Litli Bergþór - 01.06.2022, Side 36

Litli Bergþór - 01.06.2022, Side 36
Í sumar verða liðin 45 ár frá því er hellirinn Halur fannst í Lambahrauni. Vaskir piltar úr Tungunum voru við girðingavinnu á vegum Landgræðslunnar sumarið 1977 og einn þeirra var Ómar Sævarsson frá Heiðmörk í Laugarási sem er helsti heimildarmaður minn um fund hellisins. Hann fékk hjálp frá fyrrum vinnufélaga til upprifjunar á þessum atburði. Lambahraun er í raun gríðarstór gosdyngja en hún ber eiginlega ekkert annað nafn en nafn hraunins sem frá henni hefur runnið. Staðsetning Lambahrauns, suður af Langjökli, markast nokkurn veginn af Hagafelli, Hlöðufelli, Högnhöfða, Sandfelli og þaðan rann hraunið suðvestur með Bjarnarfelli, norðan Hlíðabæja, vestur undir Brúará við Efstadalsfjall. Ýmsir afmarkaðir hlutar hraunsins bera önnur nöfn, svo sem Svínahraun, Innhraun og Úthlíðarhraun. Má segja að dyngjan sé svo stór að hún sjáist ekki því hún er svo víðáttumikil og flöt að dyngjulögunin sést einungis í mikilli fjarlægð. Hraunið fer samt sem áður ekki framhjá neinum. Næsta dyngja fyrir vestan, Skjaldbreiður, er hins vegar greinileg dyngja enda mun hærri. Dyngjur hafa gíg í miðju og heitir gígur Lambahrauns og nánasta umhverfi hans Eldborgir. Hraunin úr Eldborgum sem runnið hafa einhverntíma á þúsund ára tímabili, frá því fyrir um 3000 til 4000 árum síðan, eru u.þ.b. 200 km2 og magn þeirra er talið vera 6 – 8 km3. Helsti fundarstaður hella er í dyngjuhraunum og það helgast af því að í dyngjugosum er hraunflæðið frá toppgígnum jafnan lítið á yfirborði en þunnfljótandi hraunbráðin rennur þess í stað neðanjarðar í gegnum göng. Þegar innstreymið í hraunrásina stöðvast svo á endanum þá stendur tóm rásin eftir með þaki yfir og hraunhellar myndast, sumir mjög langir. Fáir hraunhellar hafa fundist í Lambahrauni, þrátt fyrir góð skilyrði til hellasmíði og segir Gísli Sigurðsson í bók sinni, Fjallajarðir og framafréttur Biskupstungna, að ætla megi að þeir stærstu séu enn ófundnir og að mikill foksandur í hrauninu hefti hellakönnun. Meðal þeirra hella sem fundist hafa í Lambahrauni eru m.a. Halur, Hrauntúnshellir, 36 Litli-Bergþór Miðhúsahellar, þ.m.t. Þorsteinshellir og sá sem er þeirra þekktastur, Jörundur. Það sem vekur yfirleitt mesta athygli í hraunhellum eru dropsteinar og hraunstrá sem myndast hafa þegar afgangsbráð drýpur inn í hellinn úr lofti og veggjum eftir að hraunstreymi er að mestu leyti hætt og storknun hellsins langt komin. Hraunmyndanir í hellum eiga það sameiginlegt að vera viðkvæmar og þola margar þeirra ekki minnstu snertingu án þess að brotna. Hellar haldast oftast óbreyttir í árþúsundir eða þar til ferðafólk tekur að leggja leið sína í þá. Dropsteinar og aðrar hraunmyndanir hafa verið brotnar niður og fjarlægðar í mörgum hellum landsins. Björn Hróarsson jarðfræðingur lýsir Jörundi á þennan hátt í bók sinni Hraunhellar á Íslandi: Á hellisveggjum ægir saman öllum regnbogans litum þó mest beri á sterkum rauðum og gulum litum… Litirnir stafa flestir af oxun járnsins í hrauninu og hafa efnahvörfin gengið hraðast við sprungur og aðrar glufur í veggjum hellisins. Innstu hundrað metrar Jörundar eru þaktir dropsteinsmyndunum. Lengstu dropsteinarnir eru yfir metri á hæð en þúsundir steina eru yfir hálfur metri á hæð. Jörundi var lokað stuttu eftir að hann fannst og það hefur vafalaust bjargað honum frá skemmdum en Björn Hróarsson taldi hellinn vera einn glæsilegasta hraunhelli jarðarinnar. Hver er þessi Halur? Hjónin frá Haukadal, Kristín Sigurðardóttir og Greipur Sigurðsson, kíkja niður í hellinn Hal glaðbeitt á svip.

x

Litli Bergþór

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.