Strandapósturinn - 02.01.2008, Blaðsíða 114
114
Fyrst yfir ána og framhjá Heiðarbæ,
stuttur er þar spölurinn niður að söltum sæ.
Stuttur er þar spölurinn og stutt að Húsavík.
Húsavíkurkleifin, hún er engri lík.
Húsavíkurkleifin með surtarbrandinn sinn,
fleira mætti finna þar við klettahamarinn.
Fleira mætti finna þar, sagði mamma mér;
ef við gætum stansað allra snöggvast hér.
Ef við gætum stansað, en áfram halda varð,
inn fyrir Sælukletta og inn í Strákaskarð.
Inn fyrir Sælukletta, áðum við þar,
hver einn hestur feginn hvíldinni var.
Hver hestur feginn hvíldinni, fleiri voru með:
Nonni, Dísa og Kidda, glatt var þeirra geð.
Nonni, Dísa og Kidda, næst er Tungugröf,
þeystum við þar framhjá, þar var engin töf.
Þeystum við framhjá, en þar sáum við mann,
hann Tryggva litla frænda okkar, við lækinn sat hann.
Hann Tryggva litla frænda okkar, áfram héldum við
alla leið að Hrófá, en engin var þar bið.
Alla leið að Hrófá og yfir brúna þá,
næsti bær á leiðinni, það er Víðidalsá.
Næsti bær á leiðinni, en nú fór þar ver,
Stórgrýtisbugurinn er enn í minni mér.
Stórgrýtisbugurinn, enginn fer hann nú,
von bráðar vorum við á Víðidalsárbrú.
Von bráðar fórum við framhjá Skeljavík.
Þá fór nú að færast nær hin fyrirheitna Vík.
Þá fór nú að færast nær, en nokkuð langt úr leið,
Kálfanesið birtist er komum við á Skeið.
Kálfanesið birtist, en hvarf þó eins og hitt.
En allt í einu blasti við ævintýrið mitt.
En allt í einu blasti við, allt sem þarna var,
húsin, bátarnir og báðar bryggjurnar.
Húsin, bátarnir og hesthúsið svo flott,
þar fórum við af baki og það var nú gott.
Þar fórum við af baki en lögðum okkar leið
upp í Sjúkrahúsið, för okkar var greið.