Strandapósturinn - 02.01.2008, Síða 95
95
kom þó, að fleiri sáu þessa fylgju Guðmundar á sama hátt og ég.
Sagt var, að Móri fylgi honum. Taldi ég þessa fylgju Guðmundar
vera Móra. Aldrei vissi ég til að hann gerði neinum mein í þessum
ferðum sínum.
Tómas víðförli og Guðbrandur
Tómas, sem kallaður var víðförli, var hálfgerður flakkari. Flækt-
ist hann hér um og var oft á ferð. Drykkfelldur var hann í meira
lagi og drakk sig dauðadrukkinn ef hann átti þess kost. Tómas var
talinn vel greindur og hagmæltur. Síðasta ferð hans var sú að
hann kom norðan úr sveit, frá Kjós eða Reykjarfirði. Þá bjó í Byrg-
isvík Guðbrandur Guðbrandsson eldri, hreppstjóri, sem síðar bjó
í Veiðileysu og dó þar. Tómas kom við í Veiðileysu (veit ekki hvort
hann gisti þar), var hann þá alldrukkinn og með einhver vínföng
í nesti. Frá Veiðileysu fylgdu þær honum Kristín Magnúsdóttir,
kona Guðbrands og Efemía Bóasdóttir, sem var vinnukona hjá
þeim hjónum, inn á Skeiðið í Kolbeinsvík að stekk sem þar er
niðri á bökkunum. Treystu þær því að hann kæmist fylgdarlaust
þaðan að Kolbeinsvík. Segir nú ekki af ferðum hans að sinni.
Nokkrum dögum seinna fór Jón Sigurðsson, sem þá bjó í Kol-
beinsvík, norður í Reykjarfjörð. Þegar hann kemur móts við stekk-
inn koma yfir hann einhver einkennilegheit sem hann skildi ekki
af hverju stöfuðu. Ætlun hans var að fara hjá Byrgisvík, sem er
dálítið úr leið. Vegna þessara einkennilegheita tók hann það ráð
að ganga heim að Byrgisvík. Var þá spurt tíðinda og m.a. eftir því
hvernig Tómasi hefði reitt af. Kom það þá upp að Tómas hafði
aldrei að Kolbeinsvík komið. Sneri Jón þá aftur og einhver, lík-
lega Guðbrandur, með honum. Finna þeir þá Tómas örendan í
stekkjartóftinni og flöskuna tóma. Hafði hann þá sest að drykk
sínum þarna í tóftinni þegar þær skildu við hann, sofnað þar út af
og ekki vaknað aftur. Þetta var um vetur. Var lík Tómasar flutt til
bæjar og búið til greftrunar og er engin saga af því. Eftir þetta
þóttust menn taka eftir því að einhver slæðingur eftir Tómas væri
í fylgd með Guðbrandi og urðu margir þess varir.
Á þessum árum bjó í Veiðileysu Sína Jóhannsdóttir Söebeck,
móðir Ingimundar Grímssonar. Hún átti rauða kú, kostagrip og
gæflynda. Sína veitti því eftirtekt að venjulega áður en Guðbrand-