Strandapósturinn - 01.06.2012, Page 36
36
8.
Árið 1944 mun Bjarni Bjarnason á Gautshamri hafa flutt hús
sitt frá Hamri út að Drangsnesi, en ekki var mér kunnugt um
hvort því var fleytt á tunnum eða rifið. En húsið var flutt á
sliskjum niður að sjó á Gautshamri og síðan fleytt á tunnum út
að Drangsnesi, sagði Þorvaldur Loftsson mér þann 15. júlí 2009.
9.
Og kemur þá að því sem stundum gerist, að allt ætlar vitlaust
að verða í húsafleytingum. Dalurinn er fluttur inn að Hólmavík
sjóleiðis aftan í bát, með aðstoð Árna Andréssonar og verður
að Kópnesbraut 12. Og um svipað leyti flytur Árni einnig sitt
eigið hús frá Gautshamri á sama hátt og verður það þar eftir
Hafnarbraut 7 á Hólmavík, Grímeyjarhús.10 Vantar nú ekkert á
það annað en vindmylluna.
Má með sanni segja að líklega hefur Árni Andrésson verið
einna afkastamestur húsafleytingamaður í Strandasýslu og trúlega
á öllu Íslandi, því ekki er mér kunnugt um fjölbreyttari fleytingar
annars staðar. Þó hefi ég heyrt getið að nokkru um fáein máttvana
tilvik á Skagafirði í nánd við Hofsós og Sauðárkrók, sem varla
tekur að nefna.
10.
Og til að ljúka þessu umræðuefni er rétt að minnast á eitt hús
enn, sem að vísu var rifið og efnið notað annars staðar. Það er
Hellubúðin. Hún stóð fyrir innan Hamarinn á Drangsnesi nálægt
því sem síðar var hús Jóhanns Guðmundssonar og Indíönu. Þetta
hús keypti Sófus Magnússon af Ara Gísla Magnússyni 1. mars 1926
á kr. 1600,-. Voru skilmálar nokkuð harðir, dráttarvextir 15%, ef
ekki væri staðið í skilum, en Sófus hafði greitt allt upp 20. sept.
1930, þrátt fyrir kreppuna. Er til skjal upp á þetta. Aðalefnið í
nýja byggingu á Forvaðanum fékk hann í Kolbeinsvík, en reif
Hellubúðina og notaði efnið einnig í nýja húsið.11
10 Hólmavíkurbók, bls. 80 og bls. 166.
11 Ósk Sófusdóttir, Lúðvík Björnsson, ljósrit af kaupsamningi dags. 1. mars 1926.