Náttúrufræðingurinn - 2020, Blaðsíða 26
Náttúrufræðingurinn
246
JARÐLAGAKÖNNUN
Jarðvegsrannsóknir voru gerðar
á Mykitakshlaupinu í þeim tilgangi
að kanna aldur þess með athugun
gjóskulaga. Einnig var leitað eftir
ummerkjum um skriðuföll og grjót-
hrun ofan á hlaupurðinni í því skyni
að meta hrunhættuna. Grafnar voru
þrjár könnunargryfjur, VS-01,VS-02
og VS-03. Gryfjurnar eru númer-
aðar í þeirri röð sem þær voru grafnar
og mældar. Staðir þeirra eru sýndir
á 5. mynd og 1. töflu. Teikningar af
sniðunum og jarðlagatengingar milli
þeirra má sjá á 6. mynd.
Grafið var niður í gegnum jarðveg-
inn á hverjum stað og niður í berg-
hlaupsurðina sem undir er. Gryfjurnar
voru á bilinu 90 til 150 cm djúpar.
Aðstæður voru ágætar og því gafst góður
tími til nákvæmra mælinga og yfirlegu.
Tiltölulega hreinn lífrænn jarðvegur var
efst og neðst í sniðunum en áberandi
sandlag kom fram í þeim öllum. Þetta
virðist vera foksandur. Víða á Heimaey
sjást merki um jarðvegseyðingu og upp-
blástur frá fyrri öldum.24
Fyrir utan Eldfellsgjóskuna frá 1973
sáust þunn sendin lög neðst í sniðunum
og voru þau talin gjóskulög. Tekin voru
fimm sýni af hinum meintu gjósku-
lögum, og Magnús Á. Sigurgeirsson
gjóskulagasérfræðingur síðan fenginn
til að skoða þau í smásjá og greina.
GJÓSKULAGAGREINING
Hér fer á eftir lýsing og grein-
ing Magnúsar Á. Sigurgeirssonar25 á
gjóskulagasýnunum frá Herjólfsdal.
Smásjá (víðsjá) var notuð við skoðunina
en efnagreiningar voru ekki gerðar.
Gryfja VS-01
Sýni úr efra lagi (meintu gjóskulagi á
62 cm dýpi): Blandað og fremur gróft
efni, korn eru núin og flest talsvert
oxuð. Sýnið samanstendur aðallega
af glerkornum, gjósku og bergbrotum
(líklega mest gjalli). Illa aðgreint. Í
fínasta hluta sýnisins er nokkuð um
dökkbrúnt gler sem gæti tilheyrt
gjóskulagi en ekki er hægt að fullyrða
að svo sé. Flest korn eru mjög oxuð
og ósjáleg. Líklega er hér um fokefni
að ræða.
Sýni úr neðra gjóskulagi, á 66 cm
dýpi: Dökkmóbrúnt glerkurl. Um er
að ræða fínkorna gjóskulag, tiltölu-
lega hreint, og eru kornin lítið sem
ekkert núin. Gjóskan er illa aðgreind.
Glerið er þétt og lítið blöðrótt. Mjög
lítið er um kristalla, <1%. Gjallkorn
er um 20–30% af gjóskunni. Svartar
innlyksur sjást í glerinu (örkristallar).
Vafalaust er hér um Kötlugjósku
að ræða.
Gryfja VS-02
Sýni úr efra gjóskulagi á 120 cm
dýpi: Blandað og grófsendið efni,
greinilega nokkuð tilfokið. Í fínasta
hluta sýnisins er talsvert af fínkorna
móbrúnu glerkurli og gjalli (<10%).
Gryfja X (m) Y (m) Z (m y.s.) Dýpi (m)
VS-01 435272 326969 9,7 0,92
VS-02 435313 326977 9,9 1,47
VS-03 435356 326962 10 1,23
1. tafla. GPS-hnit jarðvegsgryfjanna við tjaldsvæðið í Herjólfsdal (sbr. 5. mynd, ISN93-hnitakerfi).
– GPS-coordinates for test pits in Herjólfsdalur Camping Site.
5. mynd. Mynd frá Loftmyndum ehf. sýnir stað gryfjanna sem teknar voru við tjaldsvæðið í Herjólfsdal. Hnit eru í 1.
töflu. – Location of test pits on the rock slide inside the Herjólfsdalur Camping Site. GPS-coordinates are in table 1.
Photo: Loftmyndir.
Ritrýnd grein / Peer reviewed