Náttúrufræðingurinn - 2020, Blaðsíða 40
Náttúrufræðingurinn
260
INNGANGUR
Fyrir nokkrum árum tók ég eftir
því að starar, Sturnus vulgaris vulgaris,
flögruðu oft í kringum hesta, Equus
caballus, á Bæ í Kjós þar sem ég hef
beitarland fyrir hestana mína. Þetta var
áberandi seinni hluta sumars og fram
eftir september og virtist aukast með
hverju árinu. Ég sá að þeir komu fljúg-
andi í litlum sem stórum hópum, skelltu
sér niður hjá hestunum og fóru að éta
eitthvað, og oft settust þeir á bakið á
hestunum. Mín fyrsta hugsun var að
leita svara við því hvers vegna fuglarnir
settust á hestana og athuga hvort hest-
arnir sýndu einhver viðbrögð við þeim.
Fuglafræðingar sem ég talaði við
könnuðust við þessa hegðun og líka
sumir hestamenn. Ég fór á netið til að
athuga málið, og fann myndir af störum
á hestbaki, og voru flestar þeirra frá
Íslandi (1. mynd).
Ég fann þó engar vísindagreinar sem
fjölluðu beint um þetta samband stara
og hesta, heldur einungis um samband
stara og nautgripa þar sem sagt var að
fuglarnir ætu smádýr sem fældust við
beit grasbítanna.1 Ekkert var fjallað
um viðbrögð nautgripanna við nær-
veru staranna. Myndir af störum á baki
hjartardýra fann ég en ekki nákvæmar
lýsingar á hegðun þeirra. Gefið var í
skyn að fuglarnir væru að éta óværu af
klaufdýrunum eins og algengt er um
uxaspætur (Buphagus erythrorhynchus)
á baki stóru afrísku grasbítanna. Uxa-
spæturnar eru náskyldar störum. Sumir
fuglar fylgja grasbítunum eftir á jörðu
niðri og grípa skordýr sem fljúga upp
þegar þau fælast. Margir kannast við
kúhegra (Bubulcus ibis) sem fylgja eftir
bufflum og fleiri grasbítum. Svipuð
tengsl stara við nautgripi, Bos taurus,
hafa lengi verið þekkt.
Samkvæmt rannsókn í Svíþjóð,1 sem
byggð er á gögnum sem var safnað í rúm
20 ár, éta stararnir skordýr og önnur smá-
dýr, oft nálægt höfði og fótum nautgrip-
anna. Þeir ná líklega meiri fæðu og spara
orku við að pikka mjög nálægt höfði og
fótum grasbítanna, þar sem rannsóknir
sem getið er um í greininni sýna að þeir
hreyfa sig minna þar. Höfundur dró þá
ályktun að samneytið hafi aðlögunargildi
fyrir starana en ekkert er sagt um hvort
viðvera fuglanna hafi hugsanleg áhrif á
hæfni nautgripanna (hvort þeir beri ein-
hvern kostnað eða hagnist).
Í Wikipedíugrein um stara2 kemur
fram að þeir séu einkum í fæðuleit á
mikið beittu eða miðlungsbeittu landi
hjá grasbítum eða sitji á baki þeirra þar
sem þeir nái sér í sníkjudýr.
Eftir að hafa spurst fyrir um þetta
á förnum vegi grunar mig að margir
haldi að fuglarnir éti lýs og húðflögur af
hestunum. Ef það er tilfellið þá er þetta
dæmi um samskipti milli tegunda þar
sem báðir hagnast og kallast samhjálp í
líffræðinni.3 Ef aðeins annar græðir en
hinn hvorki tapar né hagnast kallast slík
samskipti gistilífi.
Mín tilgáta er að í samskiptum stara
og hesta sé um að ræða gistilífi þar sem
annar hagnast en samneytið skiptir hinn
engu. Ef svo er þurfa samskiptin að hafa
þessi einkenni:
a) Fuglarnir notfæra sér hestbakið til
að fá betri yfirsýn yfir hvar fæðu er
að finna og skynja betur hvort hætta
sé á ferð. Þeir fylgjast með hinum
fuglunum og skella sér niður á jörðina
á vænlegum stöðum. Einnig sjá þeir
vel hvenær hinir fljúga upp og geta þá
fylgt hópnum.4
b) Stararnir éta ekki eða mjög sjaldan
óværu eða húðflögur af hestunum.
c) Hestarnir skipta sér ekkert af fugl-
unum (eyða ekki orku í það).
d) Fuglarnir fá yl frá hestunum og líður
vel sitjandi á baki hestsins.
Til að nálgast vissu um þessi skilyrði
og kynnast betur þessum áhugaverða
fugli las ég mér til um starana og ákvað að
gera svolitla rannsókn á hegðun þeirra.
2. mynd. Stari. – Common starling. Ljósm./Photo: Daníel Bergmann.