreldrum sínum.
Ég var því að mestu með börnin,
auk þess sem ég rak verslun niðri á
holtinu í Örlygshöfn. Ég var nú svo
græn að ég vissi varla úr hvaða gati
lömbin kæmu, hvað þá annað. Keran
færði mér því hundrað rollur fyrsta
vorið hér í Breiðavík til að æfa mig
á hvaðan lömbin kæmu.“
Gísli á Uppsölum hefði
örugglega roðnað yfir
aðferðunum
„Þessi fyrsti vetur okkar hér í
Breiðavík var mjög harður. Gísli á
Uppsölum hefði örugglega roðnað
yfir aðferðunum sem við þurftum að
nota fyrsta veturinn. Hér snjóaði allt
í kaf og við vorum ekki komin með
neinar dráttarvélar eða almennileg
tæki hingað yfir heiðina. Við
þurftum því að draga rúllurnar að
fjósinu með vélsleða.
Einu sinni var orðið rúllulaust í
húsunum og brjálað veður úti. Keran
var veðurtepptur á Geitagili og það
kom því í minn hlut að gefa fénu
sem var í gamla fjósinu, segir Birna.
Rúllan var fyrir utan fjósgluggana
og það var heylaust inni. Ég tók þá
rúðu úr fjósglugganum og mokaði
heyinu inn um gluggann. Áður hafði
ég grafið snjóhús í skaflinn svo
krakkarnir gætu verið þar í skjóli
meðan ég reyndi að koma heyinu
í hús.“
Birna Mjöll sinnti burðarhjálp í
gegnum talstöð og síma
„Stundum kom það fyrir að ég varð
að segja við gestina að matnum
seinkaði aðeins af því að ég þyrfti
að fara í fæðingarhjálp. Þá komu
gestirnir stundum með mér til að
upplifa það sem fram fór.
Ég man sérstaklega eftir einu
atviki sem sýnir vel hversu fáránlegt
þetta var. Þá var Keran mikið að
keyra á daginn, kom svo heim og
markaði lömbin og setti út féð á
nóttunni. Þá var ég yfirleitt ein
heima með krakkana.
Svo þurfti hann að fara með
skólakrakkana í ferðalag suður til
Reykjavíkur. Við vorum þá með
fé niðri í refahúsinu og strákarnir
koma og kalla á mig að þangað vanti
hjálp. Þetta var á þeim tíma þegar
gsm-farsímarnir voru ekki enn
orðnir algengir og auðvitað ekkert
gsm-samband hér í Breiðavík. Við
vorum hins vegar með labbrabb-
talstöðvar [WalkieTalkie] sem við
notuðum á milli húsa.
Nú ég fer þarna niður eftir og
er ein að bera og það sést í fjórar
framlappir en enga snoppu. Þá voru
góð ráð dýr og ég hafði í raun ekkert
vit á búskap eða burðarhjálp. Ég
þurfti því að fá leiðbeiningar um
hvernig ég ætti að bera mig að.
Þetta fór þannig fram að ég var
með talstöðina og talaði við strákinn
minn sem var uppi í húsi og var í
sambandi við pabba sinn í gegnum
síma, en hann var þá staddur í
Kringlunni í Reykjavík. Hann lýsti
svo fyrir stráknum hvað ætti að gera
næst og strákurinn kallaði það svo
áfram til mín í gegnum talstöðina,“
sagði Birna.
Gestir Kringlunnar hópuðust að
til að hlusta á fæðingarlýsingar
bóndans úr Breiðavík
„Mér er þetta enn í fersku minni,“
sagði Keran.
„Ég var með krakkana í
skólaferðalagi og var staddur með
þá í Kringlunni í Reykjavík. Þar
hallaði ég mér yfir grindverk og
lýsti svo fyrir syninum að fyrst
ætti að gera svona og svo svona.
