Orð og tunga - 2023, Side 57
48 Orð og tunga
koma í ljós í textum um miðja 19. öld. ROH hefur sjö dæmi frá þeirri
öld og við leit á Tímarit.is fundust níu til viðbótar. Ekki er unnt að segja
hversu algeng sögnin hefur verið í aldanna rás. Það getur vel verið
tilviljun að hún komi svo sjaldan fyrir í varðveittum textum, a.m.k.
þeim sem hafa verið orðteknir fyrir orðabækur. En sögnin gæti líka
hafa verið ókunnugleg og sjaldgæf. Þess má geta að í gagnagrunni um
1.640 íslenskra einkabréfa frá 19. öld, með yfir 900.000 lesmálsorðum,
eru engin dæmi um sögnina.7
2.2 Merking eldri sagnarinnar
Í nútímamáli hefur gamla sögnin fokka tvær grunnmerkingar sem eru
einkennilega fjarlægar hvor annarri. Í ÍO (2002) er greint á milli þeirra
undir sömu flettu og báðar merktar sem óformlegt mál.8 Annars vegar
er grunnmerkingin sögð vera ‘gaufa, dunda’ og hins vegar ‘sleppa
eu, láta fara’. Ekki eru notkunardæmi um fyrri merkinguna en um
þá seinni, sem einkum er að finna í orðasambandinu láta (eð) fokka,
eru sýnd notkunardæmin láta aurana fokka og láta það fokka sem manni
dettur í hug. Í 2. útgáfu Íslenskar orðabókar (1983) var síðari merkingin
merkt sem óformleg en báðar merkingar voru án athugasemda í
fyrstu útgáfu (1963).
Notkun sagnarinnar í merkingunni ‘sleppa’ virðist eldri en í
merkingunni ‘dunda’. Það sést nokkuð glöggt af dæmum í ROH og fær
frekari staðfestingu af dæmaleit á Tímarit.is og annars staðar. Í næsta
kafla verður fyrst fjallað um sögnina í þessari eldri merkingu, einkum
í orðasambandinu láta (eð) fokka og sambærilegum orðasamböndum.
Þegar því er lokið verður fjallað um orðið í merkingunni ‘gaufa,
dunda’.
2.2.1 Merkingin ‘sleppa, láta fara’
Um 115 dæmi komu í ljós á Tímarit.is um sögnina í merkingunni
‘sleppa, láta fara’. Elstu dæmin eru frá miðri 19. öld (1850). Í nær
öllum er sögnin í nafnhætti og á undan henni oftast sögnin láta +
andlag (stundum ósagt). Nokkrum sinnum eru þar aðrar hjálpar eða
háttarsagnir eða sagnir sem notaðar eru sem slíkar, eiga (eitt dæmi), fá
7 Sjá http://brefasafn.arnastofnun.is/ (rannsóknarverkefnið Málbreytingar og tilbrigði
í íslensku máli á 19. öld: tilurð opinbers málstaðals).
8 Orðabókin greinir á milli þessarar eldri sagnar og yngra tökuorðsins (úr e. fuck),
sem er skráð sem sérstök fletta.
tunga25.indb 48 08.06.2023 15:47:15