Hugur - 01.01.2019, Qupperneq 113
Við flóttafólk 113
stríðstímum vegna þess að þeir eru góðir föðurlandsvinir? Vegna viðleitni þeirra
til þess að bjarga tölfræðilegu lífi gyðinga vitum við að sjálfsvígstíðni gyðinga var
lægst allra siðaðra þjóða. Ég er viss um að þessar tölur eru ekki lengur réttar, en
ég get ekki sannað það með nýjum tölum, þótt ég geti það vissulega með nýrri
reynslu. Það gæti nægt þeim efasemdasálum sem voru aldrei fyllilega sannfærðar
um að mælingar á höfuðkúpum gætu sagt nákvæmlega til um innihald þeirra, eða
að glæpatíðni geri siðferðisstigi þjóðar góð skil. Alla vega, hvar svo sem evrópskir
gyðingar búa í dag, fer hegðun þeirra ekki lengur eftir tölfræðilegum lögmál-
um. Sjálfsvíg eiga sér ekki bara stað á meðal óttasleginna gyðinga í Berlín og
Vín, í Búkarest og París, heldur í New York og Los Angeles, í Búenos Aíres og
Montevídeó.
Aftur á móti hefur lítið verið sagt frá sjálfsvígum í gettóunum og fangabúðun-
um sjálfum. Vissulega er fátt um frásagnir frá Póllandi, en við erum nokkuð vel
upplýst um fangabúðirnar í Þýskalandi og Frakklandi.
Þegar ég dvaldi um stund í fangabúðunum við Gurs, heyrði ég einungis einu
sinni minnst á sjálfsvíg, og var þá um að ræða tillögu að samhentri aðgerð, eins
konar mótmæli til þess að ergja Frakkana. Þegar sum okkar höfðu orð á því að
við hefðum hvort sem er verið send þangað „pour crever“2, fylltist andrúmsloftið
af ofsafengnu hugrekki til lífs. Það var viðtekin skoðun að maður þyrfti að vera
óeðlilega ófélagslyndur og afskiptalaus um málefni líðandi stundar til að geta
túlkað þessa hendingu sem persónulega og einstaklingsbundna óheppni og endað
líf sitt samkvæmt því á persónulegan og einstaklingsbundinn hátt. En þetta sama
fólk, um leið og það sneri aftur til eigin lífs og stóð frammi fyrir að því er virtist
einstaklingsbundnum vandamálum, tók enn á ný upp þessa brjálæðislegu bjart-
sýni sem er næsti bær við örvæntinguna.
Við erum fyrstu trúlausu gyðingarnir sem eru ofsóttir – og við erum þeir
fyrstu sem svörum með sjálfsvígum, ekki einungis á ögurstundu. Kannski hafa
þeir heimspekingar á réttu að standa sem segja að sjálfsvíg sé síðasta og æðsta
tryggingin fyrir frelsi mannsins; verandi ófær um að móta eigið líf og skapa
heiminn sem við lifum í, erum við engu að síður frjáls til þess að kasta lífinu frá
okkur og yfirgefa heiminn. Guðhræddir gyðingar geta auðvitað ekki raungert
þetta neikvæða frelsi: þeir sjá morð í sjálfsvígi, það er, eyðileggingu þess sem mað-
urinn getur aldrei skapað, brot á rétti Skaparans. Adonai nathan veadonai lakach
(„Drottinn gaf, drottinn tók aftur“); og svo bæta þeir við: baruch shem adonai („sé
drottins nafn lofað“). Fyrir þeim táknar sjálfsvíg, líkt og morð, guðlast og árás á
sköpunarverkið í heild. Sá sem fremur sjálfsvíg fullyrðir að lífið sé ekki þess virði
að lifa, og heimurinn ekki þess virði að leita skjóls í.
En þau okkar sem fremja sjálfsvíg eru ekki brjálað uppreisnarfólk sem storkar
lífinu og heiminum og reynir að drepa í sjálfum sér heiminn allan. Hvarf þeirra
er hljóðlátt og hógvært, þau virðast biðjast afsökunar á þessari ofbeldisfullu lausn
sinni á persónulegum vandamálum. Pólitískir atburðir hafa að þeirra mati ekk-
ert með örlög þeirra sem einstaklinga að gera; á góðum stundum sem slæmum
2 Franska: til þess að drepast.
Hugur 2019-Overrides.indd 113 21-Oct-19 10:47:08