Strandapósturinn - 02.01.2008, Blaðsíða 73
73
Faðir þinn var nýlega látinn, þegar þetta var. Hvað sagði móðir
þín um þetta? „Ég skrifaði henni norður. Hún tók þessu með still-
ingu.“
Að fórna kommúnista í skólanum öðrum til varnaðar, þótti
góður leikur á þessum tíma? Umhyggja yfirvalda náði ekki til
þeirra? „Nei, ég held varla, að það hafi verið ástæðan. En það lá
við, að Lárus, Ingi og Hermann væru reknir skömmu seinna, eftir
fund út af þessum brottrekstri á mér.“
Gátu hinir kennararnir ekki tekið upp málið? „Ég held ekki,
Pálma skorti skapstillingu, hann var ungur þarna. Á margan hátt
var hann hæfileikaríkur maður, skemmtilegur. Ég hef það líkleg-
ast eftir Inga H. Bjarnasyni, að faðir hans, Þorleifur, hafi sagt um
mitt mál, að oft mætti satt kyrrt liggja.“
Engir af kennurunum reyndi að sætta eins og í fyrri deilunni,
1931? „Nei, nema Pálmi kallaði á mig og fór fram á, að ég skrifaði
grein í Morgunblaðið og bæðist afsökunar og tæki orð mín aftur.
Þá myndi þetta lagast, og ég gæti tekið prófið. Ég neitaði þessum
úrslitakostum, ég mætti ekki skrifa um þetta utan veggja skólans,
og auk þess vildi ég ekki taka orðin aftur. Hermann kom með mér
til Pálma, og einhver annar var þarna, hvort hann kallaði á þá
líka, man ég nú ekki. Ég held þó, að hann hafi gert það og til þess
að fá þá til að sansa mig, en þeir gerðu ekkert nema hlusta.“ Sam-
þykktin, sem kennarafundurinn gerði, að tillögu Sigurðar Thor-
oddsen, hljóðar svo:[11]
„Kennarafundur 7. mars 1933
Fundurinn skorar á rektor að vísa þegar í stað úr skóla Eymundi Magn-
ússyni í 6. bekk A fyrir ósæmileg ummæli um rektor skólans í síðasta
tölublaði Skólablaðsins í mars 1934, og fái hann ekki leyfi til að ganga
undir próf á þessu ári. Samþykt með 6 atk. gegn 3.
Pálmi Hannesson
Þ. H. Bjarnason Sig. Thoroddsen Ólafur Daníelsson
Jón Ófeigsson Páll Sveinsson Jakob Jóh. Smári
Kr. Ármannsson Barði Guðmundsson Einar Magnússon“
(Í efstu línu er villa, þar á að standa 1934 en ekki 1933).