Hugur - 01.01.2019, Page 104
104 Atli Harðarson
leið og þau ná valdi á tungumálinu og skjátlist mér ekki, líkar þeim vel að
komið sé fram við þau sem skynsemisverur, og það fyrr en haldið er. Rétt
er að láta sér annt um slíkt stolt hjá þeim …53
Námskráin sem Locke mælti með átti einkum að stuðla að góðu siðferði. En
hann leit svo á að siðferðilegt uppeldi þyrfti á því að halda að komið væri fram
við börn sem skynsemisverur og stakk upp á að það yrði gert með því að kenna
námsgreinar þar sem tækifæri gæfust til að rökræða við þau. Svo virðist raunar
sem stór hluti af námskránni sem Locke lýsti ætti að þjóna tvenns konar tilgangi
í senn: Annars vegar að venja börn á að fresta því að láta undan löngunum og ýta
undir að slík frestun verði vani hjá þeim með því að kenna þeim að láta sér annt
um heiður sinn; hins vegar að færa þeim þekkingu og þjálfa þau í skynsamlegri
hugsun svo þau komist að réttum niðurstöðum um hvað er í raun til sóma og hvað
til skammar.
Eins og nefnt hefur verið minnir sumt af því sem Locke segir um forsendur
siðferðis og sjálfstjórnar á siðfræði Aristótelesar sem fjallaði um nauðsyn þess að
innræta ungu fólki góðar venjur í byrjun annarrar bókar í Siðfræði Níkomakkos-
ar.54 Skrif Lockes um þetta efni eru líka undanfari hugmynda og kenninga innan
menntaheimspeki sem fram hafa komið á seinni tímum, meðal annars hjá John
Dewey.
Dewey lagði, með svipuðum hætti og Locke, áherslu á menntun til sjálfstjórnar
og sú áhersla birtist víða í skrifum hans55, til dæmis í Experience and Education frá
1938. Í íslenskri þýðingu Gunnars Ragnarssonar heitir sú bók Reynsla og menntun.
Þótt Dewey nefni Locke ekki á nafn minnir það sem hann segir um menntun
og sjálfstjórn í þeirri bók mjög á þær kenningar sem hér hafa verið reifaðar og
Locke skýrði og rökstuddi í miklu meiri smáatriðum. Dewey segir til dæmis að
sjálfstjórn sé nátengd því að staldra við til að hugsa og bætir við:
Hið háleita markmið skólastarfs er að skapa hæfni til sjálfstjórnar. En
það eitt að fjarlægja ytra taumhald er engin trygging fyrir því að það
markmið náist … Það kann að vera tap frekar en ávinningur að losna
undan stjórn annarrar manneskju til þess eins að komast að raun um að
hegðun manns ræðst af dyntum og duttlungum augnabliksins, þ.e. hún
er ofurseld hvötum og hneigðum sem dómgreind og skynsemi hafa ekki
átt neinn þátt í að móta. Þegar hegðun einstaklingsins er stjórnað með
þessum hætti lifir hann aðeins í ímynduðu frelsi. Í raun og veru er honum
stjórnað af öflum sem hann hefur alls ekki á valdi sínu.56
Eins og nefnt var í inngangi þessarar greinar tengist umfjöllun Lockes um frelsi
og sjálfstjórn líka skrifum R.S. Peters, helsta menntaheimspekings Breta á seinni
hluta síðustu aldar, um það sem hann kallaði þverstæðu siðferðilegs uppeldis.
53 Locke 1989: §81.
54 Aristóteles 1995: 1103b–1104b.
55 Atli Harðarson 2016.
56 Dewey 2000: 74–75.
Hugur 2019-Overrides.indd 104 21-Oct-19 10:47:07