Orð og tunga - 2023, Page 29
20 Orð og tunga
bölvaður með því að setja saman nafn upphafsstafsins bé og síðari hluta
orðsins (v)aður og á sama hátt er bésettur, sem dæmi er um í ROH,
myndað af bannsettur. Orðmyndin défill hefur verið skýrð á sama hátt,
þ.e.a.s. sem upphafsstafur orðsins djöfull að viðbætt um síðari hluta þess
(Guðrún Kvaran 2007), en Halldór Halldórs son (1987 (3)) taldi hins
vegar að hún væri sprottin af hljóðbreytingu sem breytti djö í dje með
afkringingu, sbr. tvímyndir annarra orða eins og smjör og smér.
Enn má telja sérstaka orðmyndun sem Halldór Halldórsson (1987
(5)) kallaði samrunaorð eða blendinga og virðist gegna svipuðu hlut
verki, þ.e.a.s. að draga úr styrk blótsyrða. Hún felst í því að tveimur
samsettum eða afleiddum blótsyrðum er slegið saman. Oftast eru
það orð sem hvort um sig er tvö myndön (auk beygingarendingar)
og þá er fyrra myndaninu úr öðru þeirra og síðara myndaninu úr
hinu slegið saman. Þannig hafa orðið til blótsyrðin an(d)svíti (eða
assvíti) úr orðunum an(d)skoti/asskoti og helvíti, déskoti úr orðunum
défill (eða nafni fyrsta bókstafsins í djöfull) og andskoti og bévíti úr heiti
upphafsbókstafsins í orðinu bölvaður (sbr. orð eins og bé(v)aður) og
síðari orðhlutanum úr helvíti. Einnig má nefna orðið asskolli sem er
sett saman úr fyrri lið orðsins asskoti og ósamsetta orðinu skolli. Dæmi
um öll þessi orð má finna bæði í MÍM og ROH og þau þeirra sem eru
uppflettiorð í orðabókum eru þar talin væg blótsyrði.3
Ætla má að grunnhlutverk ofangreindra orðmyndunaraðferða,
sem eru óvenjulegar og fyrst og fremst einkennandi í blótsyrðum,
hafi verið það að mynda einhvers konar feluorð á tímum þegar meiri
bann helgi fólst í því að nefna Satan, púka hans og ríki en nú er. Þannig
voru blótsyrðin slitin frá orðunum sem liggja þeim til grundvallar
í eiginlegri merkingu þeirra. Um leið eru nýmyndanirnar almennt
vægari blótsyrði en grunnorðin og tilvist þeirra stuðlar þannig að
ríkari orðaforða og auknum möguleikum á merkingarblæbrigðum á
þessu sviði málsins.
Önnur og öllu hefðbundnari orðmyndun eru samsett orð með
blóts yrði sem síðari lið, t.d. mannfjandi, hommadjöfull, lögguhelvíti,
dreng andskoti, kattarfjandi o.s.frv., orð sem eru sérstök að því leyti
3 Sagnir hafa líka verið leiddar af orðunum djöfull, andskoti, fjandi og e.t.v. fleirum:
djöfla(st), andskota(st) og fjanda(st). Í ROH eru dæmi um þessar sagnir frá 19. og
20. öld, þar á meðal dæmi sem tengjast blóti, t.d. „Mèr er sama þó þú andskotir
mèr út, djöflir mèr undir allar neðstu hellur helvítis.“ (1900) og „Hafðu helvízka
skömm fyrir lesturinn! Þeir eru allir komnir til andskotans. Eg held það sé bezt,
að við fjöndumst á eptir.“ (1914). Almennt eru sagnirnar þó ekki notaðar sem
blótsyrði og í orðabókum eru þær ekki merktar sem slík (þær eru oftast í miðmynd
og merkja þá t.d. ‘hamast’). Það verður því ekki fjallað frekar um þær hér.
tunga25.indb 20 08.06.2023 15:47:14