Náttúrufræðingurinn - 2020, Blaðsíða 3
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
223
Ártalið 2020 verður lengi í minnum
haft. Árið þegar örsmá kórónuveira
breiddist með ógnarhraða um hnött-
inn, sýkti næstum 90 milljónir manna
og deyddi 1700 þúsund manns. Í tæpt ár
hafa þjóðir heims lagt kapp á að verjast
farsóttinni, finna og framleiða bóluefni,
lækna sjúka – og fást jafnframt við erfið
úrlausnarefni sem fylgja í kjölfarið;
tekjuhrun, atvinnuleysi og langvinn
eftirköst hjá mörgum sem veikjast. Nú,
ótrúlega stuttu síðar, er bólusetning
hafin og við getum glöð kvatt árið 2020
og litið bjartari augum til framtíðar.
SARS-CoV-2-veiran, sú sem veldur
Covid-19, er eins og aðrar kórónuveirur
upprunnin í villtum dýrum, trúlega leð-
urblökum. Það er ekkert nýtt að skæðar
veirur berist úr dýrum í menn. Þekkt
dæmi eru fuglaflensan 2004–2007,
svínaflensan 2009, alnæmi eða HIV/
Aids sem barst frá mannöpum og loks
Sars og Ebola, sem rakin eru til leður-
blaðkna. Veirur munu halda áfram að
stökkbreytast og berast frá dýrum til
manna, en vísindamenn benda á að
tíðni slíkra sýkinga (e. zoonosis) hefur
aukist verulega. Aukna tíðni má rekja
til þess hversu hart við höfum leikið
náttúruna; eytt jarðvegi og búsvæðum
villtra dýrastofna og gerbreytt tegunda-
samsetningu í heilu vistkerfunum.
Baráttan gegn endurteknum heims-
faröldrum felst því ekki í bóluefni einu
saman, heldur þarf mannkyn að taka
upp breytta siði til að forðast tíðari og
skæðari dýrapestir. Við þurfum að lifa
í sátt við náttúruna, snúa við blaði í
neysluvenjum okkar, draga úr röskun
búsvæða og ósjálfbærum orkubúskap,
hindra frekari loftslagsbreytingar og
vinna að viðhaldi líffræðilegrar fjöl-
breytni. Þetta er mikilvægur lærdómur
sem draga má af heimsfaraldrinum.
Víðtækt útgöngubann, ferðatak-
markanir á alþjóðavísu og lokun verk-
smiðja leiddi til skyndilegs falls í losun
gróðurhúsalofttegunda í upphafi
Covid-19-faraldursins. Áhrifin voru
víða áþreifanleg, svo sem í Punjab-hér-
aði á Indlandi þar sem í fyrsta sinn í
30 ár sást til Himalaja-fjallgarðsins, og
í Feneyjum þar sem fiskur synti á ný í
síkjunum. Mengun frá skemmtiferða-
skipum og farþegaflugvélum hvarf eins
og dögg fyrir sólu. Meira að segja hér í
fámenninu á Íslandi hvarf gula meng-
unarrákin úti við sjóndeildarhringinn.
Til lengri tíma litið verða áhrifin
af þessum óvænta samdrætti í losun
því miður ekki mikil. Strax í sumar
reiknuðu sérfræðingar út að miðað við
ólíkar spár um framgang faraldursins
yrði losun á þessu ári 4–7% minni en
á árinu 2019. Slíkur samdráttur, jafn-
vel þótt hann væri árlegur, dugir ekki
til að halda hlýnun jarðar innan við
2°C á þessari öld, sem er markmið Par-
ísarsamningsins. Það sýndi sig líka að
losun jókst hratt þegar lönd opnuðust
á nýjan leik. Og þegar upp er staðið
reynist 2020 verða eitt af fimm heitustu
árum frá því að mælingar hófust.
Hvað getum við þá lært af Covid-19
og nýtt í baráttunni gegn loftslagsvánni?
Við höfum séð að það er hægt að breyta
hegðunarmynstri fjöldans til hagsbóta
fyrir samfélagið í heild með faglegri
upplýsingagjöf í bland við boð og bönn
sem yfirvöld geta gripið til. En til þess
að það beri árangur þarf almenningur
sjálfur að skynja og skilja ávinninginn
af breyttri hegðun og skerðingum og
áhættuna sem fylgir því ef ekkert er
að gert.
Veiran sýndi okkur einnig að bæði
einstaklingar og samfélög geta notið
beins ávinnings af samdrætti í losun
koltvíoxíðs. Í öllum hinum iðnvædda
heimi önduðu menn léttar, loftið var
hreinna, umferðarniðurinn minni,
fuglasöngurinn fegurri og nándin við
náttúruna meiri. Við sáum líka að
árangurinn byggist á vísindalegum
gögnum og rannsóknum og á alþjóðlegri
samvinnu og samtakamætti. Sú reynsla
gagnast vonandi í baráttunni gegn ham-
farahlýnun þar sem allir þurfa að taka til
hendi og breyta hegðunarmynstri sínu.
2020
Náttúrufræðingurinn 90 (4–5) bls. 223–224, 2020