Strandapósturinn


Strandapósturinn - 01.06.1978, Side 41

Strandapósturinn - 01.06.1978, Side 41
kallar og fer að leggjast á litlar herðar með þunga sínum og ábyrgð. Ég var snemma mjög lagin við hesta og var því ekki gömul þegar farið var að láta mig sækja þá þegar á þeim þurfti að halda, svo þurfti að reka úr túnunum, færa fullorðna fólkinu mat og kaffi á engjar ef svo stóð á, hjálpa til við ávinnslu á túnum, einkum að bera á einn stað hrúgur þær, sem kölluðust afrakstur, svo var það mótekjan. I Kjós var alltaf tekinn upp mikill mór, því það var aðal eldsneytisforði heimilisins, það var mikil bakraun að grinda mó, en krakkar voru ekki færir um annað, sem því verki við kom. Karlmenn urðu að stinga hann upp og bera hann út, þótt einstaka konur gjörðu það líka, samt minnir mig að á seinni árum væri mórinn mikið keyrður út í hjólbörum. Meðan allt var unnið með handafli mátti segja að verkefnin tækju aldrei enda og er þar ólíku saman að jafna eða nú til dags, sem svo til öll útiverk eru unnin með vélum. Svo var það slátturinn, þá var allt slegið með orfi og ljá. Þar setti Stína mín kórónuna ofan á allan annan dugnað sinn, þar mátti hvaða karlmaður sem var passa sig á að hún skyti honum ekki aftur fyrir sig þótt smávaxin væri. Henni flugbeit og hún hafði ein- dæma fallegt sláttulag, svo vandvirk var hún að slá þýfi að þar var tilgangslaust fyrir aðra að ætla sér að komast til jafns við hana, var ég mjög hreykin af Stínu minni er ég horfði á hana við slátt, en það var ég nú reyndar við ýms önnur tækifæri. Það var mikið sem Stína mín lagði að mörkum til Kjósarheimilisins og ekki var kaupinu fyrir að fara, fyrir utan fæði og húsaskjól og sinn vissa sess á heimilinu. Ég held ég fari rétt með það, að hún hafi haft 60 krónur á ári, þó virtist hún alltaf sátt við lífið og tilveruna. Fólk eins og Stína mín og hennar líkar voru á margan hátt máttarstólpar heimilanna. Þetta fólk er nú löngu horfið yfir móðuna miklu og kemur aldrei aftur, en það má ekki falla í algjöra gleymsku að svona fólk var til, sjálfsagt víðar en á einum bæ. Hver mundi svo sem nú til dags fara að þræla þannig fyrir aðra fyrir sama og ekkert kaup, auðvitað hafa tímarnir breytst stórkostlega og því erfitt að gjöra samanburð á mörgu. 39

x

Strandapósturinn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Strandapósturinn
https://timarit.is/publication/1641

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.