Strandapósturinn - 02.01.2008, Side 115
115
Upp í Sjúkrahúsið, ljósa mín var þar,
mamma hennar Kiddu sem með okkur var.
Mamma hennar Kiddu, hún hjúkraði hér.
Vel fagnaði hún öllum, ekki síst mér.
Vel fagnaði hún öllum, fórum við þar inn,
en næst var þá að sjá hann Sigurjón frænda minn.
En næst var þá að komast kaupfélagið í,
bókabúðin var þar, við byrjuðum á því.
Bókabúðin var þar og óðara við
komnar vorum báðar í kaupfélagið.
Komnar vorum báðar í barnabókafans,
þarna inni varð nú þónokkur stans.
Þarna inni meðan leitað var lágt og hátt
fór ég nú að skoða bækurnar brátt.
Fór ég nú að skoða’ og lesa Grimmsævintýr.
Þau voru held ég þó nokkuð dýr.
Þau voru eiguleg, það leyndi ekki sér.
Loks var Dísa fundin, það líkaði mér,
loks var Dísa fundin og ég laus við alla sút.
mamma fór að versla, meira að taka út.
Mamma fór að versla, en ég hélt hvergi smeyk
út á götu, krakkarnir þar léku boltaleik.
Úti á götu voru þau en uppi á svölunum
Ása og Dúna voru að lesa í bókunum.
Ása og Dúna voru báðar eldri en ég.
Nú kom mamma úr búðinni, niður á veg,
nú kom mamma til mín og tók mig sér við hlið,
inn í hús til Önnu ætluðum við.
Inn í hús til Önnu, út kom hún þar,
Kyssti hún okkur á báðar kinnarnar
kyssti okkur báðar, blíðleg og góð.
Vinkonur bestu voru þessi fljóð,
vinkonur og skólasystur, vissi ég það.
Inn í stofu bauð hún okkur, nema hvað.
Inni í stofugluggum voru blómin rauð og blá,
hissa og sem dáleidd horfði ég þau á.
Hissa og forvitin hef ég verið þar,
fagnandi’ Anna góðgjörðir fyrir okkur bar.