Strandapósturinn - 01.06.1993, Page 78
rétt inn fyrir lendinguna, þá var rokið svo mikið að það skóf yfir
bátinn eins og þetta væri á sem steyptist yfir hann og allt þangað til
við komum inn undir stekkinn. Þá fór að draga úr bárunni og var
orðið lygnt þegar kom inn undir Malarhornið. Pabbi beið undir
Malarhorninu því hann fylgdist með okkur þegar hann sá trilluna
koma utan að. Þá vorum við búnir að vera 36 klukkutíma í túrn-
um.
Þá var nú ekki um séreldhús og þess háttar að ræða á þessum
trillum eins og á nútímaskipunum. Maður gat ekki hlaupið til að
fá sér matarbita eða aðra hressingu. Matarbiti var bara hafður
með, en maður var orðinn lystugur þegar kom að landi. I þessum
róðri höfðu átta tímar farið í það eitt að ná landi. Við komum um
miðja nótt í land og til þess að pabbi þyrfti ekki að leggja það á sig
að fara út eftir að Bjarnarnesi um nóttina tók ég að mér að sofa á
gólfinu, því ég gat ómögulega fengið af mér að láta pabba gera
það. Rúmið var nefnilega bara eitt og þar sváfum við bræðurnir
venjulega. Ekki hafði ég neitt undir mér nema eitthvað undir
höfðinu. En þegar ég reis upp um morguninn var ég býsna stirður
og lerkaður.
Ekki minnist ég þess að nein tilraun hafi verið gerð til að biðja
skip að svipast um eftir okkur og þá var ekki um neinar reglu-
bundnar slysavarnartilkynningar að ræða eins og nú er orðið og
urn flugvélar var víst ekki heldur að ræða í þá daga. Það varð hver
að bera ábyrgð á sjálfum sér, og færi betur ef það væri enn í
hávegum haft. En lengi velti ég því fyrir mér hvernig það mátti
vera að báturinn skyldi þola þetta. Þetta voðalega högg. Og eftir
að ég kynntist bátasmiðum betur í Hafnarfirði, afbragðs báta-
smiðum, var komist að þeirri niðurstöðu að báturinn hafi hvorki
verið of nýr né of gamall. Þess vegna hafi hann þolað betur
höggið. En eftir þessa útreið var honum mjög lítið róið eða eina
viku eftir þetta og svo var eitthvað skroppið á færi áður en hann
var settur upp. Það varð að sauma hann allan upp, svo saumbogn-
aður var hann. Eftir það hætti hann að leka.
76