Andvari - 01.01.2017, Síða 18
ANDVARI BJÖRN ÞORSTEINSSON 17
og siðaskiptin á Norðurlöndum dregur hann upp breiða sviðsmynd af
mannlífi Vesturlanda á 16. öld. Með landafundunum á fyrri hluta ald-
arinnar hafi orðið slíkar breytingar að um byltingu hafi verið að ræða.
En jarðvegur þeirra hugmynda sem þá spruttu var efnislegur og pól-
itískur:
Fyrsta skeið nýju aldarinnar er venjulega kennt við landafundi og siðabót
eða siðaskipti í sögu Evrópu, þar eð Evrópubúar heyja látlausar orðasennur
og hildarleiki um trúmál á þessu tímabili. Þessar trúarbragðadeilur voru hin
stórpólitísku átök þess tíma milli auðvalds og lénsskipulags, konungsvalds og
kirkjuvalds, bænda og landeigenda, verkamanna og atvinnurekenda, og allir
þessir aðilar stóðu með biblíuna í höndunum og játuðu sérstaka trú. En upp úr
öllum guðfræðistælunum reis smám saman pólitísk flokkaskipting, sem ein-
kennt hefur borgaralegt þjóðfélag.27
Siðbót Lúters var, að dómi Björns, til komin af því að í Þýskalandi
hafði ekki myndast öflugt ríkisvald sem brotið hefði furstaveldi mið-
alda á bak aftur og sett upp höfuðstöðvar í stórum verslunarborgum
líkt og London á Englandi og París í Frakklandi. Í sunnanverðri álf-
unni var kaþólska kirkjan orðin „tæki stjórnvaldanna í stórpólitískri
baráttu tímabilsins“ og siðbót því andstæð hagsmunum þeirra sem með
völdin fóru. Allt öðru máli gegndi um Þýskaland. Það skiptist í fjöl-
mörg furstadæmi sem höfðu lítið bolmagn til þess að verjast „fjárplóg
páfastóls“. Gagnrýni Lúters á aflátssöluna var furstunum því sérlega
geðþekk og siðbót hagsmunamál þeirra. Síðan gerir Björn grein fyrir
þróun mála í Danmörku, átökum helstu stétta samfélagsins um völdin
og vekur athygli á því að sigurvegarinn í þeim hildarleik, Kristján
konungur III, var sjálfur hliðhollur hinum nýja sið og naut atbeina
aðalsins. Þar var kaþólska kirkjan ekki tæki stjórnvalda heldur and-
stæðingur sem þurfti að beygja til hlýðni. Eftir þennan inngang hefst
venjubundin atburðasaga þar sem Jón biskup Arason er í höfuðhlut-
verki. Í þeirri frásögn hikar Björn ekki við að nota gildishlaðin nú-
tímahugtök eins og „milljónarar“, íhaldsmenn“ og „afturhaldsöfl“. Hér
kynnumst við aðferð sem varð síðar mjög dæmigerð fyrir Björn, að
láta ekki sögu Íslands gerast í lokuðu rými heldur leita orsaka og sam-
hengis í því sem átti sér stað í nágrannalöndum okkar. Sviðsmyndin
varð að vera skýr. Þá fyrst var hægt að snúa sér að Íslandi.
Til samanburðar er fróðlegt að líta á grein sem Þorkell Jóhannesson
ritaði um Jón Arason í Skírni af sama tilefni.28 Þar lætur hann nægja í