Andvari - 01.01.2017, Síða 114
ANDVARI ÍSLENDINGASÖGUR Í MÓTUN 113
Allar þessar útgáfur frá 1856 til 1884 eru útgáfur stakra sagna. Engin
heildarútgáfa Íslendingasagna er prentuð á Íslandi fyrir 1890 og raun-
ar ekki heldur í Kaupmannahöfn þó að heitið Íslendingasögur hafi verið
notað þar nokkrum sinnum á 19. öld á safnútgáfur 5-7 sagna. Ýmsar þær
Íslendingasögurnar sem mest var um rætt á 20. öld höfðu raunar enn ekki
verið prentaðar á Íslandi árið 1890, til að mynda Hrafnkelssaga Freysgoða
og Fóstbræðrasaga,19 sem kann að sæta tíðindum í ljósi þess hve fyrirferðar-
miklar Íslendingasögur urðu í fræðilegri umræðu um íslenskar miðaldabók-
menntir á 20. öld – og raunar ekki síst þessar tvær sögur.
Það má því segja að útgáfuhefð Íslendingasagna sé enn tiltölulega lítt
fastmótuð árið 1890 og eitt af því sem enn virðist ekki liggja fyrir er end-
anlegur fjöldi þeirra sagna sem ættu heima í heildarútgáfu flokksins. Allir
flokkar eru skilgreindir af þeim einstöku persónum eða hlutum sem heyra
hópnum til. Um 1890 er vart hægt að segja að það sé alveg komið á hreint
nákvæmlega hvaða texta beri að telja til Íslendingasagna.
Árið 1890 er hin fræðilega umræðuhefð um sögurnar þannig enn í mótun.
Engin yfirlitsrit eru enn til þar sem skilgreint er hvaða sögur teljist til
Íslendingasagna en árin 1894-1902 kom svo út áhrifamikil bókmenntasaga
Finns Jónssonar (Den oldnorske og oldislandske Litteraturs Historie) hjá Gad
í Kaupmannahöfn. Þar birtist okkur nokkurn veginn sami flokkur og enn er
skilgreindur sem Íslendingasögur („De gamle slægtsagaer“) en að vísu ekki
í einu lagi því að Finnur gerir greinarmun á þeim sem hann telur sögulegar
(flestallar sögurnar) og þeim sem séu tilbúningur („opdigtede sagaer“) en það
eru fáeinar „unglegar“ sögur, s.s. Harðarsaga, Finnbogasaga, Þórðarsaga
hreðu, Víglundarsaga, KrókaRefssaga og Bárðarsaga.20 Í þessum yngri
sagnaflokki eru einmitt margar þær sögur sem Björn Markússon hafði gefið
út á Hólum árið 1756.
Fyrir daga Finns voru sárafá yfirlitsrit um íslenskar miðaldabókmenntir
sett saman en þó má nefna hið gagnmerka rit Peter Erasmus Müller síðar
biskups á Sjálandi (1776–1834), Sagabibliothek med Anmærkninger og ind
ledende Afhandlinger sem hafði talsverð áhrif á skilgreiningu og afmörkun
fornaldarsagna Norðurlanda, eins og Philip Lavender hefur nú dregið fram.21
Fyrsta bindi þessa rits kom út árið 1817 og þar er fjallað um rit um íslensk
efni. Sögurnar 35-40 sem alla 20. öld voru flokkaðar sem Íslendingasögur
eru þar innan um Íslendingaþætti, Íslendingabók Ara, Landnámabók, bisk-
upasögur og sögur Sturlungu.
Fyrir utan þær sögur sem enn má finna í yfirlitsritum um fornsögur fékk
Ármannssaga að fljóta með hjá Müller en hennar er að engu getið í bók-
menntasögu Finns eða síðari yfirlitsritum um Íslendingasögur. Halldór
Jakobsson sýslumaður (1735–1810) hafði gefið hana út í Hrappsey árið
1782 og hún var aftur gefin út á Akureyri árið 1858.22 Ef hún væri talin til