Það væri ráð að prófa að klípa
í lappirnar og sjá hvaða lappir
hreyfðust saman. Þá ætti að toga
í þær lappir og ýta hinum inn á
meðan. Síðan væri að reyna að finna
hausinn og snoppuna. Þetta gekk og
Birna Mjöll náði báðum lömbunum
út lifandi. Þegar ég leit svo upp
að samtalinu loknu var kominn
hálfhringur af fólki í kringum
mig sem fylgdist með þessum
undarlegu fæðingarlýsingum af
mikilli athygli.“
Hefði aldrei orðið að veruleika ef
þau hefðu vitað hvað beið þeirra
Keran segir að ef þau hefðu vitað
hvað beið þeirra eftir að þau tóku
við Breiðavík og hefðu haft tök á að
skyggnast inn í framtíðina, þá hefðu
þau aldrei farið út í þennan rekstur.
„Allt hefur þetta þó gengið
upp, en með ótrúlegri vinnu og
útsjónarsemi. Hótelreksturinn fór
svo ekkert að ganga af viti fyrr en
við settum upp herbergi með baði.
Við tókum þau í notkun 2004, en
þá keyptum við gistieiningar sem
voru tólf tilbúin herbergi með baði.
Um leið og það var komið í gagnið
fóru að koma hingað annars konar
gestir sem áttu meiri peninga en
gestirnir sem sóst höfðu eftir ódýrri
farfuglaþjónustu. Það varð því allt
annað upplit á fyrirtækinu sem fór
um leið að gefa eitthvað af sér.“
Gæfuspor að hafa hætt
sauðfjárbúskap 2011
„Árið 2011 ákváðum við að hætta
búskapnum og losuðum okkur við
rollurnar. Það var mikið gæfuspor.
Ég var afskaplega heppinn, eins og
oft áður í mínu lífi, að hætta þeim
búskap á hárréttum tíma. Þá var lítið
um notaðar vélar í landinu því þær
höfðu allar verið seldar úr landi í
hruninu. Ég átti þá mjög góðar vélar
og það var slegist um þær og seldust
þær allar á yfirverði. Ærkjötið var
þá í sögulegu hámarki, þannig að
það spilaði allt með okkur. Við
tókum tvö ár í að hætta búskapnum
til að ná sem mestu út úr þessu. Ég
kláraði því að nýta allt heyið og
við komum eins vel út úr þessum
viðskiptum og hugsast gat.
Síðasta vorið báru hjá okkur 470
rollur og ég man að mér fannst bara
ekki neitt að eiga við þann fjölda
miðað við þúsund árið áður. Það
hefur alltaf verið mikil frjósemi
hér í Breiðavík og mun meira um
þrílembur en einlembur, það þakka
ég afar góðri fjörubeit hér.“
Góð fjörubeit létti mjög
á rekstrinum
„Við vorum með mjög góða
fjörubeit, þannig að þegar ég var
með eitt þúsund fjár á fóðrum þurfti
ég ekki nema 700 heyrúllur og það
dugði vel. Vegna fjörubeitarinnar
þurfti ég ekki að taka inn í hús 250
„Ef ég hefði séð hvað beið mín, þá hefði ég aldrei byrjað á þessu,“ segir Keran ST. Ólason, sem sér þó ekki eftir neinu.
Geitasel í Örlygshöfn þar sem Keran og Birna Mjöll hyggjast verja ævikvöldinu.
Keran var staddur í Kringlunni í Reykjavík með krakkana í sveitinni í
skólaferðalagi. Þá barst neyðarkall frá Birnu Mjöll í Breiðuvík um að hann
gæfi henni leiðbeiningar um burðarhjálp í gegnum farsíma.
– Framahld á næstu síðu
B reiðavík er vík á Vestfjörðum og er ein af svonefndum Útvíkum sem liggur milli Kollsvíkur og Látravíkur. Nokkru sunnar er Látrabjarg og þorpið Patreksfjörður er í um 50 km fjarlægð í austurátt. Í Breiðuvík
er nú búskapur og ferðaþjónusta, á sumrin er rekið þar gistiheimili. Allmikill
útvegur var stundaður fyrrum frá Breiðuvík.