Orð og tunga - 2023, Side 33
24 Orð og tunga
h. „Nú, hver andskotinn, ég þekkti þig ekki“ sagði Smári.
i. „Djöfull maður, þetta fer alveg með mig.“
j. „Ja, hver fjandinn, kona, það er rétt hjá þér, ég er 86 ára
gamall.“
k. Hey ... hvur skrambinn!! Ég ætlaði að vera geigt snéðug.
l. „Þremillinn sjálfur“, sagði Hallkell ergilega.
m. „Fokk. Þetta var alveg glatað.“
n. Shit, hvað það væri mikil snilld!
o. sjitt maður ég var búinn að skrifa geðveikan pistil [...]
þegar ég ýtti á einhvern hnapp sem eyddi öllu út.
Í öllum dæmunum í (3) kemur blótið fram í beinni ræðu, annaðhvort
í tilsvari ‒ raunverulegu eða skálduðu (flest dæmin hér eru úr skáld
sögum) ‒ eða persónulegum texta sem skrifaður er í eigin nafni (í þessu
tilviki bloggtextum). Yfirleitt stendur blótsyrðið eða blótsyrðaliðurinn
sjálfstætt í upphafi segðarinnar, langoftast í nefnifalli. Í (3c‒d) eru þó
eignarfallsmyndirnar andskotans og helvítis án þess að neinn fallvaldur
sé nærri.6 Eignarfallsmyndir blótsyrða – og reyndar fleiri myndir –
koma oft fyrir í óvenjulegri stöðu í setningum og það gæti bent til
vaxandi aðskilnaðar milli blótsyrðanna í margvíslegum myndum og
samsvarandi nafnorða í eiginlegri merkingu (sjá nánar í 4.3). Blótsyrðið
er þarna eins konar upphrópun, án beinna setningafræðilegra tengsla
við það sem fer á undan eða eftir, en í sumum dæmanna er þó
ákvæðisorð með blótsyrðinu sem myndar setningarlið með því, hver/
hvur í (3h, j og k) og sjálfur í (3g og l). Óákveðin fornöfn, eins og þau
sem birtast í þessum dæmum, eru algeng í slíkum blótsyrðaliðum.
Ávarpsorð getur fylgt upphrópunum af þessu tagi, maður í dæmum
(3i og o) og kona í (3j), en það er ekki hluti af blótinu og einungis
laustengt því. Það sama á við um orðræðuagnirnar nú í dæmi (3h),
ja í (3j) og hey í (3k) sem koma á undan blótinu og gætu varla staðið
annars staðar þótt almennt sé blótsyrðaliðurinn í upphafi segðar.
Nýleg tökublótsyrði úr ensku, t.d. fokk og shit/sjitt í (3m‒o), koma
oft fyrir í slíkum segðum. Notkun sumra þeirra, sérstaklega shit/sjit
og damn, er að mestu leyti bundin við slíkar upphrópanir. Fleiri dæmi
eru sýnd í (4).
6 Við fyrstu sýn gæti manni dottið í hug að blótsyrðið í (3b, d og l) væri andlag
sagnarinnar segja en ef svo væri ætti það að vera í þolfalli. Í þessum dæmum er það
öllu heldur tilsvarið í heild sem er andlag með sögninni, þ.e.a.s. öll beina ræðan
sem afmörkuð er með gæsalöppum. Í þessum tilvikum er það bara eitt orð eða
einn nafnliður en í (3h) er tilsvarið t.d. mun lengra.
tunga25.indb 24 08.06.2023 15:47:14