Hugur - 01.01.2019, Qupperneq 97
Að læra að vera frjáls 97
af Englendingnum R.S. Peters sem átti manna mestan þátt í því að hefja heim-
spekilega umfjöllun um uppeldi og menntun til vegs og virðingar á seinni hluta
síðustu aldar.21 Ráðgátan er hvernig það má vera að menn öðlist sjálfstjórn með
því að aðrir stjórni þeim. Hún er, eins og Graham Haydon22 hefur gert grein fyrir,
ekki eiginleg mótsögn þó Peters hafi kallað hana „paradox“, kannski vegna þess
að hún virðist mótsagnakennd í augum þeirra sem halda að sjálfstjórn sé ekkert
annað en að geta gert það sem maður sjálfur vill.23
Skynsamleg sjálfstjórn – 2. útgáfa Ritgerðarinnar
Í kaflanum um sjálfstjórn í annarri útgáfu Ritgerðarinnar greinir Locke milli
frelsis af því tagi sem maður hefur þegar gerðir hans ráðast af hans eigin vilja
og annarri fullkomnun (e. a second perfection) sem felst í því að viljinn stjórnist af
skynsamlegri hugsun. Í grein númer átta, sem er framarlega í kaflanum, skilgrein-
ir hann frelsi og segir að maður sé frjáls „að svo miklu leyti sem hann hefur mátt
til að hugsa eða hugsa ekki og hreyfa sig eða hreyfa sig ekki, eftir því hvað hans
eigin hugur tekur fram yfir annað“. Seinna í sömu grein bætir Locke við „að hug-
myndin um frelsi sé hugmynd um mátt sem gerandi hefur til að framkvæma, eða
láta hjá líða að framkvæma, eftir því hvað hugur hans sjálfs hugsar eða ákveður“.24
Í næstu greinum á eftir endurtekur Locke þessa skilgreiningu, skýrir hana og
rökstyður. Þeirri umfjöllun lýkur, í 21. grein, á niðurstöðu sem er á þá leið að ekki
sé hægt að hugsa sér meira frelsi en það að geta gert það sem maður sjálfur vill.25
Í næstu grein þar á eftir, númer 22, spyr Locke hvort frelsi í þessum skilningi dugi
til þess að gera mann að sönnu frjálsan „ef hann hefur ekki sama frelsi til að vilja
og hann hefur til að gera það sem hann vill“.26
Í framhaldi af þessari spurningu veltir Locke fyrir sér hugmyndinni um að
maður hafi frjálsan vilja og geti ráðið yfir vilja sínum. Hann bendir á tvær ástæður
til að vefengja að þessi hugmynd sé að öllu leyti skynsamleg. Í fyrsta lagi bendir
hann á að bæði vilji og frelsi séu hæfileikar sem fólk hefur, svo þegar spurt er hvort
viljinn hafi frelsi sé í raun verið að spyrja hvort einn hæfileiki hafi annan hæfileika,
eins og hæfileikar manns væru sjálfstæðir gerendur. Í öðru lagi bendir Locke á að
ef einstök viljaákvörðun er ekki frjáls nema maður ákveði fyrst af frjálsum vilja að
taka einmitt þessa ákvörðun, þá feli hugmyndin um frjálsa ákvörðun í sér vítarunu
– fyrir seinni ákvörðunina þarf hina þriðju þar sem maður ákveður að ákvarða vilja
sinn með þessum hætti og svo framvegis í það óendanlega eða „in infinitum“ eins
og Locke orðar það með einni af fremur fáum latínuslettum í Ritgerðinni.27 Af
þessu ályktar hann að hugmyndin um frjálsan vilja sé mótsagnakennd, svo þótt
21 Peters 1974.
22 Haydon 2009.
23 Greiningu á skynsamlegri sjálfstjórn sem safni hæfileika af fleiri en einni gerð má finna í grein
eftir mig sem birtist í Hug 2015.
24 Locke 1959: II:xxi:§8.
25 Locke 1959: II:xxi:§21.
26 Locke 1959: II:xxi:§21.
27 Locke 1959: II:xxi:§23.
Hugur 2019-Overrides.indd 97 21-Oct-19 10:47:07