Andvari - 01.01.2017, Qupperneq 151
150 PÁLL BJARNASON ANDVARI
Heimspekingurinn ungi, sem talaði um ástir Jónasar, var Ágúst H. Bjarnason
(1875-1952), síðar prófessor, mikilvirkur fræðimaður og rithöfundur. Hann
birti aldrei efni fyrirlestrarins á prenti en handrit hans varðveittist með öðrum
óflokkuðum gögnum sem afkomendur Ágústs héldu til haga. Sonarsonur
hans og alnafni, grasafræðingur, hóf nýlega að flokka efnið sem fyllti marga
pappakassa, rakst þá á handritið og var svo vinsamlegur að ljá mér það.
Nafn höfundar er ekki á handritinu, en rithöndin bendir til Ágústs og tilefnið
kemur skýrt fram í lokaorðunum. Upphaf handritsins er þannig, stafrétt:
Kæru áheyrendur!
Ekki ætla jeg að tala um skáldið Jónas Hallgrímsson heldur lítilsháttar um
manninn sjálfan. Nokkuð er nú frá því liðið að Jónas lifði, full 50 ár, og sagnir
af æfi hans þessvegna farnar að verða óljósar, hafi þær verið nokkrar. Jónas
var svo dulur maður að hann sagði fátt af högum sínum; jeg hef því lítið annað
að bera á borð fyrir yður hjer en munnmæli þau, sem lifað hafa í minnum ein-
stakra manna og eru því mörgum kunn af afspurn. En það sem jeg aðallega
ætla að tala um, eru ástir Jónasar Hallgrímssonar.
_________ „ _________
Prestur nokkur var að flytja sig búferlum norður í land úr Rvk að taka þar við
brauði. Hann hjet G. og hafði lengi verið skrifari hjá Geiri biskupi. Nú tók
hann prestskap og var þá um fimtugt. Hann átti eina dóttur barna, Þ. að nafni;
var hún með í förinni og átti að verða ráðskona hjá föður sínum, þó hún væri
þá aðeins 16 ára að aldri. Þetta var um hásumar, er hann flutti norður. Höfðu
þá skólapiltar frá Bessastöðum slegist með í ferðina, og einn þeirra, er var
rúmlega tvítugur, var um það bil útskrifaður eða að útskrifast úr skóla. Það
var Jónas Hallgrímsson.
Fátt segir af einum og enda af tveimur, þegar um ástir er að ræða, en svo
mun þeim Jónasi og dóttur prests hafa verið farið, að þau felldu hug hvort til
annars. Hefir svo sagt mjer frænka [fyrst skr. hálfsystir, en strikað yfir] stúlk-
unnar. Þau munu hafa lofast hvort öðru þá í ferðinni, en það ráð tókst ekki, því
faðir stúlkunnar var því andvígur. Þótti honum vera farið að bera á staðleysi
hjá Jónasi, og áleit þetta því ekki glæsilegan ráðhag til handa dóttur sinni. Hún
var síðan gipt hálft um geð presti einum, sjera H..., en það sagði hún, að hún
mundi hafa getað unnað Jónasi alla tíð, hefðu þau fengið að njótast, og þegar
hún las kvæði hans „Ferðalok“ í Fjölni mörgum árum síðar, lagðist hún upp í
rúm og grjet.
Höfundur skammstafar nöfn Þóru, sr. Gunnars föður hennar og sr. Halldórs
Björnssonar, en hvorki Jónasar né Geirs biskups. Nú er ekki vitað hvort hann
nefndi nöfnin í upplestri, en líklegt má telja að hann hafi haldið sumum
nöfnum leyndum af tillitssemi við nákomna. Af sömu sökum hefur hann