Hugur - 01.01.2019, Síða 122
122 Antonio Casado da Rocha
rætt. Eins og við munum sjá, þá getur landslagið blekkt: stundum má túlka það
sem við komum auga á með margvíslegum hætti.
Lítum aftur í dagbókina. 3. október árið 1859 var með meiri haustbrag og kaldari
en dagarnir á undan. Í dagbókinni lýsir Thoreau því hvernig hann langaði að setj-
ast niður í skjólgóðu og sólríku rjóðri. Hann hafði gengið út að Bateman-vatninu
og á leið sinni til baka um gamla Carlisle-slóðann tók hann eftir bláleitum reyk
sem steig upp af strompi á sveitabæ í skóginum þar sem einhver fjölskylda var
eflaust að hafa til kvöldmat. „Af því sem fyrir augu göngumannsins ber er fátt jafn
hugnæmt,“ skrifaði hann og gerði sér í hugarlund að þar sem reykurinn stigi upp
væri allt með ljúfum heimilisbrag, svikalaust. En hann var þess líka meðvitaður að
þetta var bara hugarsmíði, og að í meiri nálægð við veruleika sveitabæjarins væri
ekki víst að myndin yrði jafn ljúf og sú sem göngumaðurinn gerði sér í hugarlund.
Þetta leiddi Thoreau yfir í langar hugleiðingar um það hvernig við fegrum allt sem
við sjáum. Þetta er hans niðurstaða:
Hvers vegna heillumst við af hlutum sem við sjáum úr fjarlægð? Vegna
þess að umsvifalaust og ófrávíkjanlega ímyndum við okkur að því lífi
sem þar er lifað sé ekki lifað annars staðar, eða ekki þar sem við erum
sjálf. Við gerum ráð fyrir að velgengni sé reglan. Við göngum ævinlega
um með fullkomið dæmi í huganum. Hvers vegna finnst okkur fjarlægir
dalir, hvers vegna vötn, hvers vegna fjöll úti við sjóndeildarhringinn vera
falleg? Vegna þess að við áttum okkur á því eitt augnablik að þau geta
verið heimili manns, og að líf þessa manns kunni að vera í samhljómi
með þeim. Ætti ég að segja að við blekkjum okkur ævinlega? Við gerum
ekki ráð fyrir því að þessi bóndi fari með mjólkina í samlagið. Þarna er
mjólkin ekki þynnt með vatni. Við erum skilyrt til að ímynda okkur líf
í samhljómi við landslagið og augnablikið. Himinninn og skýin, og sjálf
jörðin, með fegurð sinni, tala sífellt til okkar og segja: Við bjóðum þér
slíkt heimili, við hvetjum þig til að lifa svona og svona lífi. Þar er ekki
þrúgandi fátækt og engar plagandi skuldir. Þar finnst ekki græðgi, geð-
vonska, illgirni eða dónaskapur. Menn fara um og teikna, mála landslag,
eða yrkja upphafin ljóð um tækifæri mannsins. Að fara inn á raunveru-
legt sveitaheimili að kvöldlagi, sjá þreytta vinnumennina koma heim
eftir dagsverkið hugsandi um launin sem þeir fá, subbulega húshjálpina í
eldhúsinu og þvottahúsinu, afskiptalausa deyfðina og hreinan ömurleik-
ann sem einungis ákafi hinna yngstu nær að hefja sig yfir – það vekur
upp tilteknar hugrenningar. Að horfa á þetta þak úr fjarlægð á síðdegi
í október, þegar reykurinn stígur friðsamlega til himins og sameinast
skýjunum ofar – það vekur upp annars konar hugrenningar. Við höldum
að við sjáum þessi ljúfu heimili og verðum orðlaus af gleði, þegar við
sjáum einungis okkar eigin þök, kannski. Við erum sífellt upptekin við
að finna okkur hús og jarðir og fylla þau af fólki í okkar eigin hugarheimi.
Hugur 2019-Overrides.indd 122 21-Oct-19 10:47:08