Strandapósturinn - 02.01.2008, Side 41
41
heimsfriðinn, var bylting og kollvörpun auðvaldsskipulagsins, sem
stríð nútímans væru afleiðing af. Þar var tíðast vitnað til heimsstyrj-
aldarinnar miklu, 1914–1918, þegar verkalýðnum var slátrað svo
tugmilljónum skipti.1)
Rauði herinn var ágætur skóli til uppeldis þjóðfélagsþegn-
unum. Ofurlítil laun fengu hermennirnir greidd mánaðarlega.
En þeir höfðu lítið við peninga að gera. Húsnæði, matur, föt,
læknishjálp, tóbak, skemmtanir var allt ókeypis, og fjölskyldur
þeirra fengu fé frá hernum, ef þær þurftu þess með. Strangur agi
ríkti, og öllum skipunum var tafarlaust hlýtt. En aginn var ekki
byggður á þvingunum og kúgun eins og í auðvaldsherjum, sem
voru hluti af ríkisvaldi borgaranna og beindist gegn verkalýðnum,
heldur var hann grundvallaður á félagslegri samábyrgðartilfinn-
ingu stéttarbræðra, sem hafa sameiginlega hagsmuni. Allir gætu
gagnrýnt það, sem þeim þótti ábótavant á veggblöðum herdeild-
arinnar og á fundum. Foringjarnir tóku fullt tillit til skynsamlegra
tillagna og gagnrýni.
Hvað bar verkamönnum og ungkommúnistum á Íslandi að
gera, þegar auðvaldsríkin réðust á Sovétríkin, því það myndu þau
gera? Í þeim komandi hildarleik yrði Ísland og íslenzk framleiðsla
notuð af stórveldunum í þeirra eigin þágu. Hlutverk íslenzks
verkalýðs yrði að hindra með byltingarsinnaðri baráttu, að íslenzk-
um borgurum tækist að birgja árásaraðilana upp af mat og elds-
neyti frá Íslandi, – skrifaði greinarhöfundurinn að lokum.[5]
Ekki er vitað, hvar Hallgrímur var búsettur fyrst eftir heimkom-
una frá Sovétríkjunum. Hans er ekki getið í manntali Reykjavíkur
né Hafnarfjarðar árið 1933. Skráði hann sig hvergi? Hann var
skráður til heimilis á Ljósvallagötu 10, þegar hann sótti um vega-
bréf til utanlandsfarar í júlí 1931. Í janúar 1933 ritaði Hallgrímur
stutta grein í Rauða fánann um atvinnuástandið í Hafnarfirði.[6]
Verkamannafélaginu Hlíf og Verkakvennafélaginu Framtíðinni í
1) Sovézka-Karelia liggur að landamærum Finnlands og var á þessum tíma stjórnað af
landflótta Finnum, þótt Finnar væru aðeins smábrot af fólksfjöldanum í lýðveldinu.
Forseti lýðveldisins hafði frá 1926 verið Edvard Gylling, og yfirmaður hersins var Eiolf
Igneus-Mattson. Báðir höfðu þeir flúið Finnland eftir borgarastyrjöldina 1918 og sezt
að í Sovétríkjunum. Þar höfðu þeir ásamt öðrum landflótta Finnum haft uppi áætlanir
um að stórefla finnsk áhrif í Sovézku-Kareliu svo sem með innflutningi Finna frá
Norður-Ameríku. Að þessu er ekki vikið í greininni, sjónarmið greinarhöfundar er
þröngt, hann lýsir því, sem hann sá.[5]